Þriðjudagur 26.10.2010 - 17:50 - FB ummæli ()

Íslendingar og heimurinn allur

Hvert okkar er einstakt en við myndum fjölskyldur sem ganga saman gegnum sætt og súrt. Í andlit hvers okkar er greypt saga sem fylgir okkur alla ævi, oft saga sem er aldrei sögð en mótar okkur samt og þroskar fyrir lífstíð. Samspilið innan fjölskyldunnar skipir okkur þannig mestu máli. Lífskjör okkar og menntun er að lokum síðasta tækifærið út í lífið sem einstaklingar. Líf meðal annarra fjölskyldna sem við stofnum.  Allt þetta má lesa í meðfylgjandi mynd af íslenskri nútímafjölskyldu ásamt mörgum öðrum sem sjá má í frábærri ljósmyndabók Sigurgeirs Sigurjónsson og Unnar Jökulsdóttur. Bók sem var gefin út í góðærinu (2004) en var þá að manni fannst hálfgerð tímaskekkja og sýndi ekki þá Íslendinga sem við töldu okkur vera en sem við vorum engu að síður. Góðar ljósmynd af andliti og höndum fólks segir þannig merkilega sögu og sem verður áhugaverðari eftir sem árin líða. Myndir af okkur ungum sagði allt aðra sögu, ekki síst um þær væntingar og vonir sem búa innra með okkur. Fjölskyldualbúmið er þannig mesti dýrgripur hverrar fjölskyldu.

Lýðveldið er ungt og við höfum augljóslega ekki kunnað fótum okkar forráð. Við erum eins og unglingur sem hefur farið í gegnum mótþróaröskun unglingsáranna og sem hefur brennt sig aðeins á ýmsum staðreyndum lífsins eins og gengur. Samt hraustur og efnilegur.  Allir vita hvað bíður unglingsins ef hann fær ekki tækifæri til að blómstra, menntast eða bara hafa nóg fyrir stafni og sinna sínum áhugamálum. Svipað er nú komið fyrir okkur sem þjóð. Við þurfum að fara að axla ábyrgð og sá tími er liðinn að við getum verið endalaust í fýlu út í umheiminn, lokað okkur af og skellt hurðum. Við verðum að standast kröfur um bestu menntun sem völ er á og það gerum við ekki nema í nánu samstarfi við aðrar þjóðir og að unga fólkið fá bestu grunnmenntun sem völ er á. Tenging við gamla tímann, þann nýja og fjölmenningarlegt samfélag.

Heimurinn er alltaf að minnka og sífellt meiri áhersla er lögð á samstöðu meðal þjóða, rétt eins og hjá fjölskyldumeðlimum í stórri fjölskyldu. Ekki síst til að halda friðinn. Ábyrgðin á vansæld annarra þjóða er oft mikil og í vaxandi mæli ættum við sem þjóð að kannast við vandann og söguna og leggjast á árar með örðrum frjálsum þjóðum. Við hljótum að vilja vera með í samfélagi þjóðanna og láta til okkar heyra. Ekki síst viljum að börnin okkar fái tækifæri til að taka þátt.

Nú eru blikur á lofti  með nánustu framtíð okkar en við stöndum á ótrúlega sterkum grunni hvað varðar hlunnindi landsins og grunnmenntun þjóðarinnar. Tækninýjungarnar höfum við heldur ekki látið fram hjá okkur fara og á sumum sviðum í tækniþekkingu stöndum við fremstir meðal þjóða. Í þessu liggur okkar styrkur, við eigum að vera órög að takast á við ný og ögrandi verkefni, sú náttúra liggur einfaldlega í blóðinu okkar.

Ljósmynd eins og að ofan er rétt eins og heimskort þar sem þjóðirnar bíða þess eins að fá að tala saman og fá að vera með hvor annarri, gegnum súrt og sætt. Höldum nú áfram af krafti með aðildarviðræðurnar um mögulega ESB inngöngu fyrir Ísland. Látum ekki „unglinginn“ í okkur eyðileggja það tækifæri líka.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn