Mánudagur 25.03.2013 - 10:56 - FB ummæli ()

„Ólögleg“ svefnlyfjanotkun Íslendinga

policelights331

Svefnlyf er ein algengasta ástæða lyfjaávísunar heimilislækna í dag og talið er að um að allt að 10% eldri en 50 ára noti svefnlyf að staðaldri. Í sjálfu væri þetta ekki í frásögu færandi ef ekki væri vegna vandamálanna sem slíkri notkun fylgir. Ekki aðeins vegna vanans og jafnvel fíknar, heldur líka vegna skertra svefngæða þegar til lengri tíma er litið. Svefnlyf sem markaðssett voru til að auka lífsgæði, en sýnir sig skerða vitræna getu. Lyf sem Íslendingar nota allt að fjórfalt meira en nágranaþjóðirnar og áður hefur verið skrifað um.

Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa fleiri verið taldir valdir af umferðarslysum vegna verkja- og svefnlyfjanotkunar en af völdum áfengisneyslu. Í Noregi er lögreglan nú farin að mæla svefnlyf í blóði vegfarenda vegna slævandi áhrifa sem þau geta haft daginn eftir notkun og sem valda þá skertum hæfileikum til aksturs og þátt geta átt í umferðarslysunum þar í landi. Morguninn eftir inntöku flestra svefnlyfja, mælast enda umbrotsefni svefnlyfja oft hærra í blóði en samsvarandi löglegum gildum af alkóhóli. Þannig að í stað þess að vera stuttverkandi eins og helmingunartíminn í blóði segir til um, er oft um langvarandi áhrif flestra lyfjanna og niðurbrotsefna þeirra að ræða, sem sljóvgar hugann lang fram á næsta dag. Því meira, sem skammtarnir eru hærri og gjarnan vill verða með tímanum.

Á síðustu árum hefur notkun svefnlyfja aukist mikið í hinum vestræna heimi, enda svefntruflanir sennilega algengari en áður var og krafan meiri um skyndilausnir. Svefn er hins vegar vandmeðfarinn eins og allt er varðar heilsuna almennt og sem ekki vill láta stjórna sér með óþarfa inngripum. Nokkuð sem nútímamanninum gengur oft illa að sjá og meðtaka sem lífsins sannindi. Flestum gengur þó ágætlega með svefninn, ef þeir hafa ekki of miklar áhyggjur af honum. Eins og með aðrar skammtímaskuldir, borgar þú þær líka fljótt upp. Eða þannig ætti það að vera. Svefnlyfjanotkun er hins vegar meira eins og margumtöluð símalán sem bera með sér allt of háa vexti og eru jafnvel ólögleg. Þar að auki mikið á kostnað eðlilegra svefngæða margra fjölskyldna í landinu um þessar mundir.

Ávanabinding  margra þjóðfélagsþegna og sljó hugsun stórs hluta þjóðarinnar flesta daga, er auðvitað mikið áhyggjuefni. Og vandinn bara eykst. Heilbrigðisyfirvöldum er ekki síst um að kenna með sínum úrræðaleysum varðandi eðlilega læknisþjónustu til handa þegnunum, en auðvitað líka okkur læknunum fyrir að láta teyma okkur í allt að því sjálfvirkar lyfjaávísanir vegna tímaleysis og meint „svefnleysis“ þjóðarinnar.

Eitt af brýnustu verkefnum heilbrigðisþjónustunnar nú, hlýtur að vera að ná niður mikilli svefnlyfjanotkun landans og sem gengur nú oft um eins og undir álögum á Jónsmessunótt. Mörg önnur ráð eru til gegn svefnvandamálum sem gagnast miklu betur til lengdar og áður hefur verið fjallað um. Allt til að halda í okkar náttúrulega svefn og sem gefur okkur bestu hvíldina og draumana. Eins með hugsanlegri notkun nýrra náttúrulegri lyfja eins og svefnhormónsins melatonins og sem eru nú að koma á markað í öruggara lyfjaformi en áður, m.a. hér á landi. Fyrir þá sem þurfa í neyð lífsins að treysta tímabundið á svefnlyfin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn