Fimmtudagur 23.08.2012 - 22:08 - FB ummæli ()

Húð, flúr, fár og skömm

Sjö ásæður fyrir því að fá sér ekki tattooÍ dag er í tísku að ungt fólk fá sér húðflúr (tattoo), og reyndar alveg upp fyrir miðjan aldur. Heilu handleggirnir eru húðflúraðir í öllum regnbogans litum og munstrum. Jafnvel heilu bökin og bringurnar ásamt flestum öðrum viðkvæmari líkamspörtum. Mikil aukning hefur orðið í að fólk fái sér húðflúr hér á landi á síðustu árum, eins og reyndar annars staðar í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum hefur aukningin verið gífurleg, eða úr 14% 2008, í 21% á þessu ári og sem nálgast þá að fjórði hver fullorðinn sé kominn með húðflúr.

Segja má að húðflúrið sé þannig orðið einhverskonar tákn okkar samtíma, sjálfsdýrkunar og ímyndaðs frelsis. Á sama tíma er mikið fjallað um, ekki síst af sama fólki, um hætturnar sem okkur stafar af mengun hverskonar í okkar nánasta umhverfi. Kemískum efnum, þungmálmum og litarefnum. Ekkert síður höfum við flest áhyggjur af loftmenguninni svo sem díoxinmengun, auk mengun PFC efna í matvælum og höfunum og sem ég hef áður fjallað nokkuð ítarlega um. Á sama tíma og tugprósent af yfirborði líkamans er húðflúrað með allskonar litarefnum sem við vitum lítið hvað innihalda og sem standast ekki neinar heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til íhluta, í okkur og á. Eins og t.d. fyrir lyf, hjúkrunarvörur eða aðrar lækningavörur.

Í vetur var okkur reyndar líka tíðrætt um annarskonar aðskotaefni sem tengjast íhlutum í brjóst kvenna og jafnvel undir húð sumra karla. Brjóstaimplöntin svokölluðu sem innihéldu að því er haldið var saklaust iðnaðarsílikon. Eins önnur lögleg implönt sem endast tugfalt skemur en áður var talið og þar sem skelin smá saman hverfur á nokkrum árum og enginn veit hvað verður um í líkama kvennanna. Sem svo Sýking, út frá húðflúri Úr NEJM greininnisannarlega er ekki að fullu vitað hvaða varanlegar afleiðingar hefur, enda hverfur ekkert sporlaust í líkamanum. Til að kóróna allt, sýna síðan nýjar kannanir nú að yfir helmingur fullorðins fólks skammast sín fyrir gamla tattooið og óskar þess heitast að hafa aldrei látið flúrað sig og fúlað á sínum tíma. Sem allt kostaði auk þess mikla peninga og ekki síður ef á að laga eftir á.

Lengi hafa læknar varað við húðflúrinu af heilsufarsástæðum. Eins þar sem erfitt eða ómögulegt getur verið að fjarlægja eða lagfæra illa farin listaverkin síðar og þegar angistin nagar inn að beini. Einnig þar sem oft virðist líka vakna ákveðin fíkn hjá viðkomandi að halda áfram og bæta við fleiri og fleiri myndum. Jafnvel yfir meiripart líkamans sem þá er orðinn oft eins og eitt stórt misheppnað listasafn. Enginn segir þó fullum fetum að „listaverkin“ séu ekki oftast vel unnin í byrjun, myndirnar jafnvel stundum skoplegar og sem fá mann til að brosa. Auk þess tengjast myndirnar og textinn tilfinningum þeirra sem myndirnar bera, en sem síðan breytast með tímanum. Óhreinindin við húðflúrsaðgerðina sjálfa og hugsanlegt smit með nálum er þó það sem flestir hafa mestar áhyggjur af. Eins ákveðnum litum sem vitað er að geta verið skaðlegri en aðrir og innihalda meira blý og jafnvel kopar (rauði liturinn) og ýmiss hugsanleg krabbameinsvaldandi efni (t.d. polycyclic aromatic hydrocarbons (PAHs).

2011-0906tattooinkssfcÍ grein sem birtist í  hinu virta læknatímariti NEJM í gær og unnin var af bandaríska landlæknisembættinu (CDC), eru rakin tugir smittilfella vegna húðflúrs í New York og þar sem sýking varð í húð með gráu litarefni sem notað var til húðflúrsins. Bakterían Mycobacterium chelonae sem er skyld berklabakteríunni gömlu er talin orsökin og olli ljótum þrálátum sýkingum í húð sem gekk illa að meðhöndla (sjá mynd að ofan) með sýklalyfjum, auk hættu á útbreiddari sýkingu um allan líkamann. Ósótthreinsað vatn sem notað er til að þynna litina er helst kennt um, en sýkingarnar mátti alls rekja til a.m.k. 4 framleiðenda. Ákveðin fylki haf því nú sett fram kröfu um, að aðeins megi nota sterilt vatn til þynningar á litunum við framleiðsluna. Auk þess skoðar nú bandaríska landlæknisembættið og lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA), hvort ekki ætti að auka kröfurnar um innflutning og framleiðslu litarefna til húðflúrsnotkunar og sem hingað til hafa aðeins fallið undir regluverk um snyrtivörur. Sannarlega tilefni til að vera einnig mikið betur á varðbergi hér á landi, og að gerðar verði meiri hreinlætiskröfur um efnin sem notuð eru í dag. Eins og með önnur efni og lyf sem eru okkur ætluð, í okkur og á, og efni sem þekja geta jafnvel meiripartinn af okkur í framtíðinni ef áfram heldur sem horfir.

7 góðar ástæður til að fá sér ekki húðflúr

http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa1205114?query=TOC

http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMp1206063?query=TOC

http://health.usnews.com/health-news/family-health/articles/2008/07/25/the-dangerous-art-of-the-tattoo

http://www.dailymail.co.uk/health/article-2032696/Now-tattoos-cancer-U-S-regulator-probes-fears-inks-contain-carcinogenic-chemicals.html

http://www.environmentalhealthnews.org/ehs/news/2011/tattoo-inks-face-scrutiny

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn