Miðvikudagur 12.03.2014 - 10:42 - 4 ummæli

Stjórnarskrá í Evrópustefnu: 0/0

Gott hjá ríkisstjórninni að búa til stefnu um Evrópu, samskiptin við Evrópusambandið og samstarfið á Efnahagssvæði Evrópu.

Erfitt tæknilegt og pólitískt vandamál í því samstarfi undanfarin ár hefur skapast við það að á sífellt fleiri sviðum gengur samstarfið nærri þeim fullveldismörkum sem stjórnarskráin setur. Í stjórnarskránni er nánast ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að deila fullveldinu með aðild að sameiginlegum stofnunum. Og alls ekki að ríkið geti afsalað sér fullveldinu í hendur stofnunum sem það á ekki aðild að.

Alþingi hefur leyft sér að skrensa á þessum fullveldismörkum hvað eftir annað, vegna þess að tilvikin séu lítilvæg og alltaf Íslendingum í hag að vera með í fullveldisdeilingunni. Upp hafa þó komið síðustu misseri mál sem ekki hefur þótt stætt á að leysa með skrensi – af því að áreksturinn við stjórnarskrá lýðveldisins er of harkalegur.

Þetta eru mál útaf flugstarfsemi, loftslags-losunarheimildum, fjármálamörkuðum, lyfjum, skipaeftirliti, ríkisaðstoð og núna síðast vegna rannsókna yfir landamæri.*) Mismikilvæg mál en hrannast upp, og verður öll að leysa fyrr en síðar því annars er EES-samningurinn í hættu.

Með aðild að Evrópusambandinu og viðeigandi stjórnarskrárbreytingum mundi þetta leysast af sjálfu sér.

Án aðildar eykst vandinn í sífellu vegna þess að EES-samstarfið er í hraðri þróun í átt að einskonar fax-aðild að ESB án formlegra eða óformlegra áhrifa ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtensteins. Þeir sem ekki vilja halda áfram aðildarviðræðum þurfa þessvegna að svara til um stjórnarskrárbreytingar í stefnu sinni um Evrópumál. Hvað skyldi nú segja um þetta í hinni nýju Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar?

Ég prófaði að leita að orðinu stjórnarskrá í Evrópustefnunni. Svarið var: 0/0.

Reynið sjálf, skjalið er hér.

Ef viðræðum við ESB verður slitið þarf að vera alveg klárt hvað á að gera við EES-samninginn. Úr því ekki er svarað grundvallarspurningu einsog þessari kringum ,,annmarkamálin“ er ekki von til þess að Evrópustefnan nýja sé sett fram í alvöru af hálfu ríkisstjórnarinnar almennt og utanríkisráðherrans Gunnars Braga Sveinssonar sérstaklega.

 

 

 

 

 

— — —

*) Þetta eru kölluð annmarkamál – mál sem talið er hæpið að samrýmist fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar. Þau eru að minnsta kosti átta – fyrir utan sjálfa þátttökuna í EES 1993 og Shengen 1999:

* Við setningu nýrra samkeppnislaga árið 2005.

* Við framsal sektarvalds til ESA vegna flugstarfsemi árið 2011.

* Við undirbúning að þátttöku í Skráningarkerfi fyrir losunarheimildir (ETS) árið 2012.

* Vegna eftirlits með fjármálamörkuðum (banka-, trygginga-, lífeyris-, verðbréfa-, og fjármálaeftirlit) árið 2012. Um er að ræða þrjár reglugerðir (ESB) nr. 1093/2010, 1094/2010 og 1095/2010 sem varða banka-, trygginga-, lífeyris-, verðbréfa-, og fjármálaeftirlit. Framsal framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds.

* Vegna lyfja til barnalækninga árið 2012. Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 1901/2006 er varðar lyf til barnalækninga. Famsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna eftirlits með skipum (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 391/2009 er varðar eftirlit með skipum. Framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna eftirlits með ríkisaðstoð (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 734/2013 er varðar eftirlit með ríkisaðstoð. Framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna samtaka um rannsóknir þvert á landamæri (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (EB) 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC). Framsal dómsvalds.

          Heimild: Minnisblað úr þinginu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • „Með aðild að Evrópusambandinu og viðeigandi stjórnarskrárbreytingum mundi þetta leysast af sjálfu sér“, segir Mörður og er trúr þeirri sannfæringu, að með ESB aðild hverfi öll vandamál íslensku þjóðarinnar. Það vill bara svo til, að meirihluti þjóðarinnar leggur ekki trúnað á þann boðskap og kom það berlega í ljós í síðustu alþingiskosningum.
    Með vísan til þess er íslenska lýðræðið á stundum dálítið skondið. Ríkisstjórnin með 38 þingmenn á bak við sig á í vök að verjast í þingsalnum. Yfirlýst stefna hennar í ESB málum í hnút og forseti þingsins þjáður af þingsköpum fær ekki við neitt ráðið.
    Mestur valdsmaður þingsins þessa stundina er 12,9% foringi stjórnarandstöðunnar. Það er hann sem ákveður línuna, setur skilyrðin og skilmálana. Og það gerir hann í krafti yfirburða mælskulistar ásamt og með ómótstæðilegum persónutöfrum. Foringi búinn slíkum kostum þarf ekki nema nokkur prósent í þingkosningum til þess að ná yfirburða stöðu í þinginu og hafa öll ráð þess í hendi sér. Já, það getur stundum verið skondið íslenska lýðræðið.

  • Jájá, GSS — ,,leysast af sjálfu sér“ er nokkuð glannalega orðað. Ég á einfaldlega við það að ef við værum aðilar að Evrópusambandinu ætti lýðveldið fulltrúa í öllum stofnunum sem fyllveldi ríkjanna deilist til innan sambandsins. ,,Annmarkamálin“ væru úr sögunni.

    Annars áhugavert innlegg hjá þér. Þú hefur greinilega verið í útlöndum kjörtímabilið 2009-13 þegar minnihluti á þingi stöðvaði hvert málið eftir annað — og líklega sofandi í kosningabaráttunni í fyrravor þegar gefin voru þau skýru kosningaloforð sem núna á að henda á haugana.

  • Þegar minnisblað ríkisstjórnar SDG um stefnu hennar í Evrópumálum er skoðað, er ljóst að þema hennar er kyrrstaða.

    Núverandi staða hefur gengið í 20 ár án breytingar á stjórnarskrá Íslands og gæti þess vegna gengið í 20 ár til viðbótar. Það er hægt, eins óheppilegt og raun ber vitni, að taka við lögum gegnum EES án þess að Alþingi Íslendinga fái nokkuð að komið vegna þess að tæknilega er hægt að hafna þessum lögum.

    Auðvitað er það samt ekki hægt, þvi EES samningurinn er lífblóð íslensks efnahags og að hafna lögum sem koma gegnum EES er því óhugsandi.

    Ef hægt er að setja sig í spor þeirra er hræðast hvað mest samstarf með vestrænum lýðræðisríkjum, þá vita þeir sem er, að þó núverandi ástand sé óheppilegt þá lokar það fyrir aðild að ESB.

    Það er þá haldreipi sem hægt verður að grípa í þegar og ef þjóðin færist of nálægt raunverulegri aðild að ESB, að hægt verði að tefja og tafsa stjórnarskrárbreytingu til að hindra aðild. Þetta er ekki plan A til að hindra aðild, og kannski ekki einu sinni plan F, en þetta er haldreipi.

    Nú er mikilvægt að taka það fram að þetta er ekki gott haldreipi, enda auðleysanlegt mál ef til þess kæmi að Ísland stæði frammi fyrir aðild að ESB, en fyrir menn sem telja sig ofur-snjalla og eru alltaf að leika skák í stað stjórnmála, þá er þetta svaka sniðugt.

  • Hvernig væri nú að stjórnarandstaðan reyndi að hugsa svolítið meir um hag heimilana í landinu. Hag þeirra eins og hann er í augnablikinu – jafnvel slá örlítilli skjaldborg um þau? Ekki heyrist eitt einasta orð frá ykkur frekar en fyrr um meðferð banka OG ríkis á heimilum hvað varðar ólöglega verðtryggingu. Nú ætlar ríkið – já ríkið að fá máli sem Hagsmunasamtök heimilana eru með fryri rétti frávísað vegna formgalla !!!!!

    Nær væri að þett mál fengi flýtimeðferð og að ríkið greiddi málskostnað því niðurstaðan hlýtur jú að skipta máli. Jafnvel meira máli en laun Seðlabankastjóra.

    Stjórnarandstaðan mun aldrei fá nóg fylgi fólksins í landinu ef það er einasta eina sem þið nennið að berjast fyrir er ESB. Þó það sé gott og blessað fyrir okkur sem viljum í sambandið þá er það nútíðin sem blífur.

    Þið eruð sennilegasta aumasta stjórnarandstaða „ever“ . Held þið ættuð að athuga ykkar gang. Þið töpuðu kosningum með heimsmets tapi og það virðist vera ljóst að þið ætlið líka að slá heimsmet í skoðanaleysi og máttleysi.

    Jesús hvað við þjóðin ( já ég veit – við erum ekki þið) erum orðin ofboðslega hundleið á ykkur !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur