Þriðjudagur 19.05.2015 - 09:59 - 2 ummæli

Urriðafoss – af hverju þegja þau núna?

Þegar rætt var um rammann haustið 2012 var ljóst að laxarök Orra Vigfússonar og félaga gegn virkjunum í Þjórsá neðanverðri höfðu veruleg áhrif. Það voru þau sem gerðu útslagið um að kostirnir þrír voru settir í biðflokk í tillögum ráðherranna eftir umsagnarferlið – og þessi rök virkuðu líka á suma þingmenn í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem þá lá í endalausu málþófi gegn rammatillögunni. Í umræðunni á þinginu var eiginlega komin samstaða um að halda Urriðafossi í bið – og setja hann jafnvel í verndarflokk.

Af hverju heyrist ekkert núna um þetta frá þeim þingmönnum Fram&Sjálf sem töluðu og töluðu haustið 2012?

Í þeim hópi var hvað fremstur Sigurður Ingi Jóhannsson, nú ráðherra. Hann hamaðist gegn verndarflokkstillögunum en gerði undantekningu um Urriðafoss:

Ég hef hins vegar verið á þeirri skoðun eftir að rök komu fram meðal annars um áhrif á laxastofna og reyndar fleira að skynsamlegt sé að láta duga að setja í nýtingarflokk efri tvær virkjanirnar, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, og láta Urriðafoss vera í bið einmitt til þess að rannsaka betur og kanna áhrifin. (11. des., nánar hér.)

Og aftur sama dag (nánar hér):

Ég hef lagt til að Urriðafoss verði settur í biðflokk.

Í hópi þeirra sem vildu skoða Urriðafoss betur var líka sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, nú ráðherra:

Ég ætla hins vegar að taka fram, af því við vitum að neðri hluti Þjórsár er eitt af stóru deilumálunum hér og hann er allur tekinn úr nýtingarflokki í þingskjali ráðherrans, að ég tel að það kunni að hafa komið fram einhver sjónarmið þar, kannski sérstaklega varðandi Urriðafoss, sem hafi verið ástæða til að taka til frekari skoðunar. (27.9., nánar hér.)

Einar K. Guðfinnsson, gallharður virkjanasinni, nú forseti alþingis, var heldur ekki viss í desember 2012:

Látum Urriðafossinn liggja á milli hluta að sinni vegna þess að hann er sannarlega umdeildari kostur. (17.12., nánar hér.)

Fleiri hikuðu úr virkjanaliðinu, svo sem Ragnheiður Ríkarðsdóttir, nú formaður þingflokks hjá Sjöllunum:

… ég virði að skoða frekar Urriðafossvirkjun. (17.12., nánar hér.)

Jafnvel hinn málglaði orkubolti Vigdís Hauksdóttir, nú formaður fjárlaganefndar fyrir hönd Framsóknarflokksins, var hugsi yfir Urriðafossi í samræðum við fyrrnefnda Ragnheiði:

Ég þakka þetta andsvar og get tekið undir sjónarmiðin sem komu bæði fram í ræðunni og þessu andsvari varðandi Urriðafossvirkjun, að sjálfsagt mál sé að hlífa henni að sinni á meðan frekari rannsóknir fara fram. (17.12, nánar hér.)

Svipuð viðhorf komu fram hjá stjórnarandstöðuþingmönnum sem nú eru horfnir til annarra starfa, allavega þeim Ásbirni Óttarssyni (t.d. hér) og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni flokksins og fyrrverandi ráðherra (hér og hér).

 

Hvar eru þau nú?

Mér sýnist að enginn þessara þingmanna hafi tekið þátt í umræðunni sem nú stendur á alþingi um tillöguna frá fulltrúum frekikallanna í meirihluta atvinnuveganefndar – þar sem á að setja Urriðafoss í orkunýtingu þvert gegn ráðum núverandi verkefnisstjórnar. En sú faglega verkefnisstjórn vill fá að rannsaka rök Orra miklu betur í staðinn fyrir að höggva – bara svona óvart – einn af stærstu laxastofnum Evrópu og í leiðinni kraftmesta foss á Íslandi.

Af hverju þegja þau nú um Urriðafoss, Bjarni Benediktsson og Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir?

— — —

PS daginn eftir: Lára Hanna er auðvitað búin að líma þetta saman, sjá hér Urriðafossyfirlýsingarnar 2012 í hreyfimyndum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Ómar Kristjánsson

    Eg skal taka að mér það leiðindaverk að svara þessu:

    http://sudurnes.dv.is/frettir/2013/6/1/fjolskylda-thingmanns-hefur-hagsmuna-ad-gaeta-CLM4BB/

  • kristinn geir st. briem

    veit ekki betur en sigurður ingi hafi sett eina virkjun úr bið í nýtingu urriðafoss er ekki hluti af tilöguni nú er það á valdi þíngsins.eflaust réð þingið eingu meðan mörður var á þíngi. um laxastofninn , vitum við ekki niðurstoð fyr en vrkjun er kláruð laxastigar og fleitínga hafa bæði heppnast og mistekist.mér virðis að virkjuninn við elliðarárnar hafi lítið áhrif á þann stofn. eflaust má fynna fleiri virkjanir sem lifa í sátt við laxinn. eflauyst vill mörður ekki ganga inní evrópusambandið vegna þeirrar óvissu sem þar er. en eflaust er það umhverfisvæn aðgerð

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur