Þriðjudagur 19.03.2013 - 12:49 - FB ummæli ()

Hvort á maður að gráta eða hlæja?

JE815Umræðan nú á Alþingi okkar Íslendinga, á síðustu dögum þingsins, á sér ekki nokkurt fordæmi held ég. Almenningur er algjörlega gáttaður og margir búnir að missa alla trú á stjórnmálamennina okkar. Af þessu tilefni vil ég fá að endurskrifa hluta úr tæplega 3 ára gömlum pistil sem ég kallaði, Afmæli og jarðarfarir, enda veit ég ekki hvort ég á nú að gráta eða hlæja. Eins vegna þeirrar spurningar og sem er farin að skjótast upp í hugann, hvort jarðaförin fyrir 3 árum hafi aðeins verið draumur.

Síðastliðin ár hefur ríkt mikil sorg hjá íslensku þjóðinni. Það einfaldlega dó eitthvað innra með okkur flestum. Við höfum þurft að ganga í gegnum áfalla- og sorgarferil eins og þegar ástvinur deyr, jafnvel þótt sá hinn sami hafði alltaf verið til mikilla vandræða og ekki kunnað fótum sínum fjárráð. Við viljum trúa því að hann hafi ekki verið alvondur og að hann hafi gefið okkur sem eftir lifum eitthvað til að læra af. Aðallega reynsluna hvernig við eigum ekki að lifa lífinu. Óregla, í bland við svik og pretti í viðskiptum var hans mesta óhamingja. Við höfðum samt samglaðst honum við ýmiss tækifæri, ekki síst á stórafmælunum.

Jarðarfarir reyna yfirleitt á tilfinningaskalann til hins ýtrasta. Við þær aðstæður leggst allt á eitt, söknuður og oft mikil sorg. Stundum grátur sem er góður og vorkunnsemi gangvart þeim nánustu. Orgelspil og lagaval er til að hámarka hughrifin þegar maður horfir á kistuna sveipaða íslenska fánanum. Síðan fögnuður í hjarta yfir því hvað prestinum tekst að gera lífhlaup mannsins merkilegt. Þetta kemur reyndar enn betur fram í minningargreinunum og þá frá fleiri sjónarhornum. Lokauppgjörið virðist þannig oftast nokkuð gott, en eftir situr alltaf minningin um manneskjuna eins og maður sjálfur þekkti hana. Eftir jarðarförina er síðan eins og að lífið byrji að nýju af meiri krafti en áður. Ákveðið uppgjör hefur farið fram. Og maður er þakklátur að fá að vera hér aðeins lengur til að geta bætt sig sem manneskju. Jarðarförin var þannig líka til góðs og til áminningar fyrir okkur hin.

Afmælin eru hins vegar önnur tímamót, þar sem fjölskylda og vinir koma saman. Þá er létt á nótunum, en innihald ræðnanna oft hjáróma og fært vel í stílinn. Farið er yfir farinn veg og afmælisbarninu gjarnan hrósað í hástert. Því launahærri sem menn eru því veglegra afmæli og fleiri ræður, enda mörgum sem þakka þarf velgengnina. Menn eru hvattir til að halda áfram á sömu braut.

Á Alþingi heyrum við nú allar þessar ræður á sama fundinum. Við vitum hins vegar ekki hvort hinn gamli sem við kvöddum fyrir nokkrum árum sé í raun dáinn. Við heyrum aftur og aftur gömlu jarðafararæðurnar, en um leið nýjar afmælisræður fyrir þann hinn sama. Við vitum því ekki hvað er satt og hvað er logið, hvort við eigum að gráta eða hlæja á Íslandi í dag.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn