Mánudagur 16.07.2012 - 22:51 - FB ummæli ()

Afreksíþróttir og aðrar „þjóðaríþróttir“

Mikið er rætt um íþróttir alla daga sem er vel, enda vekja þær upp hvata til meiri hreyfingar og minna á hvað mannlegur líkami getur áorkað og hvar við getum sótt þróttinn. Líka áminning um óskina að fögur sál fylgi hraustum líkama og að maður er oftast manns gaman í leik. Ekki þarf heldur að efast um hvatninguna sem íþróttir vekja í brjóstum yngstu kynslóðarinnar. Auðvitað fyllist landinn síðan þjóðarstolti þegar íslenskir afreksmenn vinna til verðlauna úti í hinum stóra heimi. Væntingar sem við gerum m.a. til Ólympíufaranna okkar. Til að gera garðinn frægan eða bara til að vera með í samfélagi þjóðanna.

En eru sjálfar afreksíþróttir hollar fyrir þjóðina? Eru þær kannski fyrst og fremst ætlaðar til skemmtunar fyrir þá sem horfa á eða eru þær sprottnar upp af falskri ímynd afreksmannsins og óraunhæfum væntingingum? Hvar liggja síðan mörk þess mannlega og ofurmannlega og hvenær tekur eitthvað annað allt annað við í stað hins sanna íþróttaanda?

Annie kemur ekki til greina sem íþróttakona ársinsÞað þekkja samt allir þá góðu tilfinningu að geta verið góður í einhverju og skarað fram úr. Að vera hrósað sem okkur Íslendingum er ótamt að gera og jafnvel vinna til verðlauna. Ekki skal heldur neitað að gaman var að vera í stól neytandans í sófanum heima og horfa á knattspyrnuleikina á EM í sumar. Dást að leikni og elju einstakra leikmanna og njóta þess að fá að vera með, á allt annan hátt. Í dag eru enda mestu afreksmenn íþróttanna meira sjónvarpshetjur en nokkuð annað, í hörkuvinnu á ofurlaunum. Hetjurnar sem eru sprelllifandi í háskerpulitum inni á stofugólfinu okkar í stað svört hvítu taflmannanna á stofuborðinu forðum. Jafnvel þegar við sitjum sem límd yfir ofbeldinu sem birtist oft í kappleikjunum, en viðurkennum síðan ekki að hraustasta kona heims uppfylli leikreglurnar að vera kölluð íþróttkona landsins.

Nú vill svo til að einkalíf íþróttahetjanna er mjög vinsælt fréttaefni fjölmiðla. Það fylgir því að vera átrúnaðargoð, í íþróttunum eins og í skemmtanaiðnaðinum. Í sjálfu sér eru fréttirnar auðvitað ekkert merkilegar, nema af því að um afreksíþróttafólk er að ræða sem er yngstu kynslóðinni svo mikil fyrirmynd. Glansmyndinni af ofurhetjunni er sannarlega haldið á lofti af íþróttahreyfingunni sjálfri til að trekkja áhugann og allskonar fyrirtæki fá að nýta sér. Allt er undir, auglýsingatekjur sem og útsendingatekjur. Leikmenn gagna síðan jafnvel kaupum og sölum og ýmsikonar hneygslismál koma upp daglega tengt mútum og veðmálum. Fæðubótarefni og orkudrykkir eru á boðstólnum til að auka ágóða margra enn frekar. Á meðan sitjum við flest og sogum í okkur sannleikann um íþróttaandann, eins og hann birtist á skjánum.

Til að einhver geti orði afreksíþróttamaður í dag að þá þarf viðkomandi að leggja á sig ofuræfingar, jafnvel mörgum sinnum á dag alla daga vikunnar, helst frá unga aldri til fullorðinsára. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Engum dylst heldur að erfðir og líkamlegt atgervi í æsku ræður miklu um lokaárangurinn. Áður hef ég fjallað um hættuna sem fellst í ofþjálfun og hvað einkenni ofþjálfunar er algeng ástæða komu til lækna í dag. Jafnvel börn sem rétt eru byrjuð í grunnskóla og sem komin eru með vöðvabólgueinkenni og álagseinkenni við liðamót. Síðar svefntruflanir unglinga, óeðlilega megrun og ofþreytu, ekki síst hjá ungum stúlkum. Vannæring og lystarstol eru síðan meðal alvarlegustu sjúkdómseinkennanna og sem vísa þarf til sjúkrahúsmeðferðar.

Margir þjálfarar eru þannig allt of kappsamir og keyra á æfingarnar í þeim eina tilgangi að einhver í hópnum nái að skara fram úr. Foreldrar margir hverjir, eru heldur ekki á varðbergi. Alsæl að börnin séu ekki í neinum vafasömum félagsskap eða föst við tölvuna og fórnarlömb tölvufíknar. Að þau nái jafnvel að uppfylla drauma sem þeir sjálfir gátu aldrei látið rætast.

Oft eimir þá lítið eftir af gömlu ímyndinni og hugsjónamarkmiðum íþróttanna frá tímum ungmennahreyfingarinnar í gamla daga. Að stuðla fyrst og fremst að almennu heilbrigði og íþróttum fyrir alla, ánægjunnar vegna. Aldrei hefur samt verið lögð meiri áhersla á mikilvægi hreyfingar fyrir alla í almennri heilsugæslu. Til að verjast sjúkdómum eða síðar jafnvel sem hluta meðferðar frekar en lyf. En þátttaka almennings í íþróttahreyfingunni þarf að vera á réttum forsendum, lítil hreyfing eða mikil, íþróttir fyrir smáa sem stóra, unga sem aldna.

Tími er til kominn að láta af þeirri ímynd íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaga sem byggir fyrst og fremst á afreksíþróttum, gróða fárra, en fórnum allt of margra. Að íþróttirnar séu fyrir alla, sem hluti af heilbrigðum lífstíl og hvating til daglegrar hreyfingar. Að allir geti verið með sem hafa gaman af keppni og leik og við hin fáum að njóta og fylgjast með. Að einstaklingar fái að finna sig í hópum, ekki síst börn og unglingar sem samt oft hrökklast frá í dag. Að því að þau eru ekki nógu „góð“. Jafnvel sem hafa orðið fyrir einelti áður en leiknum líkur. Þegar sífellt sé verið að fleyta rjómann ofan af og hygla aðeins þeim bestu. Í stað þess að leggja meiri áhersluna á að tryggja fyrst og fremst liðsandann og reyna að fá alla að vera með sem lengst. Að laga bilið þarna á milli er mesta áskorunin til íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaganna í dag. Þetta á við flestar íþróttagreinar sem vinsælastar eru hér á landi, og tilfellin eru ófá sem foreldrar nefna síðar við lækninn sinn þegar vanlíðan barnsins er til umræðu.

Lífið sjálft sé ákveðin keppni og þar sem aðeins fáir vinna til verðlauna. Fyrir hina getur lífið engu að síður verið frábært og oft í raun miklu betra en á stormasömum toppnum. Félags- og heilbrigðisvitund þjóðarinnar að allir fái sem jöfnustu möguleikana á að fá að njóta sín í þjóðlífinu. Dr. Seiichiro Yonekura, forstöðumaður í nýsköpunarfræðum við háskóla í Japan sagði í viðtali hér á landi fyrir tveimur árum, að ein ástæða þess að hér þokaðist lítið í jákvæða átt hvað efnahagsmálin varðaði, væri að alþingismenn og aðrir sem stjórnuðu landinu væru oft með of litla sérfræðiþekkingu. Að baki þeim stæðu hins vegar sérhagsmunahópar, hver með sínar þarfir og sem toguðu hver í sína áttina. Það skilaði sér í því að þjóðin gekk ekki í takt. Í austurlöndum sé það liðsheildin, þekkingin og samstaðan sem mestu máli skiptir og sem skapar mestu framfarirnar. Sama má auðvitað segja um ýms önnur þjóðfélagsmál á Íslandi í dag, ekki síst heilbrigðismálin þar sem hver höndin er upp á móti annarri þessa daganna.

Öllu máli skiptir þannig að fá að  vera með og að allir fái ækifæri að vinna í hópum sem liðsheild. Ekki að aðeins að þeir „bestu“ dragi vagninn, hver og einn í sína átt með sín eigin markmið. Auðvitað má líka eitthvað á milli vera og að þeir „góðu“ fái að njóta sín. En það á að vera á eigin fornsendum og krafti en ekki vegna utanaðkomandi þrýstings, foreldra, skóla, þjálfara, íþróttafélaganna, fyrirtækjanna, fjölmiðla eða sérhagsmunahópa. Við erum í sama liðinu þegar upp er staðið. Gerum öll gagn, en erum með ólíkar þarfir og hæfileika. Þetta hefðum við átt að vera búin að læra sl. ár og að kapp er best með forsjá. Þeir sem fóru mestan í fjármálaheiminum og urðu jafnvel frægir með eindæmum, hafa nú týnst heim og sitja margir hverjir í dag með sárt ennið, skemmdir á sál og líkama og jafnvel búnir „að spila allt úr vösunum“. Þeim líður þannig ekki alltaf best sem ná toppnum og alger óþarfi er að reyna að telja okkur trú um að svo sé. Það gildir jafnt í íþróttunum sem og í pólitíkinni, reyndar í samfélaginu öllu.

Ímynd hjólreiðaíþróttarinnar er í molum. Stórstjarnan Lance Armstrong var stútfull af ólöglegum lyfjum á hátindi ferilsins. Umfjöllun í Fréttablaðinu 27.10.2012

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/04/24/graeni-karlinn-snyr-aftur/

Kraftakonan sem ætlar að verða læknir, viðtal við Anníe Mist, Fréttatíminn 20-22. júlí

http://www.ruv.is/frett/haett-komin-vegna-ofthjalfunar

http://ruv.is/frett/hreyfingarleysi-drepur-milljonir

http://www.bbc.co.uk/news/uk-wales-politics-18876880

http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP12677

http://www.dv.is/skrytid/2012/8/6/phelps-eg-held-ad-allir-pissi-i-sundlaugina/

Of mikil spenna og íþróttir, viðtal Í bítinu 9.8.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn