Miðvikudagur 06.04.2011 - 21:41 - FB ummæli ()

Skugginn af sjálfum mér

Ekkert er meira rætt þessa daganna en kosningarnar á laugardaginn. Já eða Nei. Úrslit sem geta skipt þjóðina afskaplega miklu máli. Jafnvel hvort búandi verði hér á landi við nútímaleg lífkjör á allra næstu árum. Réttlætiskennd og þjóðarstolt blandast þó inn í umræðuna og sitt sýnist hverjum. Þrátt fyrir allan undirbúninginn og umræðuna síðastliðna mánuði virðast tilfinningarnar ætla að ráða mestu á lokametrunum og margir sveiflast til og frá, eftir stemmningunni hverju sinni. Mál sem fyrir nokkrum vikum síðan flestir voru orðnir hundleiðir á og gátu ekki nefnt á nafn, ógrátandi. Sanngirniskrafa unga fólksins sem var alsaklaust af þessu öllu saman er þó auðvitað auðskilin. Það fólk verður að minnsta kosti ekki kallað óreiðufólk í þessu samhengi, hvað sem segja má um okkur hin og hvað sem síðar verður.

Sjálf var þjóðin eins og unglingur þegar meintir atburðir áttu sér stað, skjótráð og oft klaufaleg, sem þjóð meðal þjóða. Er nú er komið að uppgjörinu við umheiminn og þjóðin verður að taka sameiginlega ábyrgð, kynslóð með kynslóð. Meta það besta í stöðunni. Þjóðin hefur líka fullorðnast, skulum við vona af raunum sínum. Nú er fyrst og fremst spurt hvort við séum menn eða mýs. Hvort við séum ábyrg og nógu huguð til að taka á vandanum saman.

Annar hundurinn minn heitir eftir skugganum og er kolsvartur labrador, en hið besta skinn. Unglingur reyndar í hundaárum og kann ekki fótum sínum forráð þótt sterkur sé. Fer fram úr sér og er oft ansi fótvaltur, ólíkt gömlu íslensku tíkinni minni, henni Trýnu. Það versta er að ef hann kemst í skít að þá á hann það til að velta sér upp úr honum. Árátta sem einkennir marga hunda, sennilega til að þeir samlagist umhverfinu sínu og öðrum hundum betur við ákveðnar aðstæður. Ekkert óeðli og sem er auðleyst með hundaþvotti. Staðreyndir verða hins vegar ekki þvegnar úr sögunni. Þær eru eins og skugginn okkar, elta okkur hvert sem við förum, hversu hratt sem við hlaupum.

Á löngum og dimmum vetri eru skuggarnir oft ansi langir og stundum hrollvekjandi. Ekki síður skuggar okkar sjálfra, blandaðir sögu þjóðarinnar og stundum slæmra endurminninga. Á björtum vordegi eru skuggarnir hins vegar styttri og að lokum hverfa þeir nánast í birtu hásumarsins. En skugginn hverfur þó aldrei alveg og er alltaf spegilmynd okkar sjálfa, misjafn eftir aðstæðum. Látum nú skuggann okkar verða sem minnstan, verum jákvæð og segjum Já, á laugardaginn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn