Föstudagur 17.09.2010 - 13:43 - FB ummæli ()

Sameining heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Heilsugæslan Hamraborg

Enn og aftur ætla stjórnvöld að fara fram með valdi gegn þeim sem hafa sérþekkinguna og vinna vinnunna í grasrótinni. Sameining heilsugsælustöðva í Efra Breiðholti við Heilsugæsluna í Mjódd og Heilsugæslu Hvamms í Kópavogi við Hamraborg í miðbæ Kópavogs eru dæmi um slík áform sem eru með ólíkindum en samt langt komin á teikniborðinu. Hvortveggja í mikill óþökk starfsmanna þessara stöðva sem mótmælt hafa aðgerðunum með fundum og í bréfum. Telur starfsfólkið að ráðist sé að rótum heilsugæslunnar sem fengið hefur að þróast og dafna á svæðunum við erfið stjórnunarleg skilyrði. Þótt heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sé ein stofnun að þá hefur gætt ákveðins sjálfstæðis innan hverrar stöðvar sem nú á að kaffæra í skjóli ímyndaðs sparnaðar og hagræðingar. Löngu er ljóst að sárlega vantar mannskap til að sinna brýnustu verkefnum heilsugæslunnar. Og ekki á að selja húsin heldur nýta þau undir annað eins og starfsviðs heimahjúkrunar. Í staðinn að pakka öllum læknunum saman og í tilfelli Efra Breiðholts, inn í verslunarhúsnæðið í Mjóddinni. Stöðvarnar sem flutt verður úr eru hins vegar fullkomnar og nýtískulegar heilsugæslustöðvar sem horft hefur verið til með stolti. Heilsugælan í Hvammi sem er ekki nema um 5 ára gömul er tvíburabygging Heilsugæslunnar í Efstaleiti og þóttu þær stöðvar eiga vera fyrirmynd annarra stöðva í framtíðinni.  

Nærþjónusta við Efra-Breiðholt sem hefur þurft á hvað mestri félagslegri þjónustu að halda í Reykjavík, ekki síst við öryrkja, á nú t.d. að flytja í óaðgengilegt gamalt en uppgert verslunarhúsnæði. Stundum furðar maður sig á því að æðstu stjórnendur skulu ekki vita hvað nútíma heilsugæsla stendur fyrir.  Hún er t.d. ekki eins og spítaþjónustan sem hægt er að sameina á einn stað og hún á ekki að vera bákn. Sjálfur sit ég á Heilsugæslustöð í Hafnarfirði í forundran og heyrir í raun bara utan frá mér hvað sé að gerast í heilsugæslunni hjá því fyrirtæki sem ég samt vinn hjá. Bíð í rauninni bara eftir að eitthvað verði ákveðið með mína starfsaðstöðu og hvort mér verði skákað til. Er illa upplýstur um gang mála þótt ég eigi að heita klínískur dósent hjá fyrirtækinu. Hef reyndar heyrt af fundi um næstu mánaðarmót þar sem kallað á efir tillögum almennra starfsmanna um stefnumótun í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu sem þó virðist í þýðingarmestu atriðunum þegar verið búið að taka ákvörðun um á öðrum vígstöðvum (sjá meðfylgjandi bréf hér fyrir neðan frá starfsmönnum í Hvammi).

Hingað til hefur lítið verið hlustað eða allt frá því Heilsugæslustöðvarnar tvær í Hanfarfirði voru færðar nauðugar undir stjórnunarvænginn í Reykjavík fyrir 5 árum síðan. Starfsfólkið mótmælti kröftuglega þá og harmaði að gengið skyldi á nærþjónustuna, sjálfstæði og frumkvöðlastarf stöðvanna. Fyrir rúmu 1 1/2 ári var síðan gengið harkalega  á þjónustu stöðvanna með niðurskurði sem samsvarar um 15-20%  á tímaframboði heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Skortur á tímaframboði heimilislækna var reyndar mikill fyrir en tugþúsundir höfuðborgarbúa hafa ekki haft heimilislækni til að leita til með sín mál. Mikil skerðing varð síðan aftur í sumar með lokun síðdegismóttöku heilsugæslustöðvanna sem þjónað hefur sem ákveðinn öryggisventill fyrir lágmarksþjónustu heilsugæslunnar. Og enn á að spara og hagræða sem ég vill frekar kalla að hræra í og án þess að spurt sé um ástæður eða afleiðingar fyrir heilsugæsluþjónustuna í borginni. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu má allra síst við því að veikjast nú meir en orðið er á erfiðum tímum.

Fundur starfsfólks Hgst. Hvammi haldinn 15. sept. 2010

 Efni:  Ræða þátttöku í stefnumótunardegi HH 1. okt. 2010 Áslaug Hauksdóttir

Í fundarboði um stefnumótunardag HH kemur fram að starfsmanni gefist tækifæri á að koma á framfæri því sem betur megi fara í rekstri og þjónustu mm. Í skjalinu (sjá meðfylgjandi afrit) koma fram lykilhugmyndir eins og Stöndum vörð um hlutverk heilsugæslunnar m.m. Við teljum okkur þegar standa vörð um hlutverk heilsugæslunnar og hlúa að gildum okkar og ímynd. Við höfum þegar góðan og eftirsóknarverðan vinnustað og erum mjög stolt af því sem við stöndum fyrir og okkar faglegu sérþekkingu.

Þetta höfum við allt gert m.a. með ályktun okkar til heilbrigðisráðherra 1. sept. (sjá meðfylgjandi afrit) þar sem við mótmæltum áætlunum HH um að leggja niður heilsugæsluna Hvammi og sameina heilsugæslunni Hamraborg og bárum fram rök fyrir því að hér væri hvorki um svokallaða “eflingu heilsugæslunnar” né augljósan sparnað að ræða. Heldur er hér þvert á móti um niðurrif góðrar þjónustu að ræða fyrir vægast sagt óljósan efnahagslegan ávinning.

Viðbrögð hafa ekki verið önnur en að þessi áætlun stendur óbreytt og undirbúningur hennar er þegar hafinn.

Því finnst okkur þessi svo kallaði stefnumótunardagur, með tilheyrandi kostnaði (fleiri milljónir með vinnutapi), í hæsta máta óviðeigandi, þar sem stefnan er þegar tekin.

Ætlum við í staðinn að leggja okkar til í nokkuð augljósum sparnaði og afþakka gott boð.

Virðingarfyllst

Starfsfólk Heilsugæslunnar Hvammi í Kópavogi

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn