Fimmtudagur 09.12.2010 - 14:29 - FB ummæli ()

Eigum við að hækka hraðatakmörkin í umferðinni og sleppa umferðarljósunum?

Svarið við þessari spurningu er auðvitað nei þótt nú í kreppunni megi finna rök fyrir því að hægakstur í þröngum umferðargötum og sífeld stopp á ljósum við erfið umferðargatnamót auki á eldsneytiskostnað og seinki okkur aðeins þegar okkur liggur mikið á. Auðvitað er öryggið fyrir öllu. Í morgun las ég eins og landsmenn í Fréttablaðinu um hugmyndir ákveðinna þingmann til lausnar vanda heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vanda sem þeir segja stafi af því að ekki ekki hafi verið hægt að byggja upp heilsugæsluna sem skildi vegna þess að heimilislæknar hafi ekki fengist til starfa. Því vilji þeir leita leiða til að athuga hvort aðrar stéttir eins og hjúkrunarfræðingar geti ekki gegnið inn í störf heimilislæknanna og flýtt fyrir þeim með lækningum og lyfjaávísunum á ýmis lyfseðlaskyld lyf. Jafnvel búa til nýjar heilbrigðisstéttir eins og t.d. aðstoðarheilsugæslutæknifræðinga. Og þetta á ekki að vera neitt grín!

Nú er rétt að staldra aðeins við á gula ljósinu og skoða söguna og leita raunverulegra skýringa á ástandinu sem kann að reynast nær sannleikanum en útskýringar þingmannanna að enginn áhugi hafi verið hjá læknum að manna heilsugæsluna sl. áratugi. Eins til forðast að rústa þó því sem þegar er búið að byggja upp og að við höldum okkur við lög og reglur landsins, að minnsta kost er varðar lögskipuð starfsréttindi lækna og skyldur þeirra.  E.t.v. ættum við líka að hugsa aðeins lengra en núverandi þingmenn um væntanleg neyðarlög þeirra til bjargar heilsugæslunni. Allra síst verða hugmyndir þingmannanna til að auka veg heimilislækninga sem sérgreinar í landinu, sem eins og áður segir hefur átt undir mikið högg að sækja og ég hef oft komið inn á áður í færslum mínum. Enn og aftur ætla þeir sem minnst þekkja til heilsugæslunnar að ráðskast með hana í örvæntingu og þá hlaupa auðvitað margir fram sem sjá hag sinn í að krækja í væna kjötbita nú á aðventunni.

Í nokkur ár eftir að ég var búinn að ljúka mínu sérfræðinámi, sótti ég ásamt mörgum öðrum sérfræðingum um starf við heilsugæsluna í Reykjavík en fékk ekki. Um 10-15 manns voru um hverja stöðu sem losnaði. Stjórnsýslan taldi skort ekki vera fyrir hendi á heimilislæknum og þegar ég ásamt félaga mínum sem einnig var nýbúinn að ljúka sérfræðinámi buðumst til að reka heilsugæslustöð fyrir Heima- og Vogahverfið, sem var þá án heilsugæsluþjónustu eins og tugþúsundir íbúa Reykjavíkursvæðisins, var brugðist ókvæða við og sagt að þetta verkefni væri í góðum höndum stjórnsýslunnar og yrði leyst á allra næstu árum. Frá þeim tíma leið samt annar áratugur að nokkuð væri að gert. Á þeim tíma má seigja að heilsugæslan hafi verið lokuð á nýliðun í heimilislækningum og að lokum gáfust margir nýmenntaðir sérfræðingar í heimilislækningum upp og leituðu í aðrar sérgreinar og sem var ekki eins þröngur stakkur búinn og heilsugæslan var.

Þetta var í upphafi góðærisins og stjórnvöld þráskölluðust við uppbygginguna þar til eftir hrun að loks fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir tók af skarið og ákvað að fjölga námsstöðum í heimilislækningum og styðja þannig við uppbyggingu heilsugæslunar þótt á erfðum tímum væri. Allt of seint var samt brugðist við og vandinn orðin mjög mikill. Flestir heimilislæknar eru nú komnir vel á aldur eða vel yfir fimmtugt og margir hætta störfum á næsta áratug. Kjaraskerðingar og mikið vinnuálag auk frjáls aðgengis unglækna í aðrar sérgreinar hafa síðan valdið því að fáir unglæknar hafa nú áhuga á námsstöðunum. Þannig vantaði alveg að huga að eðlilegri mönnun heimilislækna í heilsugæslunni hér á höfuðborgarsvæðinu í rúman áratug og sem við erum nú að súpa seiðið af og skýrir ástandið meira en nokkuð annað. Það ástand breytist ekki nema verulega verði stutt við námsstöðurnar og starfsskilyrðin sem slík gerð fýsilegri hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef síðan blikur eru á lofti að aðrar stéttir blandi sér með óeðlilegum hætti í störf heimilislækna er hætt við að áhuginn minnki enn frekar. Ef breyta á heimilislækningum í færibandavinnu og sjálfvirka lyfjaafgreiðslu hjúkrunarfræðinga er vegið að sérfræðigrein heimilislækna og sennilega best fyrir unglækna að velja sér strax aðra sérgrein innan læknisfræðinnar sem tryggir sjálfstæðan starfsvettvang í nútímalegri læknisfræði, hér heima eða erlendis.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn