Laugardagur 18.09.2010 - 01:52 - FB ummæli ()

Tóm og kyrrð

emptiness1Oft getur þögnin verið þægileg. Helst ef maður getur lokað augunum og látið hugann reika. Síðan dettur maður inn draumalandið og hugurinn endurnærist. Sennilega mest af þeim draumum sem aldrei ná að verða einu sinni til. En síðan vaknar maður hress og endurnærður.

Á göngu minni í dag í einstaklega góðu síðsumarsveðri hrökk ég við. Það var eins og ég gengi í svefni. Samt skein sól á heiði, dagurinn einstaklega bjartur og fagur. Það var grafarþögn. Þrúgandi þögn á miðjum degi. Það vantaði öll hljóð í náttúrunna. Allir fuglar þagnaðir. Ekkert kvak eða tíst. Enginn fuglaþytur og Hamrahlíðarbjörgin algjörlega þögnuð eins og hendi hefði verið veifað. Í raun var engan fugl að sjá. Ekki einu sinni gæsir í háloftunum. Vargurinn sem hafði lagt undir sig holtin farinn. Nátttúran eitthvað svo varnarlaus og dauð. Mér fannst eins og þessi þrúgandi þögnin boðaði eitthvað ekki gott. Svo fór ég að hugsa. Að vísu er sumarið búið og vetur á næsta leiti. En veturinn hefur aldrei verið slæmur í mínum huga. En þá varð mér hugsað til þjóðmálanna.

Sumarið hefur verið mjög sérstakt og óútreiknalegt fyrir marga hluta sakir. Veðrið reyndar einstaklega gott og sem maður hefur notið í hvívetna. Endurtekið hef ég hugsað hvað það sé gott, þrátt fyrir allt, að búa á þessu landi elds og ísa. Og guði sé lof, svörtustu spár um ný móðuharðindi rættust ekki. En samt var önnur spenna í loftinu. Langþreyta eftir lausnum og úrræðum fyrir almenning í landinu. Fjórðungur heimila tæknilega gjaldþrota og launin aldrei lélegri. Bankamálin óuppgerð og enginn sem vill taka ábyrgð. Nú eru jafnvel alþingismennirnir farnir að benda hver á annan. Eingin þorir að ganga fram fyrir skjöldu. Allir eru ragir og skýla sér á bak við hvorn annan. Hvert hneykslismálið á fætur öðru í stjórnsýslunni, ný og gömul. Geðþóttaákvarðanir og niðurrif á grunnþjónustunni og skólunum, jafnvel án þess að talað hafi verið við þá sem mestu sérþekkinguna hafa. Stjórnmálamönnunum ætlar seint að láta segjast. Enn einn skrípaleikurinn á Alþingi. Engum treystandi og innherjatengsl alls staðar. Og bræður munu berjast.

Í raun er þjóðin andlega gjaldþrota. Uppgjörið eftir hrunið er farið að snúast í andhverfu sína. Við erum búin á sál og líkama og ekki endurnærð sem skyldi eftir góða sumarið okkar.Við erum farin að meiða hvort annað og þurfum að berjast fyrir velferðinni af öllum lífsins kröftum. Náttúrulögmálin gilda en helst þurfum við að gefa vinnu okkar og anda. Lífið er orðið óraunverulegt. Ekki einu sinni kirkjan stendst væntingar um heiðarleika og ábyrgð. Aldrei fyrr hefur maður orðið að treysta jafn mikið á sjálfan sig, fjölskylduböndin og ættjarðarástina. Getur verið að það sé komið að leiðarlokum fyrir okkur sem sjálfstæð þjóð. Lengi getur vont versnað og það er allt í lagi að herða sultarólina tímabundið. En hvers er að vænta og hverjir eru kostirnir? Vonandi var kyrrðin á miðjum sumardeginum ekki lognið á undan vetrarstorminum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn