Föstudagur 03.08.2012 - 01:53 - FB ummæli ()

Í báðar áttir undir sumarsól

Oft þegar ég geng meðfram Vesturlandsveginum á fögrum sumardögum um helgar, verður mér hugsað um ferðafólkið á vegum landsins og umferðaröryggisins. Framhjá þjóta óteljandi bílar af öllum stærðum á skömmum tíma. Í mörgum bílanna er bara einn ökumaður en í öðrum heilu fjölskyldurnar sem eru á ferð á vit ævintýranna í fagurri íslenskri náttúru. Líka rútur fullar af erlendu eða innlendu ferðafólki og svo þungaflutningabílar með langa tengivagna. Stundum í röðum svo minnir á járnbrautalestar erlendis. Sumir eru síðan jafnvel með heilu hýbýlin aftaníhangandi og sem eru margfalt stærri en bílarnir sjálfir og breiðari.

Sumir ökumenn eru að flýta sér meira en aðrir, eru jafnvel þreyttir og syfjaðir en keyra engu að síður hratt miðað við aðstæður og umferðina á móti. Þar sem ekkert skilur á milli annað en þunnur loftveggur. Hvinurinn frá bílunum er mikill, sérstaklega þegar stórir bílar mætast en sem síðan rennur saman í eina nútímasímfóníu eða skulum við segja óþægilegan hljómfoss með tilbrigðum af járni, stáli og orku sem ásamt gúmíinu eitt getur skapað. Á vegspottanum þetta korter sem ég geng áður en ég vík frá út í hina einu sönnu náttúru og kyrrð. Sennilega nokkuð hundruð manns á faralds“fæti“ án þess að vita nokkuð hvert af öðru. Flestir í bílunum eru örugglega að hugsa sitt eða eru að tala saman. Misalvarlega hluti eins og gengur og sem mig varðar auðvitað ekkert um. Samt finnst mér sem utanaðkomandi, og sem ég er í þessu tilviki, að mér komi öryggi náungans við. Eins og reyndar alls staðar annars staðar í samfélaginu. Bilið á milli bílanna okkar er heldur oft ekki langt og við horfum jafnvel í augu þess sem á móti kemur. Öðruvísi samskipti okkar á milli og sem tilheyrir aðeins umferðinni okkar.

Við erum, held ég, öll með svipaðar þarfir og hugsum í raun ótrúlega svipað. Aðeins mismunandi eftir stað og stund hverju sinni. Um fjölskylduna, vinnuna og áhugamálin. Allt þarf að tvinnast saman svo lífsgatan verði greið. Hún er samt mishröð ferðin og vegurinn misgrýttur. Slys geta orðið líka á á þeirri leið. Náttúran er sem betur fer oftast á sínum stað lítið breytt, Furðu nálægt okkur svo við ættum að geta leitað til hennar auðveldlega. Til að fá frið og ró. Sálarró og hvíld sem nútímamanninum vantar sennilega mest af öllu í hinum vestræna heimi. Þar sem hraðinn og stressið er alltaf að aukast, líka í umferðinni. Friður og hamingja er þannig stundum aðeins eins og hillingar, ekki síst fyrir þá sem fara sér allt of hratt í lífinu.

Sumir eru þolendur meðan aðrir eru gerendur í umferðarslysunum. Oft enn eitt formið af ofbeldi sem við beitum hvort annað, en sem skráð eru sem umferðarslys. Fórnarlömb umferðaslysanna eru síðan hundruðir, fullorðnir jafnt sem börn. Margir slasast alvarlega og örkumlast á einn eða annan hátt. Á einu augabragði breytast aðstæður þúsunda manna og sem síðan eiga um sárt að binda. Fjölskyldur, nánir vinir og samstarfsfélagar þekkja þessa sögu vel og enginn veit hver verður næsta fórnarlamb. En það eru margir sem geta lágmarkað þessa tölu vegna slysa af hugsunarleysi, glannaskap eða jafnvel áfengis- og vímuefnaneyslu undir stýri.

Nú er stærsta ferðamannahelgin gengin í garð. Þar sem oft hvít lína skilur á milli lífs og dauða ef óvarlega er farið. Framúrakstur er hættulegasti hlutinn í öllum akstri, á oft þröngum íslenskum þjóðvegum. Þar sem akreinarnar eru aðeins tvær, ein í sitthvora áttina og aðstæður oft ekki góðar. Þar sem hraðinn er oft mikill miðað við aðstæður og höggið sem kemur, ef að árekstri verður, margfaldast með hraða bifreiðanna. Að lenda þannig í árekstri við jafnþungan bíl sem kemur beint á móti á sama hraða, jafgildir árekstri á steinvegg á helmingi meiri hraða, eða á allt að 180 km/klst. Á hinum sameiginlega vegi okkar allra.

Sjá aðra umfjöllun:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/08/04/their-sem-aka-of-haegt-og-mynda-bidrod-ekki-sidur-haettulegir-en-their-sem-aka-of-hratt/

http://www.dv.is/frettir/2012/8/5/enn-morg-daudaslys/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn