Mánudagur 01.11.2010 - 16:39 - FB ummæli ()

Ábyrgð heilsugæslu í starfsendurhæfingu

http://1.bp.blogspot.com/_bU3RmygGIGs/TJ2D0ss_jrI/AAAAAAAAAEk/c47w-8ZP9qU/s1600/Rehab.jpgEin af mikilvægustu þörfum mannsins er að geta unnið fyrir sér og sínum. Enginn er sæll sem þarf bara að þyggja frá öðrum en á sama tíma er samhjálpin mikilvægasti hlekkurinn í velferðarsamfélaginu. Nokkuð sem skilur okkur frá þróunarríkjunum og fornöldinni. Nokkuð sem hefur verið mikið til umræðu þegar fjórða hver fjölskylda er hvort sem er tæknilega gjaldþrota og stór hluti launa þeirra sem enn halda vinnu fer í skatta. Fjöldi örorkulífeyrisþega er um 15.000 og hefur fjölgað um ríflega 6000 manns á síðustu 10 árum. Kostnaður samfélagsins vegna þessa nemur tugum milljarða króna á ári auk þess sem lífsgæði hjá viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra eru skert.

Eitt að nýjum hlutverkum heilsugæslunnar í seinni tíð er atvinnuheilsuvernd í þeim skilningi að viðhalda starfshæfni einstaklingsins og koma í veg fyrir ótímabæra örorku. Örorka er nútíma þjóðfélagi óhemju dýr, sér í lagi ef vaxandi fjöldi leitar eftir mati af ástæðum sem hægt er að koma á móts við með öðrum hætti. Vinnan er öllum mikilvæg, ekki síst starfsánægjunnar vegna og til félagslegrar styrkingar. Á tímum eins og við nú lifum þar sem hópuppsagnir fyrirtækja er daglegt brauð er sérstaklega mikilvægt að að vera á verði þannig að ekki sé verið að rugla saman félagslegum rétttindum vegna atvinnumissi og endurhæfingar- og örorkumati vegna heilsubrests til vinnu sem getur verið af ólíkum toga, ekki síst sálfræðilegum.

Mjög oft hefur fólk með umtalsvert heilsutap getað unnið fulla vinnu við aðstæður sem það sjálft þekkir vel og þolmörkin eru skýr. Þannig viðheldur það best sinni heilsu um leið og það þjónar þjóðfélaginu best. Stundum er vinnunni kippt undan fólki sem þannig er ástatt um fyrirvaralaust vegna skipulagsbreytinga eða samdráttar eins og nú á sér stað. Þessu fólki gengur oft illa að fá vinnu aftur við hæfi, sérstaklega þegar aldurinn færist yfir og hæfni til aðlögunar í nýrri vinnu minnkar. Auðvitað ætti reynsla og önnur mannauðssjónarmið að vega þar upp á móti í mörgum tilvikum. Allavega stendur fólk á tímamótum í lífi sínu og óljóst getur verið hvort látið verði reyna á örorkumat í stað atvinnuleysisbætur fyrstu árin, sérstaklega þegar lítill fjárhagslegur munur er á bótunum. Á þennan mun hefur verið bent og að lægstu laun séu einfaldlega allt of lág miðað við bæturnar í dag og að jafnvel atvinnuleysisbætur séu of lágar miðað við örorkubætur þannig að hvati til vinnu eða vinnufærni minnkar.

Heilsugæslan hefur orðið að mæta þessum vandamálum í vaxandi mæli með ráðgjöf og læknisfræðilegu mati lækna. Á sama tíma er heilsugæslan verulega undirmönnuð og í fæstum tilvikum eru félagsráðgjafar í vinnu á stöðvunum og sálfræðingar ekki nema fyrir börn í örfáum tilvikum. Heilsugæslunni er því verulegur vandi búinn að mæta þessari áskorun eins og staðan er í dag. Grunninntak hugmyndafræði heimilislækninga og endurhæfingar er samt heildarsýn á vanda skjólstæðingsins. Fjölþáttaendurhæfing utan sjúkrahúsa á Íslandi hefur verið umfangslítil hingað til á sama tíma og öryrkjum hefur fjölgað mikið, bæði með tilliti til líkamlegrar færin og geðræna sjúkdóma. Í flestum tilvikum kemur það í hlut heimilislæknanna að sækja um endurhæfingar-, örorku-  og lífeyrisbætur. Í vaxandi mæli hafa heimilislæknar síðan komið að endurhæfingaráætlun Sjúkratrygginga Íslands.

Síðatliðin 2 ár hafa samtök vinnumarkaðarins staðið að starfsendurhæfingu innan sinna vébanda. Stefnt er að þverfaglegu samstarfi við heimilislækna og annarra sem að starfsendurhæfingu geta komið, félagsráðgjafa, sjúkra- og iðjuþjálfa og sálfræðinga. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem var stofnaður af Alþýðusambandi Íslands og samtökum atvinnulífsins vorið 2008 þar sem 0.13% af greiddum launum á vinnumarkaði renna til sjóðsins. Þannig ætti sjóðurinn að hafa yfir miklu fjármagni að ráða til að takast á við verkefnið enda mikið í húfi.

Kristján G. Guðmundsson heimilislæknir kynnti á dögunum á Vísindaþingi heimilislækna tvö verkefni sem snúa að starfsendurhæfingunni. Bæði verkefnin vekja upp vonir um að færri einstaklingar endi á varanlegri örorku. Á annað þúsund manns hafa notið þjónustu VIRK á þessum tveimur árum sem liðin eru frá stofnun. Þar er um að ræða fólk sem hefur fengið stuðningsviðtöl, ráðgjöf og greiðslu úrræða í starfsendurhæfingu, þar með talin sáfræðileg meðferð. Verið er að þróa betri tengsl við heilsugæsluna og hanna form af ítarlegum læknisvottorðum sérsniðnum að fjölfaglegri starfsendurhæfinu. Af rúmlega 1200 manns sem hafa fengið þjónustu hjá VIRK  2009 og 2010 hefur um fjórðungur útskrifast úr starfsendurhæfingunni þar sem um 70% hafa fulla vinnugetu. Væntanlega hefði allur þessi hópur endað á örorku annars en sjá mátti lækkandi tíðni örorku á landsvísu á sama tímabili. Auk þess hafa væntanlega allir notið góðs af endurhæfingunni á einn eða anna veg, fengið sjúkraþjálfun, styrkst andlega sem líkamlega eða sótt nám og fengið sálgæslu.

Jafnframt kynnti Kristján annað verkefni sem kennt er við HVERT – starfsendurhæfingu og sem hann vinnur að í samstarfi við fleiri aðila á  heilsugæslustöðvunum í Glæsibæ, Garðabæ, Salastöð og Efra Breiðholti. Á rúmum 2 árum hafa um 150 einstaklingar fengið ráðgjöf þar sem um fjórðungur gerðu formlegan samning um fjölþáttaendurhæfingu. Meðaltími frá vinnu voru tæpir 8 mánuðir og eftir þann tíma voru tæplega 80% í vinnu, vinnuleit eða í námi. Verður þetta að teljast að sama skapi mjög góður árangur.

Í náinni framtíð þarf af skipuleggja starfsemi og aðkomu heilsugæslunnar að þessum málaflokki miklu betur til að hún anni álaginu. Þjónustu við sjúka og annað forvarnastarf má ekki víkja til hliðar. Fjölga þarf starfsfólki sem kemur að þessum málaflokki innan heilsugæslustöðvanna sjálfra, ekki síst félagsráðgjafa og sálfræðinga. Létta þarf á mikill skriffinnsku og vottorðafargani lækna sem skilja eiga á milli félagslegra- og sállíkamlegra einkenna og sem nú heyra hvort sem er undir sama ráðuneyti velferðarmála. Hvatinn til vinnu á að vera óumdeilanlegur um leið og lægstu bætur eiga að vera viðunandi. Aðeins þannig ganga hlutirnir nokkur veginn upp. Á komandi árum verða þó allir að leggjast á eitt að viðhalda færni okkar sjálfra til að viðhalda nútímalegu þjóðfélagi þangað til yngri kynslóðin tekur við.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn