Þriðjudagur 05.04.2011 - 11:02 - FB ummæli ()

Danir nota líka hjólahjálma

Töluverð umræða var hér á blogginu og í fjölmiðlum fyrir nokkrum vikum síðan um hvort lögleiða eigi notkun hjólahjálma fyrir fullorðna eins og börn eða ekki. Hluti hjólreiðarmanna og jafnvel félagasamtök sem þeir skipa, hefur hins vegar barist einharðlega gegn slíkri lögleiðingu sem þeir telja forræðishyggju og skapa gerviöryggi í umferðinni. Bílstjórar taki jafnvel minna tillit til þeirra. Virðist þeim nokkuð ágengt að tefja málið endalaust í stjórnkerfinu og vísa m.a. til lítillar notkunar hjálma hjá sjálfri hjólaþjóðinni Danmörku, máli sínu til stuðnings. Þjóð þar sem nánast allir hjóla frá blautu barnsbeini og hjólabrautir út um allt. Ólíkar aðstæður og eru hér á landi þar sem margir óvinar fara beint út á göturnar á hverju vori, ekki síst börnin okkar. Hjólin sjálf oft líka ryðguð og stirð eftir alla inniveruna í vetur eins og eigendurnir. Nú kemur hins vegar í ljós samkvæmt síðustu tíðindum að Danir vilja líka verja heilann sinn, þótt síhjólandi séu allt árið um kring.

Á aðeins 2 árum hefur hlutfall fullorðinna sem nota hjólahjálma aukist um 10% og nota nú um 25% fullorðinna hjálma að staðaldri í Danmörku en árið 1993 var hlutfallið aðeins um 4%. Þetta eru gleðilegar fréttir enda hafa rannsóknir í Danmörku sýnt að fækka megi verulega alvarlegum heilaáverkum fullorðinna, eða um allt að helming með því einu að nota hjólahjálma. Þetta kom fram í fréttum danska umferðarráðsins, Rådet for Sikker Trafik sem birt var á netsíðu DK í fyrradag. Meiri skilningi almennings á slysavörnum og betri hönnun á hjálmunum sjálfum er þakkaður þessi árangur. Árangur sem ætti að vera efasemdamönnum á Íslandi sem kalla hjálmana jafnvel óþarfa frauðköggul á hausinn, kærkomin vitneskja.

Það er ekki bara mál einstaklings sem verður fyrir höfuðhöggi ef hjólreiðarmaður dettur óvarinn á hausinn og heilaskaði hlýst af, heldur þjóðfélagsins alls. Því þarf að lögleiða hjólahjálmanotkun sem fyrst á sama hátt og bílbelti voru lögleidd hér á landi 1981 þannig að eingum „detti í hug“ að setjast á hjól án þess að láta á sig hjálm. Látum skynsemina ráða og sýnum börnum okkar gott fordæmi. Það hlýtur að vera skylda okkar allra að forðast alvarleg hjólaslys eins og hægt er. Á sama tíma og við viljum stuðla að meiri hjólreiðum og betra umferðaröryggi allra vegfarenda á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn