Fimmtudagur 07.04.2011 - 11:41 - FB ummæli ()

Til hamingju með daginn, Íslendingar!

Í dag, 7. apríl er alþjóðadagur Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem tileinkar daginn í ár baráttunni gegn sýklalyfjaónæminu og óskynsamlegri notkun sýklalyfja. Heilbrigðisógn sem stofnunin telur með þeim mestu í heiminum. Sennilega ættum við Íslendingar að halda meira upp á daginn en nágranaþjóðirnar og reyndar tileinka heilan mánuð, aprílmánuð ár hvert árvekninni, ekki veitir af. Ekki síst úti í þjóðfélaginu þar sem tilefnið er miklu meira og vandamálið stærra en í flestum löndum sem við viljum bera okkur saman við og má segja á vissan hátt að sé lyfjamengun sem eyðileggi okkar nánasta umhverfi, flóruna okkar sjálfra. Tugir barna sem þurfa að leggjast á sjúkrahús til að fá sýklalyf í æð eða vöðva, jafnvel í hverjum mánuði þar sem hæstu skammtar breiðvirkasta sýklalyfsins sem völ er á í inntökuformi dugar ekki. Meðferð sem í dag er ráðlögð við alvarlegum eyrnabólgusýkingum á heimilum vegna sýklalyfjaónæmis. Algengar sýkingar barna sem áður var auðvelt að meðhöndla, þegar sýklalyfin virkuðu vel.

Frá 15. mars sl. hefur legið fyrir erindi með skriflegri fyrirspurn til velferðarráðherra frá Siv Friðleifsdóttur alþingismanni, sem snýr nákvæmlega að íslenska vandanum. Það hefði verið gott og upplýsandi fyrir umræðuna á Íslandi í dag að svör væru komin við fyrirspurninni, þótt ekki væri nema í tilefni dagsins. Velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson skrifar reyndar grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann vekur athygli á deginum en gerir allt of lítið úr vandanum á Íslandi að mínu mati og þar sem allt samráð vantar við heilsugæsluna í landinu.

1). Hvenær má vænta þess að hafnar verði bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum, sem m.a. valda eyrnabólgum? 
2). Stendur til að bólusetja öll börn þriggja ára og yngri gegn pneumókokkasýkingum til að ná fyrr fram svokölluðum jákvæðum hjarðáhrifum og til að gæta jafnræðis meðal ungbarna, en nú þegar óska margir foreldrar eftir bólusetningunni á eigin kostnað? Ef svo er ekki, hvers vegna? 
3). Hefur verið reiknað út hve hagkvæm slík hjarðáhrif gætu verið? 
4). Telur ráðherra að flýta þurfi bólusetningunni vegna aðstæðna hér á landi, svo sem alvarlegs sýklalyfjaónæmis sem einkum er á höfuðborgarsvæðinu? 
5). Hve mörgum börnum hefur á liðnu ári þurft að gefa stærstu skammta breiðvirkra sýklalyfja sem völ er á í inntökuformi og hve mörg börn hafa verið lögð inn á spítala til sýklalyfjameðferðar í æð eða vöðva með sterkustu lyfjum sem völ er á til meðferðar á slæmum eyrnabólgum þar sem önnur lyf hafa ekki virkað? 
6). Telur ráðherra að mikil notkun sýklalyfja við eyrnabólgum ungbarna á Íslandi tengist verklagi í heilsugæslunni og miklu álagi á vaktþjónustuna og barnalæknavaktina vegna undirmönnunar lækna í heilsugæslunni? 
7). Verður haft samráð við heilsugæsluna við undirbúning bólusetninganna og verður hafið kynningar- og fræðsluátak fyrir lækna og foreldra um skynsamlega og markvissa notkun sýklalyfja samfara góðu hjarðónæmi barna gegn pneumókokkum þegar bólusetningarnar hefjast?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn