Þriðjudagur 22.06.2010 - 12:13 - FB ummæli ()

„Svarthvíta hetjan mín..,“

colortv„hvernig ert þú í lit“, segir í frægum dægurlagatexta með Dúkkulísunum. Textinn er samt ekki svo voða gamall en höfðar til gömlu svart-hvítu kvikmyndanna, hetjudýrkunar og síðan hversdagsleikans eins og hann blasir við okkur. Nú er að nálgast mitt sumar, ég kominn í sumarfríið og litadýrðin í náttúrunni í hámarki. Hvað gefur lífinu meira lit en njóta þeirra allra?

Í gamla daga, á upphafsdögum litasjónvarpsins, var stóra óskin á hverju heimili litasjónvarp. Þú vildir fá að sjá heiminn eins og hann var í raun og veru enda var talað um „lifandi liti“ í tækinu. Menn trúðu því að veröldin yrði nær fullkomnuninni með litasjónvarpi og að maður gæti þá fylgst með öllu sem skipti máli í raunverulegu umhverfi, heima í sófa. Samt höfðu Íslendingar kynnst svart-hvíta sjónvarpinu aðeins um 10 árum áður og kanasjónvarpinu rúmum 10 árum þar á undan og tilheyrðum þar með hinum vestræna menningarheimi. Nokkrir höfðu reyndar haft varann á sér frá upphafi varðandi menningaráhrifin á landann. Töldu ameríska sjónvarpið siðspillandi og boðskapinn tilheyra landi lágmenningarinnar. Þeir lofuðu hins vegar menningaráhrif íslenska sjónvarpsins þegar það byrjaði og áhrifa sem sjónvarpið gæti haft á íslenska tungu og menningu. Annað átti eftir að koma á daginn.

Allt þetta þótti, þegar á heildina er litið, mikill menningarauki á Íslandi og lausn alls leiða. Við höfðum tengst alþjóðasamfélaginu. Endalaust skemmtiefni og fullkomnun heimilislífsins þar sem allir í fjölskyldunni gátu nú setið hamingjusamir saman og notið samverunnar. Einn eftirminnilegasti þátturinn var skíðakennslan heima í stofu þar sem maður átti að ímynda sér að maður vær á bruni niður skíðabrekkurnar í fjöllunum. Menn lögðu líka fljótt svarthvítu sjónvarpstækjunum og byrjuðu að borga af nýju litasjónvörpunum með háum afborgunum til að geta notið litanna og fjallana betur. Þvílík vonbrigði. Af öllum þjóðum þurftum við sennilega síst á litunum að halda heima í stofu, litum sem við höfðum svo nóg af allt í kringum okkur. Litirnir í imbanum reyndst heldur hvorki lifandi né raunverulegir, eins og sagt var í auglýsingunum.

En grár hversdagleikinn hefur samt löngum verið okkur Íslendingum erfiður. Síðastliðna áratugi höfum við sennilega átt heimsmet í kapphlaupinu í að nútímavæðast. Við þjófstörtuðum reyndar á lokakafla hlaupsins mikla og komust heldur aldrei í mark. Síðastlið ár höfum við síðan verið dugleg að endurmeta lífsgildin. En því miður full seint fyrir suma sem villtust rækilega í hlaupinu og hafa aldrei fundist. Að byrja hlaupið aftur með tilliti til skulda er enda vonlaust dæmi fyrir þá villtu. Viðmið með tilliti til annarra lífsgæða er þó eitthvað sem flestir ættu að geta sætt sig við, svona til að byrja með. Göfugusta markmiðið í dag getur verið að skilja við að lífslokum skuldlaus en eignarlaus, eftir ævilangt starf, sérstaklega ef ekki er gengið á möguleika næstu kynslóða til að njóta þeirra lífsgæða og við þó njótum í dag. Þarna er ekki síst átt við hvernig við ætlum að skila náttúrunni sjálfri til afkomenda okkar og svo hvernig við ætlum að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir í mennta- og menningarlegu tilliti. Draumurinn um litasjónvarpið var auðvitað tálsýn, en er ágætis afþreying, tímabundið eins og svo margt annað.

Nú snýst umræðan um Evrópusambandsaðild. Okkur er boðið að vera með. En er grasið grænna austan atlandsála og liggur okkur eitthvað á? Eigum við að fylgja straumnum með von um betri tíð og litríkara mannlíf eins og sagt er eða njóta og byggja á þeirri náttúru og litum sem við þegar höfum, svona til að byrja með?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn