Sunnudagur 11.03.2012 - 14:28 - FB ummæli ()

Læknisfræðin á Alþingi

Ákvörðun um lyfjameðferð er venjulega ákveðin eftir viðtal og mat á öllum hugsanlegum áhættuþáttum meðferðar. Ekki síst þegar um langtíma lyfjameðferð er að ræða hjá ungum stúlkum. Þegar ræða á getnaðarvarnir almennt til að koma megi í veg fyrir ótímabæra þungun og að umgangast þurfi P-pilluna eins og öll önnur lyf og hvað tegund hentar í hverju tilviki. Ekki síst þar sem margt getur breyst varðandi áhættumatið með tímanum, einkum með tilliti til blóðtappaáhættu. Ekkert síður mikilvægi kynheilsunnar um leið og rætt er mikilvægi þess að viðhalda góðri heilsu almennt talað og rætt er um aðrar forvarnir. Mikilvægi þess að reykja ekki með p-pillunni og sýna aðgát gagnvart öllum kynsjúkdómunum og hvert eigi að leita eftir hjálp ef eitthvað út af bregður. Þar sem félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og jafnvel sálfræðingar eiga líka að koma að málum í þverfaglegri vinnu heilsugæslunnar. Ef allt væri í lagi. Og hvað þá næst? Eiga hjúkrunarfræðingar þá að fá lyfjaávísanarétt á t.d. svefnlyf, blóðþrýstingslyf, geðlyf, sykursýkislyf, jafnvel sýklalyf þegar harðnar meir á dalnum í heilsugæslunni.

Það eru svo sannarlega blikur á lofti og margir skjótráðir með ráð undir rifi hverju, ekki síst pólitíkusar þessa daganna og sem láta undan miklum þrýstingi þrýstihópa. Sumir vilja maka krókinn og telja hiklaust að aðrar heilbrigðisstéttir en læknar geti ávísað lyfjum. Eitthvað sem þeir lærðu lítið sem ekkert um í háskólanum, en sem í ljósi aðstæðna og læknaskorts er talið réttlætanleg ráðstöfun í dag. Allskonar fræðingar sem fá hið háa Alþingi til að leggja blessun sína yfir gjörninginn og gera hann löglegann. Það er að minnst kosti ekki augljóst hvaða hagsmuni er fyrst og fremst verið að verja. En varla hagsmuni ungra stúlkna þegar til lengir tíma er litið og stór starfsvið heimilislækna sem talið hafði verið lögvernduð starfsgrein, rennur smá saman út í sandinn.

Lyfjaávísanir eru að vísu, þegar í vissum skilningi, gengnar læknum úr höndum vegna aðstæðna og orðnar oft hálf sjálfvirkar eins og ég hef oft rætt um áður. Oft eftir pöntun með tölvusamskiptum gegnum þriðja aðila, læknariturum og hjúkrunarfræðingum til að spara læknum tíma. Þar sem algengust lyfjaávísanirnar eru svefnlyf og p-pillan. Á sama tíma og heimilislæknirinn hefur ekki einu sinni aðgang í „lyfjagátt“ apótekanna til og leiðrétta ofskammtanir eða til að reyna að koma í veg fyrir hugsanlegar milliverkanir lyfja sem sjúklingarnir hafa fengið, héðan og þaðan.

Það lítur ekki vel út hjá þjóð þar sem heilsugæslunni hefur verið látin blæða um árabil á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þar sem byggja á samt upp nýtt og fullkomið hátæknisjúkrahús úr stáli og steinsteypu, í stað þess að tryggja mannauðinn. Það má hins vegar „til gamans“ geta að til er fyrirtæki sem heitir „Hvítir sloppar“ og sem ásamt fleirum fyrirtækjum sérhæfa sig í útflutningi á íslenskri læknisþjónustu til Norðurlandanna, aðallega til Noregs og Svíþjóðar. Þar sem sóttst er eftir vinnukrafti þeirra sem læknasloppunum tilheyra í raun, og taldir ómissandi.

Fyrir u.þ.b 25 árum var hin hjúkrunarfræðilega og læknisfræðilega ábyrgð kyrfilega aðgreind að vilja hjúkrunarfræðinganna. Sem vildu bera alla ábyrgð á hjúkrun sjúklinganna. Gengið var að þessum vilja enda hjúkrunarfræðigreinin þá komin á háskólastig og stjórnun á sjúkradeildarekstri hluti af náminu. Aldrei var talað um í þá daga að hjúkrunarfræðingar færu að skipta sér af lyfjaávísunum lækna frekar en læknar af hjúkrun og daglegum rekstri hjúkrunardeilda.

Á Íslandi hafa ljósmæður sem er framhaldsnám í hjúkrunarfræðum, krafist að fá að vinna sjálfstætt að mæðraverndinni í heilsugæslunni og fengu það í geng með reglugerðarákvæðum að flestum læknum forspurðum fyrir um tveimur árum síðan. Sitt sýnist hverjum hins vegar um þessa ákvörðun enda læknisfræðileg ábyrgð þar oft á tíðum illa skilgreind í mæðraverndinni. En það reynir hins vegar mikið meira á samstarfsvilja heimilislækna sem mest mæðir á „án ábyrgðar“ og hinni endanlegu læknisfræðilegu ábyrgð þegar vandræðin virkilega banka upp á.

Í yfirlýsingu frá Læknafélagi Íslandi frá því fyrir rúmlega ári síðan kemur vel fram hvað fellst í námi heimilislæknis sem með grunnnámi tekur allt að 12-14 ár. Kvensjúkdóma- og meðgöngufræðin þar á meðal. Læknadeild HÍ hefur reynt að sinna grunnmenntun lækna og síðan er sérfræðinám lækna skipulagt eftir alþjóðlegum viðmiðum í hinum ýmsu löndum. Sömu kröfur hafa hingað til verið gerðar hér og annars staðar í hinum vestræna heimi. Nú er hins vegar öldin önnur á Íslandi og hjúkrunarfræðingar og ljósmæður látnar leysa  af hólmi í vaxandi mæli starf heimilislæknisins.

Samkvæmt íslenskum lögum eiga allir rétt á bestu læknisfræðilegu hjálp sem völ er á hverju sinni. Skipulag læknisþjónustunnar hér á landi hefur tekið mið að því markmiði að skapa heilsteypta þjónustu á öllum sérsviðum læknisfræðinnar, þar sem engin sérgrein er annarri sérgrein mikilvægari. Heilsugæslan sinnir þannig frumheilsugæslunni,  þar sem skjólstæðingurinn vill og á gjarnan að fá að hitta sinn heimilislækni. Ungir sem aldnir, strákar og stelpur. Ekki síst þegar um viðkvæmustu stundir lífsins er að ræða og framtíðarviðhorfin eru oft ómótuð.

Er virkilega verið að bæta heilsu barna og ungra kvenna?  Viðtal um nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra sem veitir hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum rétt til að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna. Bylgjan, Í bítið 14.3.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn