Fimmtudagur 21.01.2010 - 22:15 - FB ummæli ()

Óþarfa sýklalyf ekki í boði!

Vegna vandamála sem tengist vaxandi sýklalyfjaónæmi og ómarkvissri sýklalyfjanotkun í Evrópu eru nú rætt um til hvaða aðgerða hægt sé að grípa og áður en vandamálið verður heilbrigðisyfirvöldum ofviða. Anders Ekblom, forsvarsmaður klínískra lyfjarannsókna hjá AstraZeneca, stærsta lyfjaframleiðenda Norðurlanda, lét hafa eftir sér í sænskum fjölmiðlum (SvD) i gær að lyfjaframleiðendur séu komnir í þrot með að framleiða öflugri sýklalyf til almennrar notkunar. http://www.svd.se/opinion/brannpunkt/inte-lonsamt-utveckla-antibiotika_4117043.svd. Takmarka verður því notkunina á þeim sýklalyfjum sem enn koma að gagni fyrir þá sjúklinga sem þarfnast sýklalyfjameðferðar mest til að hægja á þróun sýklalyfjaónæmisins. Spara verður sérstaklega notkun öflugustu lyfjanna, til að eiga til taks þegar mest á reynir. Eins hefur verið rætt um í Evrópu að takmarka jafnvel ávísanaleyfi lækna á sýklalyf við sérstakar ábendingar og jafnvel ákveðna sérgreinalækna til að koma í veg fyrir óþarfa notkun.

Vandamál tengt sýklalyfjaónæmi utan sjúkrahúsa er mun algengara á Íslandi en víða í Evrópu, sérstaklega miðað við hin Norðurlöndin, og sýklalyfanotkun hér á landi er t.d. um 40% meiri en í Svíþjóð, svo enn meiri ástæða ætti að vera til aðgerða hér á landi.  Hérlendis hefur verið unnið um árabil að betri notkun sýklalyfja en sitt sýnist hverjum um árangurinn. Hlutfallslega er notkunin mest hjá börnum og áhrifa sýklalyfjaónæmis gætir mest meðal sýkinga hjá þeim, sem síðan hefur áhrif á aðrar sýkingar út í allt þjóðfélagið, ekki síst meðal eldra fólks. Heilsugæslan hefur verið með leiðbeiningar um sýklalyfjaval og nú eru komnar nýjar leiðbeiningar Landlæknis um meðferð á miðeyrnabólgum barna. Þær byggja meðal annars á nýjum leiðbeiningum breskra heilbrigiðsyfirvalda (NICE) um meðferð efri loftvegasýkinga í heilsugæslunni og sem greint hefur verið frá hér á blogginu mínu áður. Þar er aðal áherslan á að meðhöndla ekki vægar bakteríusýkingar í efri loftvegum með sýklalyfjum þar sem þær hvort sem er læknast flestar af sjálfu sér og auðvitað alls ekki veirusýkingar þar sem sýklalyfin virka ekki neitt. Bjóða á frekar upp á eftirlit ef sýkingareinkenni versna og þörf er á endurmati m.t.t. þörf á sýklalyfjum. Málið var til umræðu á Læknadögum í dag og var hvatt til frekari árverkni lækna í þessum málum.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn