Laugardagur 21.07.2012 - 18:58 - FB ummæli ()

Gömul sannindi eða ný um tóbakið?

Tóbaksreykingar er ein mesta heilbrigðisvá samtímans og sem veldur hvað flestum ótímabærum dauðsföllum í hinum vestræna heimi. Lungnakrabbamein og æðasjúkdómar eru þar efst á blaði en sem níkótínið eitt og sér er saklaust af að valda. Allur reykurinn og tjaran sem berst ofan í lungun og síðan um líkamann er megin skaðvaldurinn.

Munntóbak (snus) sem framleitt er eftir ströngum reglum t.d. í Svíþjóð inniheldur minnst af hættulegustu efnum sem finnast í tóbaksreyknum og er auk þess talið geta dregið talsvert úr löngun í tóbaksreykingar. Munntóbakið sjálft er talið vera yfir 90% skaðminna fyrir hina líkamlega heilsu en tóbaksreykurinn. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa því leyft framleiðslu og sölu á munntóbaki og sóttst eftir leyfi fyrir útflutningi á því til annarra EB landa með þeim rökum að neysla munntóbaks dragi úr tóbaksreykingum. Öll fíkn er hins vegar varasöm. Margir telja þannig munntóbakið meira ávanabindandi og valda meiri fíkn hjá ungu fólki en tóbaksreykingarnar og því hugsanlega varasamara til lengri tíma litið.

Hreinunnið munntóbak eins og snusið, er þó a.m.k. mikið „hreinni“ tóbaksvara en neftóbakið sem mest er notað sem munntóbak í vör hjá ungu fólki hér á landi. Íslensk tóbaksvara sem líklegri er að geta valdið sárum og jafnvel krabbameini í munni en snus. Það er þannig allt sem sýnist í þessum efnum enda heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum hálf ráðvillt og ósammála hvað gera skuli í tóbaksvarnamálum yfirhöfuð.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), seldi rúm 30 tonn af neftóbaki í fyrra og hefur salan hér á landi þrefaldast á aðeins 10 árum, á sama tíma og dregið hefur aðeins lítillega úr sölu á tóbaki til reykinga. Uggvænlegri eru þó upplýsingar um að um tuttugu prósent ungra karla, 16 -23 ára, neyti neftóbaks í munn reglulega. Sem er aðallega íslenskur fínkornóttur tóbaks“ruddi“ sem neytt er í óstöðluðu skammtamagni, ólíkt „neytendavænum“ og stöðluðum skömmtum munntóbaks (snus). Bara á síðasta ári hefur salan á neftóbakinu aukist um tæplega fjórðung og fréttir berast af jafnvel af íþróttafólki sem neyta „neftóbaks“ í munn á íþróttakappleikjum. Nýlegar upplýsingar eru líka um að neftóbaksneyslan hér á landi sem er nær eingöngu meðal ungra karla, hefur ekki dregið úr tíðni reykinga umfram stúlkna og virðist því sem um hreina viðbót á neyslu tóbaksefna að ræða, ólíkt því sem hefur sýnt sig hjá vinum okkar Svíum þar sem tóbaksreykingar eru miklu minni. Þess ber þó að geta að neysla „neftóbaks í munn“ hér á landi er engan vegin samanburðarhæf við mikla munntóbaksnotkun (snus) Svía og því verður að gera ráð fyrir að þróunin yrði svipuð hér álandi með tímanum.

Meginregla íslenskra tóbaksvarnarlaga er að banna innflutning og sölu á nef- og munntóbaki, en neftóbak hefur engu að síður verið framleitt á Íslandi lengi á undanþágu. Sama er að segja með nýja íslenska „neftóbakið“ Lundann sem kom á markað sl. haust og er innflutt frá Danmörku en markaðsett til notkunar sem munntóbak fyrst og fremst. ÁTVR hefur nýverið ákveðið að hætta innflutningi á Lundanum og taka ekki inn neinar nýjar tegundir á nef- og munntóbaki til sölu, meðan úr því verður skorið hvort selja megi Lundann sem munntóbak. Óskað hefur verið eftir afstöðu velferðarráðuneytsisins til málsins og endurmati á reglum um sölu á munn nef- og munntóbaki yfirhöfuð. Í frétt á heimasíðu ÁTVR segir að verði lagaumhverfið óbreytt blasi við að neftóbakstegundum og þar með munntóbakstegundum muni fjölga talsvert á næstunni.

Jóhanna S. Kristjánsdóttur, verkefnisstjóra hjá Ráðgjöf um reykbindindi skrifaði hins vegar athyglisverða grein í Fréttablaðið síðastliðinn vetur undir heitinu, Er í tísku að nota munntóbak?  Greinin fjallaði um skaðsemi munn- og neftóbaksins sem greinarhöfundur taldi að sumu leiti skaðsamara en sígaretturnar. Eitur sem hún taldi töluvert sterkara sem fíkniefni en tóbakið sem reykt væri og það sem er alvarlegra, oftar undanfari að neyslu sterkari vímuefna. Vil hér vitna í hluta greinarinnar varðandi eituráhrif nef -og munntóbaks:

„Munntóbak (hér er þó sennileg fyrst og fremst átt við neftóbak, notað sem munntóbak) er sambland af tjöru og nikótíni, sem telja um 2.500 efni og eru a.m.k. 28 þeirra þekktir krabbameinsvaldar. Munntóbak er mjög sterkt í samanburði við sígarettuna, þ.e. sum eiturefnin eru í hærra hlutfalli í munntóbakinu heldur en í sígarettunni. Nikótínmagn getur verið allt að fjórfalt meira í munntóbaki heldur en í sígarettu. Nikótín er ávanabindandi efni og veldur mikilli fíkn. Samkvæmt nýlegri rannsókn er nikótínfíknin sterkari en hass- og heróínfíknin. Þeir sem byrja að nota tóbak í vör verða mjög fljótt háðir því vegna mikils magns nikótíns í tóbakinu.

Þetta eru ansi stór og alvarleg orð um lausasölu á tóbaksvöru á Íslandi, framleitt og selt af sjálfu ríkinu. Af þessum orðum má ætla að jafnvel hættulegri efni séu að koma á markað í stað hefðbundins reykingatóbaks, sem þó mikið meira er vitað hvaða líkamlegum skaða getur valdið og margar rannsóknir liggja á bak við. Hins vegar þarf að hafa í huga í umræðunni til að gæta sannmælis að framleiðsla á munntóbaki er mjög misjöfn eftir framleiðendum og neyslupakkningar mismunandi. Hreinlæti og einangrun annarra skaðlegra efna úr tóbakinu, annarra en níkótíns sjálfs sömuleiðis eins og í sænska snusinu.

Á myndinni til hliðar má sjá að tóbak (níkótin) er almennt sterkara ávanabindandi efni en alkóhól, valíum og jafnvel rítalín, þótt sjálf vímuáhrifin séu auðvitað minni. Fíknin auk sefjandi áhrifa er hins vegar sem mestu máli skiptir í umræðunni um neyslu munntóbaks í dag og sem ber mest að varast, til að forðast áhættu á neyslu annarra sterkari vímuefna í framhaldinu. Jafnvel sem hreina viðbót við tóbaksreykingar sem fyrir er. Ekki síst meðal unga fólksins sem leitar oft líka í önnur aðgengileg vímuefni sem eru á markaðnum hverju sinni og oft hefur verið í fréttum, jafnvel tengt neyslu sterkari kannabisefna en þekkjast erlendis og sem sem framleidd eru hér á landi.

Neysla maríjúana hefur færast mikið í vöxt síðastliðin misseri og jafnvel dæmi um að fleiri hafi prófað maríjúana en tóbak í framhaldsskólum landsins. Framboðið jókst eftir hrun, þar sem hægt er að rækta maríjúana án mikils kostnaðar innanlands, jafnvel í heimahúsum. Spurningar vakna nú hvort munntóbaksnotendur séu ekki ólíklegri til að neyta kannabisefna en tóbaksreykningarfólk. Líklegra er hins vegar að þeir sem neyti kannabisefna leiti til sterkari vímuefnanna, jafnvel rítalíns og skyldra metýlfenídat-lyfja ef framboðið er til staðar á sama markaði og sem einnig var mikið í fréttum sl. vetur. Það segir auðvitað sína sögu að upp undir helmingur sjúklinga sem leitað hafa á Vog hafa misnotað rítalín og skyld lyf, flestir í upphafi eftir aðeins stutta kannabisneyslu.

Síðastliðið haust heyrði ég viðtal við Þórólf Þórlindsson, prófessor í félagsfræði á RÁS 2. Þar fjallaði hann m.a. um félagslegar ástæður fyrir neyslu fíkniefna unglinga og að ekki væri nóg að sinna fræðslu sem forvörn, heldur þyrfti að styrkja fyrst og fremst félagsleg úrræði þeirra, tómstundir og íþróttastarf. Málin snúast líka oft í höndunum á okkur og stundum fögnum við of fljótt árangri, sofnum síðan á verðinum og missum jafnvel af heildarmyndinni. Þannig er of snemmt að fagna áfangasigri nú í minnkuðum tóbaksreykingum ungs fólks, ef neysla annarra hættumeiri fíkniefna eykst í staðinn, jafnvel neysla á harðari fíkniefnum. Munntóbakið getur þannig orðið meiri hvati í þeirri þróun en gamla reyktóbakið. Sem er þá eins og úlfur í sauðagæru og jafnvel sem olía á eld, á mesta samfélagsvandamál unga fólksins.

Öflugar forvarnir, fræðsla um skaðsemi tóbaksreykinga og annarra vímuefna ásamt eflingu á félagslegum úrræðum barna- og unglinga er vænlegri til árangurs en beinhörð boð og bönn. Sem erfitt er að halda og gilda jafnvel ekki alltaf jafnt fyrir alla, unga sem aldna. Það er þannig t.d. erfitt að sjá skynsemina í því að leyfa sölu á gamla íslenska neftóbaksruddanum sem notaður er í vör í ómælum skömmtum á sama tíma og hættuminni neytendavænni pakkningar á erlendu munntóbaki eru bannaðar. Áreiðandi er þó nú að meta hvort frjáls sala á munntóbaki hér á landi sé líkleg til að draga úr tóbaksreykingum umtalsvert, en sumt bendir til að svo sé ekki. Heilbrigðisyfirvöld í sumum löndum telja svarið vera augljóst og að góð reynsla sé þegar af frjálsri sölu munntóbaks sem dragi úr tóbaksreykingum, m.a. hjá stóra bróður okkar í Svíþjóð htttp://www.cbsnews.com/video/watch/?id=6362540n.

Stóra spurningin sem heilbrigðisyfirvöld verða nú að svara er hvort hægt væri að réttlæta sölu á munntóbaki til að minnka tóbaksreykingar eða hvort við viljum treysta meira á boð og bönn og banna allan innflutning á tóbaki sem svo sannarlega er óholl neysluvara, hvernig sem á hana er litið? En ef slakað verður á ríkisklónni og innflutningur á munntóbaki (snus) leyfður, misnotum við þá ekki bara frelsið og bætum neyslunni ofan á aðra óhollustu? Gömul sannindi og ný.

 http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/03/25/serfraedingur-segir-munntobak-geta-bjargad-mannslifum-stjornvold-fari-ad-segja-sannleikann/

http://visir.is/bann-a-munntobaki-leidir-ekki-til-aukinna-reykinga/article/2012120719009

http://www.visir.is/arlega-greinast-18-med-krabbamein-i-munnholi-og-vor/article/2011111019551

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn