Kvíði og þunglyndi virðist einkennandi hjá þjóðinni á þeim ögurtímum sem við nú lifum á ef marka má nýjar upplýsingar frá Lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands í morgun (Lyfjakostnaður sjúkratrygginga 2007-2009) og sjá má á meðfylgjandi mynd og töflu. Áður hef ég fjallað um þunglyndislyfin og aðrar meðferðir við kvíða og þunglyndi hér á blogginu mínu en nýjar upplýsingar nú um kostnað vegna lyfja eru mjög áhugaverðar. Á myndinni er auðvelt að glöggva sig á samanburði milli ára og milli lyfjaflokka hvað kostnað varðar fyrir ríkið. Þunglyndislyfin hafa þar „yfirburðarstöðu“. Aukning í magni, sem einnig er gerð grein fyrir í skýrslunni, er samt ekki jafn áberandi og ætti því að kalla á róttækar breytingar í lyfjavali þ.e. hvaða sambærileg lyf væri hægt að nota hverju sinni en margfaldur verðmunur getur verið á því einu hver framleiðandinn er. Þarna má örugglega spara eins og í blóðfitulækkandi lyfjum og magalyfjum á sl. árum eins og einnig er gerð glögglega grein fyrir í skýrslunni.