Miðvikudagur 27.10.2010 - 15:19 - FB ummæli ()

Hættuleg blanda

Lágt testósterón og hátt kólesteról virðist geta verið hættuleg blanda. Ný rannsókn um efnið  sýnir verndandi þátt testósteróns (karlkynshormónsins) gagnvart kransæðadauða hjá karlmönnum sem eru með staðfestan kransæðasjúkdóm. Um 20% karlmanna yfir 60 ára hafa lækkað frítt testósterón í  blóði svo niðurstöðurnar vekja að vonum mikla athygli.

Greint var frá niðurstöðunum í nýjasta hefti læknatímaritsins HEART í vikunni. Niðurstöðurnar vekja upp spurningar hvort í framtíðinni ætti að kanna blóðgildi testósteróns hjá karlmönnum sem eru í aukinni áhættu á að vera með kransæðsjúkdóm, ekkert síður en að mæla kólesterólið sem er vel þekktur áhættuþáttur. Hugsanlega mætti  þá gefa þeim kost á „uppbótarmeðferð“ sem eru með lágt frítt testósterón í blóði. Þannig mætti minnka dánarlíkur þessara karlmanna um allt að helming. Rannsóknin náði til um 1000 manna sem var fylgt eftir í 7 ár. Dánartíðni þeirra sem voru með lækkað frítt testósterón var um 21% á móti 12% hjá þeim sem voru með eðlilegt frítt testósterón, leiðrétt fyrir öðrum áhættuþáttum með fjölþáttagreiningu m.a. hvað varðaði blóðfitulækkandi meðferð.

Höfundar rannsóknarinnar mæla þó með að áður en ráðleggingar verði settar fram varðandi uppbótameðferðina, að þá verði fyrst gerðar framvirkar rannsóknir á gagnsemi meðferðar og hugsanlegar aukaverkanir betur kannaðar. Aðrar rannsóknir hafa ekki verið framkvæmdar með þessum hætti en rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum á uppbótameðferð á testósteróni hjá eldri karlmönnum (>65 ára) í öðrum tilgangi og niðurstöður kynntar fyrr á þessu ári í NEJM var hætt vegna aukinnar dánartíðni af völdum hjartasjúkdóma. Rannsóknin var hins vegar lítil og orsakaþættir of óljósir til að dregnar væru öruggar ályktanir um dánartíðnina. Vöðvakraftur og færni til daglegs lífs jókst hins vegar og sem var megin tilgangur rannsóknarinnar að sýna fram á.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn