Þriðjudagur 10.07.2012 - 14:39 - FB ummæli ()

Bráðaástand í bráðaþjónustunni!

redlightAllt sl. ár hefur verið mikið rætt um álagið á heilsugæsluna og eins um hættuástand sem getur skapast á Slysa- og bráðamóttöku LSH vegna of mikils álags á starfsfólkið sem þar vinnur. Á spítala allra landsmanna þar sem skorið hefur verið niður um tæpan fjórðung á allra síðustu árum. Þökk sé íslenska fjármálakerfinu. Álagið hefur stundum verið skilgreint innanhús sem „rautt“ sem er hættuástand í starfseminni eða jafnvel „svart“ sem er glundroðastigið, og ætti helst ekki að geta orðið nema þegar alvarlegar hamfarir verða. Og þótt, sem betur fer, ekki sé hægt að rekja dauðsföll beint til niðurskurðarins og bráðveikir fá enn fyrst hjálp, sér auðvitað hver sem vill, að afleiðingarnar geta oft orðið skelfilegar fyrir þá sem þurfa á skilvirkri og góðri heilbrigðisþjónustu að halda og að óbeint megi örugglega rekja ótímabær dauðsföll til niðurskurðarins. Þar sem oft er skautað hratt á mjög hálum ís.

Mikill niðurskurður á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og léleg uppbygging heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um árabil er staðreynd. Það versta er þó að heilbrigðisyfirvöld vilja lítið kannast við vandann og kenna nú leti starfsfólks um svo og skipulagsleysis innan starfssviðanna. Að alltaf megi gera betur og heilbrigðisstarfsfólk þurfi einfaldlega bara að bretta upp ermarnar.

Ábendingar bárust strax sl. sumar frá talsmanni ungra lækna um óeðlilega mikið vinnuálag á unglækna á deildum Landsspítalans og að þeir töldu sig ekki geta sinnt sjúklingum sem skyldi. Þar sem allt að 8 klukkustunda bið getur verið eftir læknishjálp og læknar komst ekki yfir frágang mála svo vel sé og nýlega kom líka fram í góðri yfirlitsgrein um vandann hjá formanni læknafélagi Íslands, Þorbirni Jónssyni, af gefnu tilefni. Læknaráð Landspítalans ræddi einnig um fyrir ári, að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra léti gera úttekt á starfsemi spítalans, m.a. með tilliti til mönnunar og álags, en sem lítið hefur heyrst af síðan. Hins vegar var nýlega haft eftir velferðarráðherra að íslenskir læknar væru alveg nógu margir innan heilsugæslunnar og að þeir þyrftu bara að standa sig betur og deila út verkum sínum með öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Ástandið skýrist hins vegar öðru fremur af mikilli undirmönnun lækna í grunnþjónustunni, heilsugæslunni eins og yfirlæknir hennar Lúðvík Ólafsson hefur réttilega bent á af sama tilefni. Faglega séð skiptir auðvitað miklu máli hvar og hvernig heilbrigðisþjónustan er veitt, á öllum stigum hennar. Öll heilbrigðisvandamál eiga augljóslega ekki heima á bráðamóttöku háskólasjúkrahússins og að réttur fagaðili sinni hverju erindi fyrir sig, eins og menntun hans stendur til og Lúðvík benti réttilega á. Ekki með útvötnun læknisþjónustunnar eins og vissir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta ræða mikið um og að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknaritarar geti gengið í störfin af hentisemi hverju sinni (task-shifting). Eins og nú er t.d. rætt um með nýju frumvarpi velferðarráðherra og að veita eigi með nýjum lögum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum lyfjaávísanarétt á hormónalyf.

Flest erindi til heilbrigðisþjónustunnar eru sem betur fer ekki bráðaerindi og ættu fyrst og fremst heima í heilsugæslunni. Því má með sanni segja að mikið álag á vaktþjónustuna nú og margfallt meira en gerist hjá nágranþjóðunum, endurspegli rangt skipulag í heilbrigðisþjónustunni hér á höfuðborgarsvæðinu um árabil. Og að sú umræða sé þannig eins og umræðan um ofnotkun lyfja og mikið hefur verið skrifað um, aðeins toppinn á ísjakanum. Mikið álag á bráðadeildum er auðvitað í takt við mikla og vaxandi vaktþjónustu almennt á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleiri erindum var orðið sinnt á kvöldin, nóttunni og um helgar, en yfir daginn í heilsugæslunni. En það var líka vilji heilbrigðisyfirvalda í fyrra að leggja læknisþjónustu heilsugæslulækna niður á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu, þriðjapart sólarhringsins og auka þar með álagið á bráðadeildir spítalanna.

Sumir kalla Slysa- og bráðamóttökuna líka „deildina sem aldrei sefur“. Þar sem aðstæður geta samt breyst eins og hendi sé veifað í blóðugan vígvöll. Jafnvel árásir á starfsfólk með smitað blóð að vopni og hráka. Hvað er það annað en stríðsástand, ekki síst þegar starfsmennirnir þurfa síðan að hlaupa milli þeirra mest slösuðu og bráðveikustu, en líka milli þeirra sem aðeins þurftu að fá að hitta heilsugæslulækni?

Allt útlit er fyrir að ástandið bara versni á næstu árum með vaxandi skilnigsleysi heilbrigðisyfirvalda, enda eldist starfsstétt heimilislækna hratt með tilheyrandi vaxandi álagi á vaktþjónustuna og undirmannaðar spítaladeildir. Vonandi gera samt nú fleiri sér grein fyrir vandanum sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir. Ekki veitir heldur af liðsinni almennings og fjölmiðla til að hafa áhrif á stjórnmálamennina, því langan tíma getur tekið að byggja upp aftur þjónustu sem hefur verið rifin niður, heilsugæsluþjónustu sem tók marga áratugi að byggja upp og var orðinn vísir að einhverju miklu meiru.

Oft er ég spurður af hverju ég sé að útsetja mig fyrir að fara á þennan “vígvöll” sjálfviljugur og vinna á bráðamóttökunni jafnhliða störfum í heilsugæslunni og á Læknavakinni. Sennilega felst svarið fyrst og fremst í löngun að geta tekið þátt í óvæntri atburðarrás þar sem maður getur ennþá komið að einhverju gagni og uppsker jafnvel meira þakklæti en í sjálfri heilsugæslunni og hrun blasir við. Sennilega er heldur hvergi hægt að sjá spegilmynd þjóðfélagsins betur frá öllum könntum en á Slysa- og bráðamóttökunni. En það er löngu tímabært að við stöldrum öll við, lítum í baksýnispegilinn og hugsum okkar gang. Ekki síst nú þegar búið er blanda öllum heilbrigðismálunum þjóðarinnar saman á einu gólfi bráðadeildar Landsspítala háskólasjúkrahúss.

Svartur eða rauður, velferðarráðuneytið á samt greinilega næsta leik. Byrja verður að styrkja grunninn og mannauðinn. Áður en farið er að byggja meira úr steinsteypu, stáli og gleri. Bæta verður kjörin og tryggja góða mönnun í heilsugæslunni og á bráðmóttökunni, það er bráðamál. Svo halda megi í það minnsta bráðaþjónustunni áfram á grænu ljósi, á gulu í versta falli.

http://www.visir.is/nidurskurdur-farin-ad-ogna-oryggi-sjuklinga/article/2012120719182

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn