Mánudagur 03.03.2014 - 08:20 - 4 ummæli

Samningssvigrúmið: Tímasetning atkvæðagreiðslunnar

Rétt sem Ólafur Stephensen segir í leiðara Fréttablaðsins: Alveg einsog stjórnarflokkarnir hafa afar takmarkaða siðræna heimild til að fleygja í ruslið skýrum kosningaloforðum sínum um þjóðaratkvæðagreiðslu hafa stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi afar takmarkað umboð til samninga um afslátt á þessum sömu kosningaloforðum.

Þingmenn Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata stóðu sig vel í sjálfsögðu málþófi gegn fautaskap ráðherranna – en þessi átök standa ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á alþingi, enda væri slagurinn þá fyrir löngu tapaður, heldur á milli forustu Framsóknarsjálfstæðisflokksins og um 80 prósenta þjóðarinnar.

VG-tillagan um „formlegt hlé“ og þjóðaratkvæðagreiðslu „á kjörtímabilinu“ (sem svo væri hægt að skilgreina sem teygjanlegt hugtak) – hún var kannski í þolanlegu lagi á þriðjudaginn í síðustu viku.

Nú er staðan önnur. Mér sýnist að leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi sirka það svigrúm að geta samið um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, hvort hún verði haldin í haust*)  eða vorið 2015.

Þetta þarf svo að festa niður með lögum sem forseti Íslands skrifar undir og tekur þannig þátt í að framkvæma þjóðarviljann.

 

*) Þingmeirihlutinn neitaði í síðustu viku að taka á dagskrá tillögu Pírata um atkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þar með er komið fram yfir tímamörk laga um atkvæðagreiðslu á skaplegum tíma fyrir sumarfrí.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • kristinn geir st. briem

    þykir altaf gaman af því þegar menn þykjast þekkja þjóðarviljan en er hrifin af þessari lagsetníngarhugmind og forsetinn hafi seinasta orðið. hvernig hún verður orðuð og eða hvort eiga vera einhverjar dagsetníngar er er aftur spurníngamerki sem verður að semja um milli stjórnar og stjórnaranstöðu.
    meiginmálið er að hafa það þannig orðað að það fari fram þjóðarathvæðagreiðsla áður en viðræðum verður haldið áfram

  • Kristján Elís

    það var samþykkt tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu á Alþingi í júlí 2009 var það ekki? hún var ekki tímasett vegna þess að það var ekki vitað hve langan tíma það tæki að safna öllum upplýsingum saman handa þjóðinni til þess að hún gæti tekið upplýsta afstöðu. Hvernig væri nú að drífa í að afla þessara upplýsinga og ákveða svo kosningadaginn

  • Ríkisstjórnarflokkarnir fengu yfirburða kosningu í síðustu þingkosningum og að baki ríkisstjórninni eru 38 þingmenn.
    Samfylkingin og vinstri grænir guldu afhroð í kosningunum eftir fjögurra ára stjórnarsetu. Þjóðin felldi þar dóm yfir vinstri stjórninni og verkum hennar með svo afgerandi hætti að önnur eins dæmi þekkjast ekki frá lýðveldisstofnun. Samfylkingin með ESB aðild sem sitt helsta kosningamál náði með herkjum að skríða yfir tveggja tölu markið en núverandi stjórnarflokkar sem báðir lögðu áherslu á andstöðu við inngöngu í ESB sigruðu með yfirburðum.
    Þrátt fyrir þessar staðreyndir er ríkisstjórnin í bullandi vandræðum með yfirstandandi herferð Evrópusinna en krafan er þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og má segja að ríkisstjórnin sé á góðri leið með að tapa áróðursstríðinu ef ekki verður spyrnt við fótum.
    Vissulega er við ramman reip að draga. Tapararnir frá síðustu kosningum fara fram með offorsi og stóryrðum í þinginu. Evrópusinnar í Sjálfstæðisflokknum sem mælst hafa vera um 10% flokksmanna eiga sér sterka málsvara m.a. í fyrrverandi formanni og varaformanni flokksins og síðan eru mótmælastöður á Austurvelli með að jafnaði um 3000 manns, álíka og fylgi Framsóknarflokksins í Reykjavík og hefur hingað til ekki þótt burðugt.
    Og málstað Evrópusinna fylgja svo flestir fjölmiðlarnir eftir með grímulausum hætti og þar fer RUV fremst í flokki. Nýjasta dæmið er klippa ríkisfréttastofunnar úr þætti Gísla Marteins en þar var ekki minnst á framlag Höskuldar Þórhallssonar, Katrín Júlíusdóttir sem alla jafna hefur notið velvildar fréttastofunnar mátti þola þá óvirðingu að vera ekki að neinu getið; annar og betri kostur þótti þjóna málstað fréttastofunnar betur í það sinnið en það var málflutningur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
    Það er annars verðugt umhugsunarefni hversu lengi það á að líðast, að fréttastofa RUV komist upp með að brjóta allar sínar skráðu siðareglur um hlutlægni í fréttaflutningi. Mýmörg dæmi staðfesta það.
    Verst er í öllu þessu írafári, að örfáir ístöðulitlir stjórnarþingmenn virðast vera að bresta undan ofurþunga áróðursins en þeir hinir sömu verða að gera sér grein fyrir því, að þrjú ár eru eftir af kjörtímabilinu.
    Ef gefið er eftir í þessu máli af ótta við einhverjar afleiðingar sem í besta falli eru óljósar, fær hvert það mál sem ríkisstjórnin kann að leggja fram á næstunni sömu meðferð af andstöðunni. Stjórnarandstaðan er þá komin með vopn í hendur sem kann að hrekja ríkisstjórnina úr einu víginu í annað og eyðileggja þar með starfsfrið hennar til loka kjörtímabilsins.
    Ætlar ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn með sína 38 þingmenn að láta aumingjaskap af því tagi verða helsta vitnisburðinn um sína stjórnartíð?

  • Garðar Garðarsson

    Okkur var lofað að fá að kjósa um áframhald viðræðna og við það skal standa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur