Laugardagur 16.03.2013 - 13:39 - FB ummæli ()

Blóð jarðar

snæfellsjokull

Frá Lágafelli að Snæfellsjökli, mars 2013

Nú er það aftur landið okkar og vorið sem er á næsta leiti, sem eru tilefni skrifanna. Hækkandi sól og vangarnir okkar farnir að roðna. Þegar samsvörun íslenskrar náttúru sem vaknar af vetrardvalanum er mest við lífið sjálft. Skynjun sérstakrar fegurðar rétt á milli veturs og sumars í okkar nánasta umhverfi. Bráðum fara lækirnir að spretta framm í hlíðunum og allur gróður vaknar til lífsins. Ferskvatn sem er samt mest geymt í jöklunum og kemur fram sem kaldar lindir eða heitir hverir allt árið um kring. Allt eftir eðli fósturmoldarinnar á hverjum stað, í okkar stóra landi elds og ísa.

Ferðafélagið Út og vestur hefur sérhæft sig í vistvænum ferðum um landið sl. ár. Nú í vor er m.a. boðið upp á hjólaferðir um nágranabyggðir okkar hér á höfuðborgarsvæðinu. Um Mosfellssveitina, til að kynnast sögunni og kölluð er Dalaleiðangur og síðar til að kynnast vatninu okkar nánar sem kallast Vatnaleiðin. Hjólaferðir sem minna mig á aðra ferð fyrir nokkrum árum með sama ferðafélagi á góðum sumardegi um sögusvið Laxdælu í Dölunum. Þá var hjólað um Skarðsströnd og Fellsströnd, en líka gengið frá Dagverðarnesi í sjónum að Felli. Í sjálfri uppsprettu jöklanna sem geymir okkar vatnsforðabúr, en um leið þeirra grafreiti að lokum. Jafnvægi sem ekki má skemma og árhundruðir tekur að byggja upp. En fyrst smá upprifjun af annarri vatnasögu og litlu íslensku blómi.

Líkt og í lífinu, getur eitt augnablik í hrjóstrugu landslaginu verið ógleymanlegt. Bak við svarta gjáandi klöpp eða mosabarð og oft er eitthvað nýtt og framandi, en samt svo kunnuglegt. Meiri víðátta kallar síðan á enn sterkari tilfinningar. Nálgun við fjöllin eins og þau hafa verið í þúsundir ára sem og jöklanna þar til nýlega og nú eru farnir að bráðna meir en nokkursinnum í árþúsundir. Hér á landi um nokkra rúmkílómetra á ári. Stundum þannig  heitur sumarvindur inni á beru hálendinu, en á milli ísköld rigning sem vætir á þér vangann. Ef til vill grátur náttúrunnar á þér sjálfum vegna áhrifa okkar á jörðina.

Á göngu við hina öskugráu Öskju nokkrum árum áður, gekk ég þannig ásamt ferðafélögum eftir kolsvörtum jökulsandi og ekkert líf fannst. Allt þar til komið var að jökuluppsprettum, lindarvatni og ölkeldum nær fjöllunum. Þar sem vatnið seytlaði upp kristaltært, en samt aldargamalt. Uppspretta frá sjálfum Vatnajökli í hundrað kílómetra fjarlægð sunnar. Þá mátti sjá fagurgrænar hávaxnar hvannir, eins og lítil pálmatré í eyðimörkinni. En rétt áður mátti sjá stök blóm í sandinum. Hvaðan það í ósköpunum kom, eitt lítið hvítt blóm með græna vanga, var hulin ráðgáta nema þú þekktir landið þitt og lífsviljann sem að baki býr.

Neðar í þingeysku dölunum mátti síðan sjá lömb og hross í haga. Gulur og grænn mosi alls staðar, lyng og ilmandi kjarr, ásamt birkigrænum lundum við árbakkann. Fiskur í vötnum, skordýr, fuglasöngur, lífið og jörðin. Nákvæmlega þetta samband við íslenska náttúru sem er svo viðkvæmt og sérstakt bera að varðveita og þróa fyrir komandi kynslóðir. Góð menntun, landbúnaður, sjósókn, nýsköpun og vaxtarbroddar í atvinnulífinu, gerir okkur síðan að þeirri þjóð sem við erum. Vegna þess hvað við Íslendingar eru heppnir þrátt fyrir allt að hafa átt, en sem er um leið viðkvæmur lífsneisti lítillar þjóðar og sem aldrei má fórna fyrir skammtímagróða.

Menning okkar á auðvitað að taka líka mið af því hvað er að gerast í heiminum öllum. Að við lítum m.a. ábyrgari augum á þá ógn sem hlýnun jarðar hefur á allt umhverfið til lengdar. Bráðnun jökla, kólnun og súrnub sjávar eru augljósir mælikvarðar gróðurhúsáhrifanna. Ekki síst hér á landi og sem enn er í mikilli mótun. Sem á að vera til spari fyrir framtíðina og sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfisvernd og möguleikum á endurnýtanlegri orku. Þjóð sem samt í dag eyðir allra þjóða mest af orkunni! Og loftmengun er þegar orðið vandamál á ýmsum stöðum. Vegna ruslahauganna, brennisteinsmengunar og bílanna.

Tæplega 200.000 bílar til afnota fyrir rúmlega 300.000 manna þjóð, knúnir í 99,5% tilfella af fljótandi eldsneyti, bensíni og díselolíu. Einnig stór fiskveiði- og kaupskipafloti sem eyðir helmingi meira eldsneyti en bílaflotinn. Síðan flugfélögin sem eyða ógrynni af eldsneyti í hverri einustu flugferð yfir hafið og í heildina hátt í fjórðung af magni eldsneytis sem fer á bílana okkar yfir árið. Aðeins jarðavarmaorkunotkun Íslendinga ein og sér er meiri en heildarorkunotkun hinna Norðurlandanna á hvern íbúa. Samtals nota Íslendingar tvöfalt meiri orku á mann en þær Norðurlandaþjóðir sem koma næst og þrisvar sinnum meiri orku en t.d. Danir. Sennilega þurfa íbúar eylands í Norður-Atlantshafi að nota eitthvað meira af orku en íbúar á meginlandi Evrópu. En hverjir eiga að spara orkuna í heiminum ef ekki þeir sem eyða mest af henni?

Hafravatn

Hafravatn og nágenni, mars 2013

Í sveitinni minni má skynja vatnið, okkar dýrustu auðlind á nærtækan hátt. Í næsta nágrenni við sjálfa höfuðborgina og sem nærir hana á heitu og köldu vatni. Fyrstu gróðurhúsin á landinu voru byggð á Reykjum í Mosfellssveit 1923 og þar á hitaveitan, stolt okkar þannig rætur. Forskotið í ylræktinni hefðum við hins vegar getað nýtt betur með raforkunni sem nú er af skornari skammti en efni stóðu til vegna stóriðju. Raforkuverð til gróðurhúsbænda hefur líka verið of hátt og rekstur þeirra því oft staðið í járnum. Miklu skynsamlegra er að styrkja gróðurhúsaiðnaðinn inni í sjálfum gróðurhúsunum, en selja mest af raforkunni okkar í að bræða aðflutt ál og stál og auka þannig neikvæðu gróðurhúsaáhrifin yfir sjálfri jörðinni og sem kæfir hana að lokum. Sannari mynd af sjálfbærum búskap í landi góðra hugmynda fyrir endurnýtanlega orku og þar sem rafmagnsbílarnir geta vonandi líka leyst aðra bíla af hólmi í framtíðinni. Draumar geta rætst. Af hverju ekki þessi líka?

Sveitin mín, þar sem mosinn klæðir steininn jafn fallega sumar sem vetur, hefur svo sannarlega upp á margt gott að bjóða og hægt er að kynnast aðeins betur með vistvænum göngu- og hjólaferðum og nú er boðið upp á. Til heilsueflingar og hvað ber að varast þegar litlu vorblómin með grænu vangana byrja að vaxa og sem vatnið, blóð jarðarinnar, næra.

Heilsurækt og útivist um uppsveitir Mosó, Mosfellingur 14.03.2013

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn