Mánudagur 27.08.2012 - 13:15 - FB ummæli ()

Hvíta efnið sem drepur

Mikið er rætt um offitu þessa daganna. Ofþyngd og offita í vestrænum ríkjum er mest vegna ofneyslu á sykri. Þar sem umframinntaka á brennsluefni leiðir til fitusöfnunar að lokum og til sykursýki. Sennilega er samt ekkert efni jafn algengt að valda ótímabærum dauða að lokum og sykurinn gerir í dag. Sé hans neytt í of miklu magni, í of langan tíma eins og oft vill verða. Helsta orsök heilbrigðisgrýlu 21 aldar.

Mikil neysla sykurs veldur oft líka ákveðinni fíkn, í stöðugt meiri sykur og meira en líkaminn ræður við með góðu móti, ekkert ósvipað og önnur fíkniefni gera og þegar um ásókn í vímu er um að ræða. Að lokum gefur brisið sig, vöntun verður á insúlíni sem stjórna á magni sykurs í blóðinu og líkaminn verður auk þess ónæmari gegn áhrifum þess. En samt sjáum við aðeins toppinn á ísjakanum í dag, enda eru tífalt fleiri taldir vera með byrjunarstig sykursýki en sem vitað er um í dag.

Mestar áhyggjur ber auðvitað af hafa af hratt vaxandi ofþyngd barna og unglinga, sem að mestu leiti tengist aukinni neyslu sykraðra drykkja í dag, auk þess sem drykkjan leiðir einnig til meiri neyslu sælgætis og aukabita með, yfir daginn og langt fram á kvöld. Alls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar allt að 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir einstaklingar neyta auðvitað minna sykurs, en aðrir miklu meira.

Í hverjum 500 ml. Coca Cola gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar 27 sykurmolum eða  54 grömmum af hreinum sykri. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki allt að 2 lítra á dag, sem samsvarar neyslu á 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanföru. Sem er mikið meira magn en ráðlagt er að hámarki, dreift yfir heilan sólarhring (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða.

Í Bandaríkjunum stefnir helmingur þjóðarinnar í að verða of þungur og fjórðungur allt of  feitur (Þyngdarstuðull > 30) á næstu árum. Tuttugu og fimm prósent 65 ára og eldri eru þegar komnir með annars konar sykursýki, sem er hár blóðsykur (diabetes mellitus) og líkaminn er hættur að ráða við þann sykur sem neytt er. Sjúkdómur sem síðan veldur öðrum orsökum frekar, alvarlegustu sjúkdómum samtímans. Má þar nefna hjarta- og æðasjúkdóma, nýrnabilun, heilablóðföll, blindu og lífshættulegar sýkingar. Við Íslendingar virðumst næst í röðinni, en samkvæmt nýjustu upplýsingum eru um 60% fullorðinna þegar of þungir og um þriðjungur barna.

Einn sykraður gosdrykkur á dag eykur hættu á að fá hjartaáfall um 20% samkvæmt nýlegri rannsókn sem birtist Circulation, tímariti bandarísku hjartasamtakanna, AHA og nær til yfir 40.000 karla sem fylgt var eftir í yfir 20 ár. Áhættan mælist þegar tekið hefur verið tillit til annarra þekktra áættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og sykursýki. Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk (36 gr.) er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin er bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun sem leitt getur til dauða.

Mestar áhyggjurnar ber auðvitað að hafa af yngsta fólkinu og sem erfa á landið, sérstaklega ef við lítum á hraða þróun þyngdaraukningar í þeim aldurshópi og sem er í takt við mikið aukna sykurneyslu hér á landi. „Næringarefni“ sem var sjaldséð hér áður fyrr og gegnir engu mikilvægu hlutverki í fæðu mannsins og sem fer beint út í blóðið. Ólíkt því sem annars góður kolvetnisríkur matur gerir og sem er mikilvægur í fæðusamsetningunni. Það hlýtur að vera á ábyrgð foreldra og forráðamanna að takmarka neyslu sykurs meðal barna, og sem getur leitt til sykurs- og matarfíknar síðar auk ýmissa alvarlegra sjúkdóma. Þegar ungt fólk fær sjúkdóma gamla fólksins. Mestu munar um óhóflega neyslu sykraðra gosdrykkja í dag.

Ungur nemur, gamall temur og það gera börnin sem fyrir þeim er haft, segir í gömlum málsháttum. Og jafnvel þótt börn séu ekki of þung í dag, að þá kann mikil sykurneysla að leiða til óhóflegrar þyngdaraukningar síðar. Sykurneysla dregur auk þess úr löngun í holla fæðu. Eins er það staðreynd, og mikið hefur verið til umræðu, að sýrustig flestra gosdrykkja er fyrir neðan allt, allt nema helst blásýrunnar og étur glerung tanna auðveldlega. Sykurinn fóðrar síðan tannsýklana ágætlega.

Risastórar neytendapakkningar, 2 lítra gosflöskur, jafnvel í kippum, leiða auðvitað til meiri neyslu. Ósanngjarnt er í þessari umræðu að sleppa alfarið að minnast á mikið sykurmagn í mjólkurafurðum okkar, sem innihalda sykur sem er allt að 15% af þyngd vörunnar. Það er annars merkilegt að markaðurinn skuli alltaf fá að ráða öllu, jafnvel þegar í óefni er komið. Nema ef sett eru ný lög og nýir skattar. Önnur lönd hafa reyndar hækkað sykurskatta og sett lög um hámarksstærðir á gosflöskum. Aðgerðir sem er viðleitni yfirvalda í hverju landi að mæta vandanum og sem er ekki síður þörf að gera hér á landi. Þannig hafa líka flest lönd nú sett viðvörunarmerki á tóbaksvörur og sem benda á að tóbakið getur drepið. Sama á við með mikla sykurneyslu til lengdar og sem er ávanabindandi.

Er ekki kominn tími til að íslensk yfirvöld bregðist við þeim alvarlega heilbrigðisvanda sem mikil ofneysla sykurs stefnir þjóðfélaginu í? Almenningur á Íslandi í dag ræður greinilega ekki frekar við þennan vanda en ýmsan annan. Ekkert fyrirbyggjanlegt og jafn alvarlegt heilbrigðisvandamál er jafn brýnt að leysa sem fyrst. Matarfíkn, sem er annað vandamál og nátengt, verður líka miklu viðráðanlegra ef sykurinn kyndir ekki stöðugt undir þá fíkn líka. Það er ekki nóg að fara í ræktina og hamast og láta sem ekkert hafi gerst, þótt öll hreyfing sé auðvitað góð og nauðsynleg. Leysa þarf vandann þar sem hann á rætur, í neysluvenjum okkar og barnanna.

Saga sykurneyslu Vísjá RÚV, 10.09.2012

Reykjavík síðdegis 28.08.2012, Skaðleg áhrif sykurs

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/04/20/hin-illkleifu-fjoll-nordursins/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/03/14/hjartaafoll-og-gosdrykkja-karla/

http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7403942n

Dr. Robert Lustig, prófessor við Kalíforníuháskóla í San Francisco ræðir við Jóhönnu Vilhjálmsdóttur á Sjónvarpsstöðinni INN um offitu og frúktósann í unna sykrinum sem hann segir vera ávanabindandi eitur.

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2011/02/08/godir-islendingar/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/03/24/ertu-epli-eda-pera/

http://www.guardian.co.uk/society/2013/feb/18/doctors-soft-drinks-tax-obesity

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn