Föstudagur 09.03.2012 - 11:13 - FB ummæli ()

Gullmolarnir í skjóðunni

Loks er kominn mars, sem í mínum huga boðar vorið framundan og haldið er upp á með sólarkaffi á mínum bæ. Í þriðja sinn er nú hvatt til árvekni gegn einu algengasta krabbameini karla, krabbameini í eistum, með „mottumarsinum“ svokallaða. Gegn krabbameini sem aðeins að hluta tengist lífsstíl okkar karlanna eins og flest önnur krabbamein annars gera. Því er enginn óhultur. Áminning um nauðsyn þess að sýna líkamanum ávalt árvekni um leið og við marserum gegnum lífið á eins heilbrigðan hátt og kostur er.

Eftir því sem aldurinn færist yfir, verða krabbameinin og leitin að þeim fyrirferðameiri í lífi hvers og eins. Staðreynd sem við fáum ekki breytt. Sem greinast eftir ítarlegar rannsóknir vegna tilefna og einkenna hverju sinni eða með kembileit hjá einkennalausum eins og á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Þegar ákveðin krabbamein eru það algeng en um leið þögul að leit hjá einkennalausum réttlæta slíka aðgerð og sem að öðrum kosti væri of kostnaðarsamt inngrip fyrir þjóðfélagið. Jafnvel gefið falskt öryggi og leitt okkur af veg, eins og þegar um algengasta krabbamein karla er að ræða, blöðruhálskirtilskrabbameinið, og PSA leit í blóði allra karla. Eins hugsanlega dregið úr eigin árvekni og hvata til nauðsynlegra lífstílsbreytinga sem blasa við. Kembileitin sem Krabbameinsfélagið býður upp á, reynir hins vegar að sameina alla góðu kostina í leit að alvarlegum krabbameinum. Hún hvetur til árvekni um leið og félagið aðstoðar konur að finna algeng krabbamein sem þær geta ekki fundið sjálfar og mestu máli skiptir að finna sem fyrst.

Afar mikilvægt er að tengja eins fljótt og kostur er áhættulíferni við áhættuna á að fá þá sjúkdóma sem við viljum alltaf vera laus við. Reyklaust umhverfi, góða hreyfingu, hollt mataræði og jafnvel bólusetningar eins og t.d. gegn leghálskrabbameini. Við ráðum ferðinni furðu mikið sjálf og skilaboðin hvað er hollt og gott skipa heiðurssætið í orðum okkar og athöfnum í heilsugæslunni. Reykingar ungs fólks er til að mynda skýrt dæmi um hegðun sem aldrei má láta fara forgörðum að takast á við og tengja jafnvel vægustu einkennum reykingasjúkdómsins, hóstanum, og þá miklu áhættu sem að baki býr þegar árin líða og hóstinn verður jafnvel blóðugur. Þetta heitir fyrstastigs forvörn og tengist flestum nútímasjúkdómum okkar mannanna. Jafnvel tilbúnum og ásköpuðum sjúkdómum sem villa okkur sýn í dag og við vitum ekki hvernig við eigum að höndla og þreyfa. Eins og t.d. hjá þúsundum kvenna á Íslandi með sílikonpoka í brjóstunum.

Árlega greinast hátt í áttahundruð karlar með allskonar krabbamein á Íslandi og tæplega þriðjungur deyr af þeirra völdum. Rannsóknir sýna að lækka má þessa tölu um þriðjung ef tímalega er gripið í tauminn og sem mottumarsinn sem átak er sérstaklega tileinkað. Skilaboðin verða varla skýrari. Á sama hátt og hnútur í brjósti konu skilyrðist í fingrum hennar við reglubundna og fumlausa leit í náttúrulegum brjóstum. Áminning um að vera ábyrg fyrir lífi okkar og limum, hver sem marsinn er, hvar og hvenær sem er.

Og þótt krabbameinsmeðferðir eru yfirleitt alltaf á höndum sérfræðinga á mismunandi sviðum læknisfræðinnar, ekki síst krabbameinslækna, er stuðningur heimilislækna og annars heilbrigðisstarfsfólks alltaf mikilvægur og jafnvel hluti af batanum. Eftirmeðferðin litast síðan af sterkri varnarsókn, þar sem lífstíllinn og stuðningur við krabbameinssjúklinginn eru sterkustu vopnin.

Á einstakan hátt hefur nú verið hægt að gera viðkvæmt og sjálflægt feimnismál að opinskáu umræðuefni, þar sem flestir sýna viðfanginu áhuga og skilning, ræða hispurslaust og hafa gaman af. Að safna „mottu“ er þannig merki um samstöðu, karlmennsku og að geta haft húmor fyrir sjálfum sér. Sú samstaða hefur nú aftur brotið ísinn og jafnvel feimnustu menn sjá sér færi, sem annars hefði ekki orðið, að takast á við sameiginlegann óvin. Verst að þjóðfélagið skuli hafa nú skilið brjóstapúðakonurnar eftir í vetrarhretinu og kuldanum og sem óneytanlega spillir ánægjunni af okkar sameiginlega marsi þetta árið. Því auðvitað viljum við konunum fyrst og fremst það allra besta.

Mottumarsinn er engu að síður frábærlega vel heppnuð vakning í hópi sem kallast sterkara kynið og hefur seint viljað játað sig sigrað. Nú er bara að sjá hvaða einstaklingar sigra í herferðinni í ár. Gleymum því ekki gullmolunum okkar tveimur, í okkar skjóðum karlar.

Mottumars og hlutverk heilsugæslunnar í forvörnum. Sérblað í Fréttatímanum í dag, 9.3.2012

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn