Miðvikudagur 23.02.2011 - 14:59 - FB ummæli ()

Sveppaumræðan og landinn.

Það er margt sameiginlegt með umræðunni í dag og myglunni. Hún lyktar illa og það getur verið erfitt að greina skemmdu eplin í körfunni nema taka þau öll upp og skoða þau vel og vandlega. Ef til vill kemur myglufnykurinn samt annars staðar frá, jafnvel að utan. Sjálfur tel ég mig næman að finna myglulykt, ekki síst þegar ég þefa af korktappanum eftir að hafa tekið upp góða rauðvínsflösku. Sama þegar ég lykta af víninu sjálfu og jafnvel reyndustu vínsmökkunarmeistarar við borðið hafa brugðist, en ég segi ekki neitt. Þannig lætur maður sig hafa það og drekkur vínið þótt í því sé smá myglubragð í bland við eikina, tjöruna og jafnvel súkkulaðið. Þannig er jú líka lífið sjálf. Við vitum samt að í sumum tilvikum getur myglan valdið eitrun og lyktin er til viðvörunar að maturinn, eða vínið kunni að vera skemmt. Eins að húsakynnin okkar séu óíbúahæf og jafnvel heilsuspillandi.

Þegar flaskan hefur staðið lengi opin eftir gleðskapinn og innihaldið er orðið ógeðslegt, súrt og myglað og ekkert annað að gera en hella niður eftirstöðvnum, hversu gott sem vínið kann að hafa smakkast kvöldið áður. Sama er með mál málanna sem gegnsýrt hefur íslenskt samfélag. Lyktarskynið  sem ég talaði um í síðustu færslu minn og reyndar bragðskynið líka er þannig til að verjast aðsteðjandi hættu, en líka til að laðast hvort að öðru og hefur því tilfinningarlegt gildi eins og svo margt annað þessa daganna. Það sem hæst ber í þjóðfélagsumræðunni lyktar samt orðið afar illa og ber að ljúka sem allra fyrst, með öllum ráðum. Að öðrum kosti mun sú umræða eitra fyrir okkur öllum að lokum.

File:Staphylococcus aureus (AB Test).jpgEn myglan er ekki með öllu ill og myglan ætisskálunum hans Flemmings varð til þess að hann uppgötvaði penicillínið, efnið sem sumir sveppir gáfu frá sér til að drepa bakteríur sem sótt höfðu á þá og hafði verið sáð á ætisskálarnar til ræktunar, sambærilegum þeirri sem hér sést til hliðar. Sveppir sem höfðu fokið inn um glugga fyrir tilviljun frá nærliggjandi húsum og ollu síðan einni mestri uppgötvun í læknavísindunum á síðustu öld. Lyfið penicillín, sem kallað var kraftaverkalyf en virkar líka á okkar innra og ytra jafnvægi. Ekki síst þegar það er ofnotað og sýklar sem við viljum losna við verða ónæmir fyrir því. Oft finnst manni vanta eitthvað svipaða úrlausn fyrir hina svokölluðu vitrænu umræðu í dag og sem eftir allt saman er oft allt annað en vistvænleg. Því ekki er öll nótt úti að myglan í umræðunni í dag leiði til einhvers bata í framtíðinni, og áður en við verðum algerlega ónæm fyrir henni. Og allra síst er Helgi Hallgrímsson, rithöfundur óvinur sveppanna, sveppanna í landsflórunni okkar sem hann fékk bókmenntaverðlaunin fyrir á dögunum og lagði ævistarfið sitt að veði fyrir.

Einhverja hluta vegna er flestum okkar hinna hins vegar meinilla við alla myglu svo jaðrar við áráttu, að minnsta kosti ef marka má umræðuna, ekki síst í fjölmiðlum. Sumir vilja jafnvel meina að hún sé rót alls ills. Nýlega sá ég viðtal við móður stúlku á sjónvarpstöðinni INN sem fullyrti að slæmar gelgjubólur dótturinnar væri af völdum sveppa í blóðinu og sýndi ljósmyndir sem áttu að vera smásjármyndir af blóði fyrir og eftir „meðferð“ svo og myndir af andlitshúð með slæmum gelgjubólum fyrir meðferð og nánast eðlilegri húð eftir meðferð, meðferð sem byggðist fyrst og fremst á mataræðinu. Í svipaðan dúr hafa sumir aðrir tekið sem fullyrða að candida sveppurinn komi víða við sögu og eyðileggi allt sem fyrir honum verður. Gerir meltingarveginn hriplekann og þegar sveppurinn kemst í blóðið geti hann jafnvel valdið krabbameinum víða um líkamann. Sérhæft fæði sé lausnin ásamt ýmsum fæðubótarefnum! Könnumst við, við hljóminn og skyndilausnirnar annars staðar frá í umræðunni í þjóðfélaginu?

Í vikunni var grein eftir Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalækni, í Fréttablaðinu sem hann nefndi „Til hamingju með nýja óvininn“ þar sem hann fjallar einmitt um þá fræði sem þarna býr að baki og á lítið skylt við læknisfræði. Oftúlkun einkenna sem gjarnan er tengt umræðunni í dag um útbreiddar sveppasýkingar og sjálfsásökunum saklausra sem trúa í blindi á boðskapinn. Reyndar eins og í svo mörgu öðru í dag sem jaðrar við heilaþvott. Eftir 20 ára starf sem heimilislæknir hef ég að minnsta kosti aldrei rekist á neinar almennar og alvarlegar afleiðingar sveppasýkingar hjá annars hraustum einstaklingum þótt sumar sýkingarnar geti verið ansi hvimleiðar. Annað mál gildir um alvarlega veika sjúklinga af öðrum orsökum með bilað ónæmiskerfi og sem geta verið viðkvæmir fyrir inngripsmiklum sveppasýkingum.

Ákveðið gersveppaóþol er þó vel þekkt sem byggist á yfirvexti ákveðinna gerla í görninni sem eru fjölmargir, oftast góðir. Gerlar sem eru nauðsynlegir meðal annars til að melta fæðuna. Jafnvægið á milli gerla og baktería í görninni er líka viðkvæmt og brenglast t.d. oft við inntöku á breiðvirkum sýklalyfjum sem eyðileggja þá tímabundið sýklalyfjanæmu gerlana, en gefa þeim ónæmu og oft óhagstæðu tækifæri á að grassera. Um þetta fjallaði ég fyrr í vetur undir heitinu „Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu“ og jafnframt mikilvægi garnarinnar í ónæmisþroska ungbarna.

Lélegt fæði sem slíkt veldur þó oftar meltingarónotunum, miklu lofti og hugsanlega meiri vexti óæskilegra gasmyndandi baktería. Belgingur, meltingartruflanir og jafnvel niðurgangur getur verið afleiðingin, en síður að nokkuð af þessu komist inn í blóðrásina og enn síður að þessar bakteríur og gersveppir valdi sýkingum og jafnvel krabbameinum hingað og þangað. Miklu fleiri virðast hins vegar viðkvæmir fyrir umræðunni og gleypa blákalt við öllu sem sagt er og að þarna sé komin skýring á öllu því sem aflaga hefur farið í lífinu og heilsufarinu. Þvílík einföldun og þvílík veröld sem við búum í ef satt reyndist og sem þá í raun slær út allar góðar vísindaskáldsögur sem hingað til hafa verið skrifaðar.

Húðsveppasýkingar eru reyndar allt annað mál og þar spila Candida sveppirnir stærstu rulluna. Í nútíma þjóðfélagi eru þær sýkingar alltaf að verða algengari og skýringin er helst að finna í mikilli notkun á svitaslegnum íþróttaskóm og óhreinum gólfum íþróttahallanna. Teppi og annar óþrifnar elur á þessum vanda en húðsveppir finnast samt í einhverju mæli í öllu venjulegu umhverfi og víða á gólfum, jafnvel heima hjá okkur, ekki síst á baðherbergjunum. Oftast er spurningin samt fyrst og fremst um ytri aðstæður og innra jafnvægi einstaklings hvað fær þrifist. Alveg eins og þjóð meðal þjóða eða þjóð í eigin landi.

Umræða dagsins litast nú af af öfgum og súrealískum ákvörðunum. Þjóðfélagið allt er eins og sjúkur og súr einstaklingur. Það er því ekki nema von að ákveðnir rithöfundar eru farnir að velta fyrir sér hvort ragnarök séu í nánd. Mál málanna er þegar farið að eitra fyrir þjóðinni. Eins og súrt og skemmt vín sem engum ætti að detta í hug að drekka enda flaskan staðið opin í allt of lengi og mygluskánin sem flytur ofan á augljós.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn