Það er erfitt að koma orðum að því hvernig manni líður í jarðarför ættingja,vina og samferðamanna. Nú sækja þessi hughrif á mig af öðrum orsökum. Það er ekki vegna þunglyndis heldur þess dapurleika hvernig komið er fyrir þjóðfélagi sem ég átti þátt í að byggja upp. Það getur ekki annað en reynt á tilfinningarnar svo um munar þegar maður horfir í baksýnisspegilinn og sér hvernig til hefur tekist á mikilvægum sviðum. Það breyttir þó ekki þeirri staðreynd að framið var níðingsverk á þjóðinni á sínum tíma sem átti sinn bakhjall hjá stjórnmálamönnum á Alþingi og forsetanum á Bessastöðum.
Nú vil ég reyna að segja söguna eins og hún blasir við mér. Jarðarfarirnar reyna á mann til hins hins ýtrasta og því sennilega best að byrja þar. Við þær aðstæður leggst allt á eitt. Söknuður og oft mikil sorg. Stundum grátur og vorkunnsemi gangvart þeim nánustu. Orgelspil og lagaval sem síðan hámarka hughrifin þegar maður horfir á kistuna sveipaða íslenska fánanum. Síðan ákveðinn fögnuður í hjarta yfir því hvað prestinum tekst að gera lífhlaupið merkilegt. Þetta kemur reyndar enn betur fram í minningargreinunum og þá frá fleirum sjónarhornum. Lokauppgjörið virðist þannig oftast nokkuð gott, en eftir situr samt fyrst og fremst minningin um manneskjuna eins og maður sjálfur þekkti hana. Minning samferðarmanns sem er alltaf til góðs að einhverju leiti. Eftir jarðarförina er oft eins og að lífið byrji að nýju. Ákveðið uppgjör hefur átt sér stað og áminning til okkar hinna að við getum alltaf gert betur.
Afmælin eru hins vegar önnur tímamót þar sem fólkið manns kemur saman. Þá er létt á nótunum, en innihald ræðanna oft hjáróma og fært vel í stílinn. Farið er yfir farinn veg og afmælisbarninu gjarnan hrósað í hástert. Því launahærri sem menn eru því veglegri afmæli og fleiri ræður, enda mörgum sem þakka þarf velgengnina. Menn eru hvattir til að halda áfram á sömu braut. Þegar líða tekur á skemmtunina fer samt oft ýmislegt úr böndunum og þá fjúka jafnvel fúkyrði manna á milli. Stundum endar gleðskapurinn með alsherjar upplausn.
Áminningarnar og hughrifin í lífinu eru þannig misjöfn eftir því á hvaða tímamótum við stöndum. Tilfinningarskalinn er þó sem betur fer alltaf til staðar en notaður mismunandi eftir stað og stund. Það er gott að finna hann þegar maður þarf á að halda. Tilfinningar sem segja manni oft meira en allt annað á hvaða vegferð við erum í lífinu. Brjóstvitið og heiðarleikinn blandast þessum tilfinningum sterkum böndum og sem við lærðum þegar við ólumst upp. Bestu þakkir fyrir það. Þær brjótast líka út við vissar aðstæður eins og við jarðarfarir og afmæli. En aldrei þessu vant líka við setningu Alþingis á laugardaginn var. Þegar áhrif okkar á gang mála og sem á horfðum og hlustuðum voru lítil sem engin.
Síðastliðin ár hefur mikil sorg ríkt hjá íslensku þjóðinni. Það einfaldlega dó eitthvað innra með okkur flestum. Við þurftum að ganga í gegnum áfalla- og sorgarferli eins og þegar ástvinur deyr, jafnvel þótt sá hafi verið mikið vandræðabarn alla sína ævi. Við viljum trúa því að hann hafi ekki verið alvondur og að hann hafi gefið okkur sem eftir lifum eitthvað til að læra af, aðallega samt reynsluna hvernig við eigum ekki að lifa lífinu. Aðstæður voru honum erfiðar og hann kunni ekki fótum sínum fjárráð. Við samglöddust honum samt við ýmis tækifæri, ekki síst á stórafmælum. Óreglan í bland við svik og pretti í viðskiptum var hans mesta óhamingja. Sennilega var uppeldinu mest um að kenna. Þar erum við sem eldri erum og ólu hann upp að hluta ekki alsaklaus. En nú erum við búin að kveðjum þennan vin og við tókum sameiginlega þátt í sorginni. Við ættum að vera sterkari á eftir og reynslunni ríkari.
Fáninn var dreginn við fullan hún á laugardaginn var, eins og þegar einhver á stórafmæli. En dagurinn varð ekki neinn gleðidagur. Í raun hinn mesti sorgardagur og við sitjum auk þess uppi með skömm í brjósti. Hvernig við létum fara með kjörna fulltrúa okkar sem reyna að gera sitt besta. Þegar níðst var á þeim í beinni útsendingu og kastað í þá fúleggjum. Sjá mátti tár á kinnum og sumir voru meira en lítið slegnir. Samt ekkert orgelspil en slegið á trumbur og kveiktir eldar. Erum við að misskilja hlutina, reiðina og sorgina sem býr innra með okkur og við fáum ekki útrás fyrir? Svari hver fyrir sig. Ég er að minnsta kosti bæði reiður og sleginn.
(Endurskrif á gömlum pistli á blogginu, Afmæli og jarðarfarir og hann staðfærður til dagsins í dag.)