Miðvikudagur 20.05.2015 - 09:23 - 1 ummæli

Forgangur amma þín hvað?

Rammaáætlunin „er auðvitað eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar“ sagði forseti alþingis í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Það er einmitt sami Einar K. Guðfinnsson sem ræður því að ramminn er svo sannarlega í forgangi í þingstörfunum og hefur nú verið í linnulausri umræðu heila viku.

Ramminn forgangsmál? Já, en hvaða rammi? Upphaflega var það Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi umhverfisráðherra sem lagði fram tillögu um einn virkjunarkost, Hvammsvirkjun, að tillögu verkefnisstjórnarinnar. Er það sú tillaga, svokölluð stjórnartillaga, frá í haust, sem er forgangsmál ríkisstjórnarinnar?

Eða er það breytingartillaga Jóns Gunnarssonar um skotleyfi á fimm virkjunarkosti, sem fjórir þeirra eru enn óafgreiddir í verkefnisstjórninni? Er tillagan um Þjórsá sinnum þrír, Skrokköldu og Hagavatn þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem forseti alþingis er að þjónusta?

Í síðustu viku gerðist það svo að umhverfisráðherrann „komst að samkomulagi“ við Jón og félaga um að sleppa Hagavatni – og þá eru eftir Þjórsárkostirnir þrír og Skrokkalda – er það huganlega þetta sem núna er forgangsmál ríkisstjórnarinnar?

Í gær var rifjað upp hér í bloggi að haustið 2012 lýstu sjö þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks því yfir að Urriðafoss mætti/yrði/ætti/þyrfti að skoða betur (sjá samklipp Láru Hönnu), þar af tveir sem nú eru ráðherrar plús einn þingflokksformaður og auðvitað hinn röggsami formaður fjárlaganefndar. Er forgangsmálið þá tvær virkjanir í Þjórsá og Skrokkalda?

Í Fréttablaðinu í dag segir svo Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra að hún geti ómögulega gefið upp hvað hún styðji af öllum þessum tillögum:

Við bara sjáum hvernig atkvæðagreiðslan fer.

Er téð Sigrún þá kannski alls ekki hluti þeirrar ríkisstjórnar sem hefur rammatillöguna að forgangsmáli? Eða er það hernaðarleyndarmál hvaða forgangsrammatillögu ríkisstjórnin styður?

Skýringar óskast – og nú er langeðlilegast að svari hæstvirtur forseti alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hinn sjálfskipaði upplýsingafulltrúi um forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • kristinn geir st. briem

    í öllum þessum tilögum ? helt það væri bara ein tilaga, síðan kom breitíngartilaga við hana. hef ekki sé formlega að stjórnaranstaðan hafi lagt til að frumtilagan ráði, svo það er kanski von að sigrún sé í vandræðum með að áhveða sig

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur