Sunnudagur 29.08.2010 - 10:54 - FB ummæli ()

Haustar að

kindur

íslenska sauðkindin

Nú húmar að hausti og farið að kólna. Styttist í göngur og fjárréttir um allt land. Þá verður féð flokkað og dregið í dilka. Tími uppskerunnar er runninn upp og mikil eftirvænting er meðal bænda hvernig lömbin koma af fjalli. Hér áður fyrr var óspart beitt í úthagana og féð hafði úr nógu að moða. Nú er öldin önnur. Landið er víða ofnagað af fébeitinni og oft eru það veglömbin sem skila mestu þyngdinni. Sumar rollur láta nefnilega sér ekki segjast að fara á fjöll og stunda frekar háskaleik með okkur mönnunum þar sem grasið er grænna. Hvað sem því líður að þá voru göngurnar í gamla daga skemmtilegasta athöfn sveitalífsins.  Á hestum og gangandi um kletta og skorninga, niður dalbotna og yfir engi og mýrar. Sem betur fer var féð leiðitamt, svona yfirleitt. Sumir forystusauðir til vandræða eins og stundum reyndar mannfólkið í sjálfum réttunum þegar of mikil gleði tók völd.

Íslenska sauðkindin með ullina sína góðu er búin að fá mikilvægara hlutverk að nýju í þjóðfélagsumræðunni eftir hrun. Konur og karlar prjóna nú sem aldrei fyrr. Í vetur verður miklu dýrara að hita húsin okkar svo ekki veitir okkur af ullinni. Sama hækkun verður á ljósstýrunni til að lesa við. Helmings gjaldfalls íslensku krónunnar og þar með matvöru á aðeins tveimur árum og nú í einum áfanga meira en fjórðungs hækkun á afnotum á okkar eigin auðlindum sem sprettur upp úr íslensku kvikunni. Afurðaverð landbúnaðarvara til bænda og þar með kindarinnar á eftir að hækka og þar með neysluverð til neytenda. Það að eiga og búa í litlu húsi eins og Jón og Gunna skuldlaust og eiga þar að auki fyrir kyndingu og rafmagni er talin lúxus á Íslandi í dag. Þá tilheyrir þú efri millistétt. Allt er þetta afleiðing íslenska undursins sem sumir íslenskir bankamenn kappkosta að telja sig ekki bera ábyrgð á. Ekki benda á mig sagði hreppstjórinn.

Sigurði Einarssyni var borgað tugmilljónir króna í hverjum mánuði fyrir ábyrgð í stjórn banka sem rekinn var m.a. fyrir almenning en sem var keyrður af ábyrgðarleysi í gjaldþrot. Banka sem þegar upp var staðið byggðist á falsspámennsku og spillingu þar sem stjórnendur mokuðu undir sig fjármagni og tóku milljarða kúlulán sem nú eru afskrifuð í hundruða tali. Ekki nóg með það heldur fá menn eins og Sigurður sem er sakborningur í einu alvarlegasta fjármálaglæpamáli sem sögur fara af heilt helgarblað Fréttablaðsins til að réttlæta sig og sína. Líka til að skjóta ásökunum í garð þeirra sem reyna eftir fremsta megni að leita réttar fyrir almenning. Jafnvel fólk sem tapaði öllu sínu enda meira en fjórðungur heimila tæknilega gjaldþrota eftir hrun bankanna. Og svo að segjast aðeins hafa vera ábyrgur gagnvart hluthöfum bankanna. Þvílík skömm. Þarna brugðust forystusauðirnir herfilega og þá þarf að draga í sérstaka dilka. Enn einu sinni birtist siðblindan í öllu sínu veldi í myndgervingu manns sem þykist kunna að svara fyrir sig enda greindarvísitalan eflaust vel ofana við meðaltalið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hann er með með allt niðrum sig siðferðislega þótt hann reynir nú að hanga tímabundið á einhverjum óskiljanlegum lagakrókum. Þjóðinni er misboðið.

Íslenska ullin kann að hjálpa okkur í vetur og vonandi höfum við efni á sauðskinnskóm og leggjarbita á hátíðisdögum. Alþýðan er oft ansi leiðitöm en sumir forystusauðirnir sem koma nú af fjalli þetta haustið eru sauðheimskir vandræðagripir og þeirra verður ekki þörf meir. Þegar alþýðan er orðin of leiðitöm að þá er greinilega kominn tími til að fá nýtt dagblað með morgunkaffinu. Blað sem hægt er að treysta og sem gætir ekki eingöngu hagsmuna forystusauðanna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn