Fimmtudagur 21.05.2015 - 09:31 - 1 ummæli

Takk, Sigmundur Davíð

Fyrir utan hæpna notkun agnarsagnarinnar benda á er það alveg rétt hjá Hallgrími Indriðasyni í inngangi ágætrar fréttaskýringar um rammadeiluna, Þjórsá og Skrokköldu (á sunnudaginn, hér) að af hálfu virkjunarsinna hafi

verið bent á að það að setja virkjunarkost í nýtingarflokk þýðir alls ekki að það verði virkjað

Margir af frekiköllunum hafa hent á lofti einmitt þessa röksemd – allra fremstur sjálfur Jón Gunnarsson í þingræðum og fréttaviðtölum. Þetta sé í raun og veru ekkert merkilegt, mikil vinna og margar ákvarðanir eftir, menn geti andað alveg rólega.

 

Já, soldið, en aðallega nei

Þótt alþingi hafi – að tillögu verkefnisstjórnar samkvæmt rammalögunum – sett tiltekið náttúrusvæði/virkjunarkost í orkunýtingarflokk  er auðvitað ljóst að áður en framkvæmdir geta hafist þarf meðal annars umhverfismat og starfsleyfi frá sveitarfélagi, stundum verður ekki framkvæmt án eignarnáms sem ráðherra þarf að heimila vegna brýnnar nauðsynjar, og svo þarf auðvitað að selja hina væntanlegu orku með margskonar samningum við kaupandann.

Fyrir orkufyrirtækið sem ætlar að virkja og stóriðjufyrirtækið sem hyggst kaupa orkuna er málið rétt að byrja þegar ákvörðun er tekin um orkunýtingarflokkinn. Fyrir andstæðinga virkjunar á náttúrusvæðinu er slagurinn heldur ekki tapaður.

Eftir stendur að þegar búið er að flokka kosti/svæði í rammaferlinu er búið að taka sjálfa ákvörðunina. Upp úr því eru raunveruleg átakaefni fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Menn takast á um niðurstöður umhverfismatsins (þar sem sveitarstjórnin ræður að lokum, a.m.k. að nafninu til), um nauðsynleg skilyrði eignarnáms, um einstaka þætti framkvæmdanna, um orkuverð miðað við efnislegan og félagslegan kostnað við virkjunina o.s.frv. o.s.frv. Og svo getur staðan breyst í einstökum málum, þetta tekur alltsaman mikinn tíma. Tíminn vinnur með náttúruverndarsjónarmiðum og gegn stóriðjustefnunni – og stóriðju/orkufyrirtækin verða alltaf viðkvæmari og viðkvæmari fyrir að blandast í deilur um umhverfismál.

Árni Páll Árnason benti til dæmis á það í vikunni niðrá þingi (í samræðu við Guðmund Steingrímsson, hér) að rammaslagurinn núna og náttúruspjöll í framhaldi af honum væru kannski ekki sérlega heppilegt PR við hugsanlega rafmagnssölu gegnum sæstreng á almennan markað í norðurevrópskum ríkjum þar sem umhverfisvitund er öflug.

 

Að benda á

Agnarsögnin að benda á merkir að rifja upp staðreynd, vekja athygli á einhverju sem er fyrir hendi, nákvæmlega að vísa með fingrinum til einhvers þess sem við blasir. Og það sem blasir við er þetta:

Þótt jarðýtur, skurðgröfur og hvellhettur fari ekki í gang daginn eftir ákvörðun um orkunýtingarflokk er með henni búið að gefa út einskonar skotleyfi á náttúrusvæðið til orkunýtingar. Þrátt fyrir talið um hvað flokkunin í orkunýtingu sé ómerkileg líta orkufyrirtæki og peningamenn svo á að kostur/svæði í orkunýtingarflokki sé til ráðstöfunar. Og það álit er algerlega rökrétt miðað við sjálfa hugmyndina um rammaáætlun – á sama hátt og að orkufyrirtæki og viðkomandi peningamenn eiga að gleyma kostum/svæðum sem hafa verið sett í verndarnýtingarflokk, sem á að nota öðruvísi en til orkuöflunar.

 

QED

Það tal Jóns Gunnarssonar og félaga að ákvörðunin um að setja Þjórsá, Skrokköldu, Hagavatn og svo framvegis í orkunýtingarflokk sé nánast ekkert að marka – er auðvitað bara blekking, hvort sem Jón Gunnarsson trúir þessu sjálfur eða ekki.

Og með síðustu yfirlýsingum sínum um tilgang rammatillögunnar frægu hefur forsætisráðherrann gert þjóð sinni þann greiða að kippa fótunum undan þessum málflutningi. Tillögurnar um fimm – átta – fjóra kosti í orkunýtingarflokk umfram þennan eina kost frá verkefnisstjórninni – segir forsætisráðherra vera til þess að „auka verðmætasköpun“ sem aftur „tengist stöðunni á vinnumarkaði“ (hér og r). Það kann að vera eftir eitthvert tæknigauf og orkusamningastreð, en í huganum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar búinn að virkja á þeim náttúrusvæðum sem Jón Gunnarsson ætlar að setja í nýtingarflokkinn.

Takk, Sigmundur Davíð, fyrir að afhjúpa þessa gerviröksemd. Quod erat demonstrandum, einsog þeir segja í stærðfræðinni: Einsog sanna átti. Ákvörðun um að setja Þjórsá neðri, Skrokköldu og Hagavatn í orkunýtingarflokk er ákvörðun um að þessi náttúrusvæði verði nýtt með því að reisa á þeim virkjanir.

Hvað sem verkefnisstjórn rammaáætlunar og almenningur í landinu kunna að hafa sagt eða mundu hafa sagt eða telja sig eiga eftir að segja.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þessa röksemd nota hagsmunaverðir einkageirans, þ.e.a.s. þingmenn Sjálfstæðisflokks, óspart. Það var lögð gífurleg áhersla á þá fullyrðingu, að þó Síminn yrði hlutafélagsvæddur þá ætti alls ekki að einkavæða hann. Formbreytingin væri aðeins gerð til hagsbóta í rekstri fyrirtækisins.
    Sem betur fer fjölgar þeim kjósendum sem sjá í gegnum látlausar lygar þingmanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur