Laugardagur 17.11.2012 - 14:51 - FB ummæli ()

Að hitta beint í mark

18. nóvember er Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf og sem aðallega beinist gegn ofnotkun sýklalyfja. Landlæknisembættið hefur sett inn pistil á heimasíðu sína til að gera grein fyrir áherslum embættisins og sem við öll verðum að tileinka okkur til að ná meiri árangri í skynsamlegri notkun sýklalyfja en verið hefur. Það sem vantar hins vegar í greinina, er að gera grein fyrir hvar skórinn kreppir mest í okkar heilbrigðiskerfi og sem hefur haft mestu áhrifin á óskynsamlega notkun sýklalyfja sl. áratugi, ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu.

Vitað er að mismunur á notkun sýklalyfja getur verið allt að helmingur á milli landa svo og milli svæða í hverju landi fyrir sig. Þannig hefur nýlega verið gerð grein fyrir allt að  helmings mun á milli fylkja í Bandaríkjunum. Eins nýlega hér á landi þar sem Akureyringar notuðu meira en þriðjungi minna af sýklalyfjum en höfuðborgarbúarnir. Í meira en helmingi tilfella er sýklalyfjagjöf talin óþörf og þegar henni er beint gegn veirusýkingum eins og kvefi, berkjubólgu, skútabólgum og eyrnabólgum barna.

Sýnt hefur verið fram á með vísindalegum rökum meðal annars hér á landi að ávísanavenjur lækna er einn mesti áhrifavaldurinn á þróun sýklalyfjaónæmis, að minnsta kosti úti í þjóðfélaginu sjálfu enda gilda þar aðeins önnur lögmál á sjálfum sjúkrahúsunum með sínum sjúkrahústengdu sýkingum. Ræturnar liggja nefnilega í verklaginu og skipulagi heilbrigðisþjónustunnar sem gefur oft ekki nægjanlegt svigrúm til að við getum tileinkað okkur alþjóðlega gæðastaðla og unnið eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um ávísun sýklalyfja. Ávísanir á sýklalyf eru alltaf nátengd þjónustustiginu sem við veitum og tímanum sem úrlausnum á sýkingum er ætlað. Skyndivaktir og bráðaþjónustur á kvöldin og um helgar sinna orðið megnið af þeim erindum og sem ættu í flestum tilfellum að eiga heima í dagþjónustu heilsugæslunnar. Grunnþjónustunnar sem leggur áherslu á skynsamlegustu úrlausnina í stað skyndilausna, fræðslu um sjúkdóma og eftirfylgni eftir þörfum. Hjúkrunarfræðingarnir koma þar líka jafnt að málum með sína fyrstu ráðgjöf, oft í gegnum síma. Algengust sýkingarnar, veirusýkingarnar, geta enda oft verið slæmar og þrálátar sem gefa þarf góð ráð með. Eins, og ekkert síður með seinni tíma vitneskju, ýmsar vægar sýkingar af völdum baktería sem þarfnast ekki endilega meðferðar með sýklalyfjum og sem læknast oftast af sjálfu sér. Óþarfa sýklalyfjagjöf veldur hins vegar ekki aðeins vaxandi sýklalyfjaónæmi í þjóðfélaginu og aukinni sýkingartilhneyingu hjá einstaklingunum sem neyta, heldur einnig brenglun á jafnvægi sýklaflórunnar, á og í mannslíkamanum sem sífellt er að koma betur í ljós. Þetta á ekki síst við um ungbörnin sem eru að þroska ónæmiskerfið sitt og þar sem óþarfa sýklalyfjagjöf getur verið stórt inngrip og valdið ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sýklalyfjaónæmið og hröð þróun þess er meðal mestu heilbrigðisógna í heiminum að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, og sem vill einnig tileinkna átakinu um skynsamlegri notkun sýklalyfja, einn dag á ári. Sennilega ættum við Íslendingar að halda meira upp á daginn en nágranaþjóðirnar vegna umfangs vandans hér á landi og jafnvel tileinka heilan mánuð átakinu, ekki veitti af.  Sýklalyfjaónæmið er þannig miklu meira meðal pneumókokkanna hér á landi en hjá nágranaþjóðunum, og sem eru algengustu sýkingarvaldarnir okkar og sem valda flestum lungnabólgum fullorðinna og eyrnabólgum barna. Hátt í helmingur algengasta stofnsins hér á landi (19F) er þannig með mikið minnkað næmi fyrir penicillíni og þarf að nota hæstu skammta til að árangur náist í að meðhöndla alvarlegri sýkingar. Helmingurinn er líka algjörlega ónæmur fyrir aðal varalyfinu, svokölluðum macrólíðum og sem grípa þarf til ef um penicillín ofnæmi er að ræða. Hundruð barna þurfa þannig t.d. að leggjast á sjúkrahús á ári hverju til að fá viðhlýtandi meðferð með sterkustu sýklalyfjum sem völ er á og sem aðeins er hægt að gefa í æð eða vöðva, en sem áður gekk vel að meðhöndla með sýklalyfjamixtúrum í heimahúsum. Sumir óttast síðan þann dag að sýkalyfin verði með öllu óvirk á þessar sýkingar og ef áfram heldur sem horfir.

Um 20% af öllum sýklalyfjaávísunum eru til ungra barna undir 7 ára aldri, og sem er í meirihluta tilvika vegna miðeyrnabólgu sem þó oftast lagast af sjálfu sér og klínískar leiðbeiningar ráðleggja að eigi ekki að meðhöndla með sýklalyfjum nema einkennin séu slæm. Fram til ársins 2011 hafði aðeins dregið lítillega úr sýklalyfjnotkun yngstu barnanna frá árunum á undan, eða sem nam um 15-20% á 3 árum. Í heild hefur hins vegar sýklalyfjanotkun Íslendinga litið dregist saman sl. ár og erum við sú Norðurlandaþjóð sem notum mest af þeim lyfjum eins og sumum örðum og hefur svo verið lengi.

Byrjað var að bólusetja ungbörn gegn nokkrum algengum stofnum pneumókokka fyrir ári síðan og nær bólusetningin til allra barna sem fædd eru frá byrjun árs 2011. Aðgerð sem m.a. var flýtt vegna mikils sýklalyfjaónæmis pneumókokka hér á landi. Þá strax var auðvitað kjörið tækifæri að hnykkja betur á skynsamlegri notkun sýklalyfja meðal barna og styðja þannig við niðurstöður gæðaþróunarverkefnis heilsugæslunar í meira en áratug. Þar var ráðlagt að stefna skyldi að mikið minni sýklalyfjanokun yngstu barnanna og beina úrlausnum vandamálanna til heilsugæslunnar á daginn í stað vaktþjónustunnar úti í bæ. Sýnt hafði verið fram á að læknarnir gátu með markvissum aðgerðum minnkað sýklalyfjaávísanir til barna um 2/3  á 10 ára tímabilinu milli 1993 og 2003 á sumum svæðum, jafnframt sem þá eyrnaheilsa barnanna virtist skána. Á þessi atriði og mörg önnur hefur verið margbent á, en lítil sem eingin svör eða viðbrögð borist frá stjórnvöldum. Á meðan heldur vitleysan því miður áfram, þótt nú sé reyndar von til þess að áhrif bólusetningar gefi okkur einhvern grið í tíðni sýkinga, en því miður aðeins um stundarsakir.

Aldrei er því mikilvægara en einmitt í dag að stjórnvöld sjálf reyni að hitta í mark, svo og að læknar sýni meiri aðgát og þjóðfélagslega ábyrgð í skyndilausnum á vöktunum sem varðar ávísanir á sýklalyf, jafnhliða meiri vitundarvakningu um þessi mál meðal almennings.

 

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/01/12/nanasta-umhverfid-okkar/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/10/12/godu-gaejarnir-a-moti-theim-slaemu/

http://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item2547/Kliniskar-leidbeiningar-um-medferd-bradrar-mideyrnabolgu-

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn