Miðvikudagur 26.12.2012 - 12:46 - FB ummæli ()

Skíman á Ströndum

Hólmavík, desember 2012 (mynd vaa)

Það er í raun ógjörningur fyrir mig að ætla að feta í fótspor listmálaranna og túlka með myndum sjónarspili birtunnar á Ströndum nú á miðjum vetri um áramót. Ég vil samt reyna það á annan hátt. Með lítilli ljósmynd og orðum um hugáhrifin sem náttúran vekur og sem kallar fram endurminningar sem allskonar ljósaspil ásamt sólinni ein geta vakið. En sennilega nýtur hver og einn áhrifanna á sinn sérstaka hátt, allt eftir því hvar þeir eru staddir eða aðstæðum í lífinu hverju sinni.

Í myrkrinu sem nú er ráðandi meiri hluta sólarhringsins, nýtur ljósskíman sín alltaf best. Jafnvel þegar myrkrið er kolsvart og ekkert tunglskin er eða endurskin frá snjónum á láglendinu. Hafið þá svart og rennur saman við fjöruna og ósýnilegan sjóndeildarhringinn. Hins vegar stundum stjörnur á himninum og einstaka blikandi ljós í fjarska. Oftast líka hvít, en stundum rauð, gul eða græn. Bátar úti á hafinu eða bílar hinum meginn við fjörðinn ásamt ljósi frá einum og einum sveitabæ. Ekki má síðan gleyma öllum ljósunum í Hólmavík þar sem ég dvel yfir hátíðarnar, og flest ljós eru nú jólaljós. Fyrir utan ljósin frá vitunum góðu.

Á leiðinni á svörtum vegi í öllu náttmyrkrinu, í sjúkrabíl með blá blikkandi ljós upp á heiði þar sem fiskflutningabíll hafði oltið í glærahálku hugsar maður líka margt. Fjörtíutonna flutningabíll hafði mætt öðrum eins, í beygju. Í slíkri vitjun treystir maður meira en nokkurum sinnum á alla hina sem einnig koma til hjálpar. Þar sem öll tæknin, fjarskiptin, góðir bílar og ljósin skilar okkur oftast á leiðarenda. Gul og neonblá þokuljós, og jafnvel flóðlýsingu vöruflutningabílanna sem geta komið fyrirvaralaust á móti manni í næstu beygju eins og járnbrautarlest með tengivagn. Heimurinn í myrkrinu er þannig agnarsmár, aðeins stutti vegakaflinn sem sést framundan.

Sama mætti auðvitað segja um öryggi sjómannanna okkar sem geta ekki alltaf bara treyst á tæknina og veðurspánna sem nú er með afbrigðum slæm. Eins björgunarsveitarmanna sem við ætlum að fara að styrkja með því að kaupa af þeim gleðiljós og sprengjur fyrir áramótin, slökkviliðs- og löggæslumanna sem slökkva hina raunverulegu og óraunverulegu  elda í mannheimum, auk fjölda annarra sem leggja sig oft í mikla hættu þegar illa fer fyrir okkur. Á þjóðvegum, sjónum og í óbyggðum okkar oft bjartra en líka stundum myrka lands.

Allt eru þetta eru áþreifanlegri staðreyndir hér í dreifðum byggðum Vestfjarða á miðjum vetri en víða annars staðar. Eins og ég upplifði fyrst fyrir þrjátíu árum á Patreksfirði og vinur minn Jósep Blöndal, læknir kenndi mér margt um mikilvægi dreifbýlislækninganna, heilbrigðisþjónustunnar almennt út á landi og ekki síst að sýna æðruleysi.

Myrkrið gefur manni nefnilega líka mikla hvíld og aldrei er svefninn betri en á löngum vetrarnóttum. Morgunskíman síðan dimmrauð, bleik, gul og lofandi. Himininn síðar blámaður eða grár, en annars staðar skjannahvítur. Síðar jafnvel dimmblár og sem nýtur sín þá best þegar skýjahnoðrarnir koma í heimsók úr næsta firði og hlaðast upp á heiðunum. Á öðrum tímum í órafjarlægð dökkir, sem sumir kalla óveðursský. Oft fyrirboði slæmra breytinga í vetrarveðurfarinu eins og nú og sem hert hefur þjóðina gegnum aldirnar, en kostað okkur allt of mikið. Í frosthörkum og stormum, á sjó og landi.

Í fyrra reyndi ég að lýsa öðruvísi klakaböndunum á Ströndum. Í akstri í ofurbirtu og snjókófi um miðjan dag á nýja þjóðveginum á Þröskuldum. Sá í raun ekki á milli stika og vissi ekki alltaf hvort bílinn minn væri kjurr á veginum, færi upp eða niður. Að lokum út fyrir veg og ég beið skamma stund eftir frjálsu falli. Ljóst var að tæknin hjálpaði mér ekki lengur né rafmagnsljósin, ekki fyrr en svo hjálpin barst.

Birtan er þannig oft ýmist ofurbjört eða koldimm á Ströndum, og síðan með öllum blæbrigðum ljós og sólar þess á milli. Litbrigði sem minna mig á líf mitt og starf í áratugi á margan hátt. Hvergi eru heldur víddir landsins jafn raunverulegar, en að sama skapi jafn framandi daglegu lífi í höfuðborginni og þar sem ég starfa í heilsugæslunni og á Bráðamóttökunni. Þar sem lengri tími fer oft í að bíða eftir umferðaljósunum en öðrum ljósum og allir að flýta sér. Tímavíddin og álagið oft ómanneskjulegt. En nú hef fengið góðan tíma til að njóta jólaljósanna fyrir vestan. Á sama tíma og ég hef getað rifjað upp gamla tíma og árið agnarlitla sem er að kveðja.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn