Miðvikudagur 11.05.2011 - 13:27 - FB ummæli ()

Samfélagsleg ábyrgð á velferð barna á Íslandi

Nú eru skólunum að ljúka og sumarið framundan. Fyrir mörg börn er skólinn samt griðastaður frá erfiðleikum heima fyrir, ekki síst á tímum sem við nú lifum og fátækt víða ríkjandi á heimilum. Fyrir þeim börnum þarf nú að hugsa þótt henni Grýlu gömlu hafi oft verið hótað í gamla daga, ef börnin væru ekki nógu þæg og góð.

Í fyrra var ég á áhugaverðum fyrirlestrum á Læknadögum um efnahagskreppur og áhrif þeirra á heilsu barna. Forseti Evrópusamtaka barnageðlækna, Tuula Tamminen og Nick J. Spencer, forseti Evrópusamtaka í félagslækningum barna (European society for social paediatrics and child heath, EESOP) heldu þar m.a. erindi.

Tuula vísaði til reynslunnar af kreppunni í Finnlandi á níunda áratug síðustu aldar og fjölda rannsókna sem gerðar hafa verið á geðheilsu barna þar í landi. Mikilvægasti þátturinn til að fyrirbyggja geðræn vandamál hjá börnum var að fjölskyldan stæði saman og foreldrar reyndu allt hvað þau geta til að tryggja sem best andlega vellíðan barna sinna. Í kreppunni í Finnlandi var ekki hugað nógu vel að þessum fjölskyldugildunum og margar fjölskyldur brotnuðu vegna örvæntingar og álags. Líta verður á það sem mestu máli skiptir í samskipum fólks, kjarnagildin og sjálfa væntumþykjuna. Ytri þrengingar og jafnvel atvinnuleysi foreldra hefur minna að segja ef hægt er að tryggja með einhverjumóti “hamingju innan fjölskyldunnar“ sem auðvitað er oft erfitt í aðstæðum sem slæmar kreppur skapa. Reynslan af kreppunni í Finnlandi stappaði stálinu í finnsku þjóðina og efnahagslífið til lengri tíma litið en hún varð að fórna miklu í staðin, týndu kynslóðinni.

Nick fjallaði meira um líkamlega heilsu og benti á að auðvitað yrðu fátækari þjóðir og þróunarlöndin miklu verr úti í kreppum. Ríkari þjóðir standa miklu betur að vígi og þurfa yfirleitt ekki að glíma við mjög skerta heilbrigðisþjónustu hennar vegna. Alvarlegra langtímaáhrifa á líkamlega heilsu væri því síður að vænta, sérstaklega ef kreppan varir ekki mjög lengi. En á Íslandi gerast hlutirnir öðruvísi.

Í „góðærinu“ fórum við fram úr okkur á mörgum sviðum, það vitum við nú vel. Á öðrum sviðum drógumst við hins vegar aftur úr miðað við aðrar þjóðir og það á ekki síst við um heilbrigðisþjónustuna. Þar er búið að vera langvarandi kreppa og í raun kom góðærið aldrei þangað. Af mörgu er að taka þótt sumt hafi verið meira í fréttum undanfarið tengt kreppunni nú. Það var nefnilega svo að tannheilsa barna var mikið verri miðað við hin Norðurlöndunum í meintu góðæri. Þá eins og nú ung börn sem þurfa að vera með tannpínu árum saman og nota verkjalyf og unglingar jafnvel með uppeyddar fullorðinstennur þar sem foreldrar hafa ekki efni á tannlæknaþjónustu eins og kom fram í fréttum á Stöð 2 í vikunni. Börnin fitnuðu líka og geðheilsan versnaði eins og hún heldur áfram að gera í dag. Sýklalyfin líka mikið ofnotuð sem skyndilausn í skipulagslausu kerfi og tengdist beint við hratt vaxandi og alvarlegu sýklalyfjaónæmi, langt umfram það sem gerst hefur hjá nágranaþjóðunum. Aðgerðir stjórnvalda til að ráðast að rót vandans eru eftir sem áður litlar, en alltaf loforð á tillidögum. Eini munurinn er að nú eru góðærisbörnin kreppubörn og stöðugt erfiðara að bregðast við vandanum.

Erfitt er að sjá annað en að tannheilsa barna sem þó leggur grunn að góðri heilsu síðar haldi áfram að versna enda dýrt að fara til tannlæknis í dag. Heilbrigðisyfirvöld hafa nú samt gert rástafanir til að reyna að auka niðurgreiðslu á nauðsynlegri tannlæknaþjónustu barna með samningum við tannlækna og jafnvel standa straum að kostnaði tímabundið samkvæmt sérstakri umsókn ef efnahagur er mjög bágur. Sykur og gos telst ennþá til ódýrari matvæla sem margir nýta sér til huggunar fyrir sig og sína. Börnin hafa enda haldið áfram að fitna svo til vandræða horfir enda þúsundir barna allt of feit í dag. Þjóðin sjálf er líka að verða meðal feitustu þjóðum veraldar. Sykursýki mun þannig aukast og æðasjúkdómar verða algengari þegar árin líða. Geðlyfjakostnaður og önnur úrræði vegna, stress og álags og lakari geðheilsu barna og unglinga mun væntanlega líka aukast á komandi árum.

En hvað segir þetta okkur í dag um stöðu velferðarmála barna á Íslandi og það eftir allar þær úttektir sem gerðar hafa verið (eða ekki gerðar) á stjórnsýslunni eftir efnahagshrun og sem var mest okkur sjálfum um að kenna. Getur verið að horft hafi verið fram hjá viðkvæmustu hlutunum sem við vildum einfaldlega ekki horfast í augu við. Við höfum samt haft sérstaklega góða ástæðu til að horfa í fortíðarspegilinn nú, þann hinn sama og reyndist okkar örlagaspegill, og endurskipuleggja og forgangsraða hlutunum upp á nýtt, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins. Í pistli sem ég nefndi, „Heilsugæsla með sálina að veði“ ræddi ég t.d. mikilvægi sálgæslu og þverfaglegrar vinnu heimilislækna með öðru heilbrigðisstarfsfólki, ekki síst hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum vegna álags á fjölskyldur, ekki síst í kreppu. Heimilislæknum sem nú fækkar óðfluga og sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem varla eru til innan kerfis. Í gærkvöldi vorum við síðast minnt á mikilvægi hjálpar við áfallastreituröskun erlendra barna sem flytjast hingað með hælisleitendum frá stríðshrjáðum löndum og mikilvægi góðra tilfinningatengsla við börn í því sambandi í viðtali við sálfræðing Rauðakross Íslands í sjónvarpsfréttum RÚV. Við hljótum að geta litið okkur nær þar sem margar íslenskar fjölskyldur flosna nú upp vegna atvinnuleitar forráðamanna erlendis eða brottflutnings heilu fjölskyldanna burt úr landinu í leit að betri heimi, þar sem streita íslenskra foreldra hefur mikil áhrif á börnin okkar allra. 

Hvatning ætti að vera til að bæta heilsu barna með markvissari aðgerðum en nú er m.a. í bættu fæðuvali og stuðning við hreyfingu barna . Þarna ættu skólarnir að spila miklu stærra hlutverk. Einfaldar aðgerðir sem byggja klárlega á velferð til framtíðar. Miklu meiri fræðsla þarf líka að koma til fyrir foreldra og skóla um heilsumarkmið barna og unglinga. Heilbrigðisþjónustan sjálf þarf ekki síst að vera mikið markvissari og betur skilgreint hvar hennar á fyrst að leita, í grunnheilsugæslunni, hjá sérfræðingum á stofu eða á spítölunum, líka í sjálfri höfuðborginni. Við getum sparað mikið í óþarfa lyfja- og rannsóknakostnaði ef rétt er staðið að málum og læknisþjónusta og lyf eru notuð á markvissari hátt en nú er gert og alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar gera ráð fyrir. Þess má þó geta að þegar hafa sparast nokkrir milljarðar króna með markvissari aðgerðum heilbrigðisyfirvalda í lyfjavali á síðustu árum.

Ef ekkert er að gert mun það leiða til mikils aukins kostnaðaðar fyrir heilbrigðiskerfið í framtíðinni og verri líðan almennings. Að hér verði verra að búa en í nágranaríkjunum. Í náinni framtíð óttast maður ennfremur að heilbrigðiskerfið hafi ekki fjármagn til að standa undir auknu álagi sem því myndi fylgja og jafnvel ekki undir því sem við teljum sjálfsagða þjónustu dag. Á þessu er þegar farið að bera með lokun heimilislæknaþjónustu 1/3 hluta sólarhringsins hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er síður ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þróun kennslu-og menntamála eins og með niðurskurði í skólakerfinu. Þarna og í heilbrigðis- og velferðarmálum barna almennt liggja samt þolmörk þjóðarinnar.

Á einhverju verður framtíðin að byggja á landi sem hefur sýnt sig að ekkert síður í góðæri en kreppu getur étið börnin sín, að minnsta kosti tennurnar þeirra. Ef ekki er passað upp á þau.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn