Fimmtudagur 01.04.2010 - 22:55 - FB ummæli ()

Ungur nemur, gamall temur

Það eru váleg tíðindi þegar fréttir berast af því að unglæknar sjá sér ekki lengur fært að vinna á háskólasjúkrahúsi landsins. Slegið hefur verið upp eftir forsvarsmönnum LSH staðhæfingunni „Getum þolað þetta lengi“ í ríkisfjölmiðlinum, RÚV. Stétt gegn sömu stétt sem verður að heyra fátítt í kjaradeilum hér á landi. Má ætla af þessum orðum að mæta eigi kröfum unglækna af fullri hörku. En eru þetta kjaradeilur eða eru þetta deilur um vinnufyrirkomulag, deilur um félagsleg réttindi, réttindi samkvæmt almennum vinnurétti, alþjóðlegum vinnuverndarákvæðum eða einfaldlega íslenskri fjölskyldustefnu? Talað er um að aðgerðirnar séu lögbrot en unglæknar vísa til þess að breytingar á ráðningarkjörum sem voru tilkynntar bréflega um áramót megi líta á sem ígildi uppsagnar, kjósi menn að líta svo á. Þeirra er því valið að þeirra mati og telja þeir sig í rétti með að ganga út, líki þeim ekki við afarkostina og ný ráðningarkjör.

Lengi hefur viðgengist mikil vinna unglækna fyrir lélegt kaup. Vinnan og fórnfýsi unglæknanna hefur markast af því að um nám sé að ræða og mikilvægt sé að ná í sem mesta reynslu á sem skemmstum tíma. Þannig hefur þetta alltaf verið. Í seinni tíð hafa unglæknar hins vegar látið fjölskyldugildin ráða meiru og reynt að styðja mál sitt með alþjóðlegum vinnuverndarákvæðum. En lítum aðeins á rök stjórenda spítalans.

Nýtt vaktakerfi styttir vinnulotur úr 16 klukkustundum í 13 klukkustundir þannig að þær falli betur að alþjóðlegum tilskipunum um vinnutíma, sem gera ráð fyrir 11 klukkustunda hvíldartíma á sólarhring. Dagvinnustundum unglækna fjölgar lítillega en á móti halda þeir óskertum launum. Eins telja stjórnendur LSH að  aðgerðir unglækna stofna í hættu áralangri uppbyggingu framhaldsmenntunar í læknisfræði á LSH og er ljóst að endurskoða þyrfti þau mál frá grunni ef kröfur unglækna nái fram að ganga.

Niðurskurðurinn nú í kreppunni gerir Landspítalanum auðvitað erfitt fyrir og allir hafa orðið að taka á sig launaskerðingu um leið og krafist er meiri afkasta starfsmanna. Þessi staða endurspeglast nú í deilunni við unglækna. Deiluna verður að leysa sem fyrst á almennum réttlætisgrundvelli. E.t.v. væri rétt að fá utanaðkomandi aðila, sérfróða í almennum vinnurétti til að líta á málin. Ungur nemur, gamall temur er hins vegar óbrigðult lögmál og málsháttur sem sumir ættu að íhuga um þessa páska. Hvorugur getur án hins verið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn