Fimmtudagur 12.05.2011 - 17:34 - FB ummæli ()

Í boði jöklanna

Hafrafell og Vatnajökull 08.05.2011 (mynd Harald Jóhannesson)

Það þarf ekki stórglæsilega Hörpu til að geta notið. Hljómlistar, litadýrðar eða menningar yfirhöfuð, allt hvernig á það er litið. Jöklaævintýri er t.d. aðeins hluti þess sem íslensk náttúra sjálf býður upp á. Maður þarf aðeins að vera tilbúinn að þiggja, vera með, ganga, horfa og hlusta.

Með erfiðari göngum sem ég hef farið á lífsleiðinni var ferð um síðustu helgi á Vatnajökul. Jökul jöklanna, skjannahvítur og víðáttumikill. Eins og annað land í landi ís og elda þar þú verður agnarsmár. Og það er ólíkt að ganga á jökli eða fjalli fyrir margra hluta sakir og sem ég hvet allt göngufólk til að reyna, þótt ekki væri nema einu sinni. Jöklaganga krefst mikils undirbúnings og góðrar farastjórnar. Hennar varð ég og konan mín og 18 aðrir samferðarmenn aðnjótandi fyrir tæpri viku síðan, 8. maí árið 2011. Á stórafmælisdegi vinar míns og aðalfararstjórans, Jóns Jóel Einarssonar hjá Út og vestur. Aftur til hamingju vinur.

Eftirvænting með veðurspánna spilar stórt hlutverk síðustu dagana fyrir ferð. Ekki að maður sé ekki vanur að ganga í ýmsum veðrum, en í 2000 metra hæð skiptir vindkæling og skyggni öllu máli og gangan getur tekið sólarhring, í versta falli. Veðurglöggir jöklamennirnir reiknuð síðan út „glugga“ og draga myndi úr úrkomu og skyggni batna sem gæfi okkur möguleika á að komast alla leið á tind Hvannadalshnjúks. Því þurfti að vera snemma á ferðinni og leggja af stað klukkan 3 að nóttu. Og viti menn, þetta gekk allt eftir og seint kvöldið áður var himininn orðin heiðskýr og tær. Í norðaustan garra lögðum við síðan af stað upp frá Sandfelli .

Í fjallgöngur þarf auðvitað alltaf góðan útbúnað, góða gönguskó og skjólfatnað. Á jökla þarf búnaðurinn að vera meiri, betri hlífðarfatnaður, ísöxi á pokann og göngugadda til að geta sett undir skóna. Á jöklum geta oft leynst sprungur undir, við hvert fótmál svo það er eins gott að fara varlega og vera með góða leiðsögn og helst alltaf í línum. Gönguplanið í upphafi þarf að vera skýrt og nauðsynlegt að hafa nóg af nesti og drykkjum meðferðis og orku fer að þrjóta. Varáætlun þarf  líka að hafa með í farteskinu, ef út af bregður og að maður njóti alltaf göngunnar, hvert sem hún leiðir mann að lokum.

Vatnajökull nálægt Sandfelli 08.05.2011 (mynd Harald Jóhannesson)

Það er í raun næsta ólýsanlegt að ætla að reyna að lýsa öllum þeim hughrifum sem maður verður fyrir í ferð sem þessari. Fyrir utan áskorunina að að reyna aðeins á eigið þrek og mörk. Hver mínúta er sem í öðrum heimi, þar sem nær allt hverfur fyrir stundinni sem er upprunnin og markmiðinu að komast á leiðarenda. Frábærar ljósmyndirnar sem Harald Jóhannesson tók, lýsir umhverfinu að hluta en enginn listamaður getur dregið öll þau áhrif fram sem skynfærin fengu að njóta, í myndlist, tónlist og ljóðlist. Þar hefur náttúran og samband hennar við þig algjört forskot.

Eftir því sem klukkustundunum fjölgar á göngunni og þreytan segir meir og meir til sín fá hlutirnir á sig nýja vídd og tilgangur lífsins að geta lifað frískur, verður skýrari en nokkru sinnum áður. Af hverju við erum eins og við erum? Reynslubrunnur sem maður safnar í til að geta endurupplifað æ síðar. Sá er líka tilgangur minn með þessari lýsingu, að aðrir geti notið brotabrots af reynslunni og verið þeim hvatning til að prófa hið sama.

Hvert fótskref getur verið þungt eftir að upp í snjóinn er komið. Hjarnið missterkt og skrefin misdjúp. Margra klukkustunda ganga upp í móti, upp fyrir þokubakka í neðstu hlíðum og síðan upp fyrir sjálf skýin. Þar sem fjallstindarnir fá nýja vídd og þú horfir niður á þá og tilveruna sem afmarka þá frá undirlendinu. Landið brúna og græna, sandarnir svörtu og hafið dimmblátt og hvítfrissandi í órafjarlægð. Ósarnir mjólkurlitaðir og fjallstopparnir hvítir. Þar sem sólin var líka velkomin í þetta sinn ofar skýjunum.

Hvannadalshnjúkur 08.05.2011 (mynd Harald Jóhannesson)

Hnjúkurinn sjálfur eins og ísaður hamar þar sem tíminn hefur staðið kjurr. Allt frosið sem frosið getur og ekkert líf nema í mér og samferðarmönnunum. Gaf aðeins okkur alla þessa víðáttu að njóta, þessa stuttu stund á toppnum. Hugurinn komst ekki hjá því að hugsa um allan þennan ís sem er vatnsforðabúr allra til framtíðar. Vatnið sem annað líf þrífst á og mun þurfa að gera um ókomin ár. Samt bráðnar jöklar hraðar á norðurslóðum en nokkru sinni, eða um marga rúmkílómetra á ári hverju bara hér á landi, jafnvel tugi. Sem geta með sama áframhaldi bráðnað upp á næstu öldum. Allt vegna hlýnunar jarðar sem er mest af okkar eigin völdum. En meðan gráta jöklarnir.

Við hlið ísjaðarins rísa fjallgarðar sem eru eins og fegurstu dómkirkjur Evrópu, bara margfallt stærri og tígurlegri eins og t.d. Hafrafellið. Vindurinn hvín í berginu og stundum má heyra hrynjanda í melódískri symfóníu, þótt oftar sé tónarnir angurværir og jafnvel drungalegir. Þar er þó enginn slitinn Hörpustrengur og ekki til falskur tónn. Yfir ísinn fýkur íshröngl sem vindurinn einn hefur ná að rífa upp úr hjarninu og sem síðan dreifist yfir hola ísskelin eftir bráðnun dagsins. Milljónir klingjandi ísnála sem syngur í og gefur symfóníunni nýtt yfirspil á aðra tóna. Eitthvað sem verður aldrei spilað á neitt hljóðfæri. Þar sem við fáum að hlusta, sjá og njóta, allt í senn í henni veröld.

Í lok göngu eftir 14 tíma er mælirinn  fullur. Orkan búin og það er gott að vera kominn aftur heim, alsæll. Niður á jörðina, hvílast og nærast. Þú varst um stundarsakir nær öðru takmarki í lífinu, á landi sem heitir Ísland.

(Á You Tube má sjá myndband sem Harald Jóhannesson gerði af ferðinni góðu með Út og Vestur á Hvannadalshnjúk 8.5.2011.)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn