Föstudagur 05.04.2013 - 11:42 - FB ummæli ()

Smá vorpælingar í Smálöndum um stóru heilbrigðismálin heima

IMG_7151Oft sér maður hlutina öðruvísi hér heima þegar dvalist er erlendis og við erum laus við dægurþrasið. Ekkert síður þöggunina sem ríkt hefur svo allt of lengi í mikilvægustu málaflokkum stjórnsýslunnar. Þrúgandi neikvætt afl sem grafið hefur undan eðlilegri þróun mála. Þegar forðast er að hafa samráð við grasrótina og fólkið í landinu sem mestu máli skiptir.

Um páskana dvaldist ég og fjölskyldan í aldargömlu húsi í Smálöndunum í Svíþjóð. Þótt kalt væri og snjóinn hafði ekki leyst upp, lá vorið í birtunni, rólegheitunum og því að geta verið saman. Internetið og sjónvarpið tengdi okkur hins vegar við umheiminn og fréttirnar frá Fróni. Vorhitanum og skjálftunum á stóru eyjunni fyrir norðan. Allt svo öðruvísi og þar sem hlutirnir virðast oft vera á hvolfi. Jafnvel klukkan skökk um tvær klukkustundir miðað við sólarganginn.

Sænska sjónvarpið og blöðin fjölluð hins vegar mest um nærumhverfið, andlega vellíðan barna, heilsuna og mikilvægi forvarna á öllum sviðum. Ofnotkun sýklalyfja var til að mynda reglulega auglýst og eins mikilvægi bólusetninga gegn TBE veirunni nú þegar skógarmítlarnir fara að vakna af vetrardvalanum. Heilsugæslan virtist þannig miðpunktur í dægurumræðunni, ásamt umræðu um félagslegt öryggi íbúanna. Hornsteinn velferðarkerfis ásamt góðri heilbrigðisþjónustu á öllum stigum þar sem ekki síst er horft er nægjuseminnar, mannauðsins og jöfnuð milli manna.

Himinn og haf skilja þannig á milli umræðunnar um velferðarmálin í fjölmiðlum, á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Nýlega fjallaði ég þannig líka um muninn á umræðunni í Danmörku og hér heima. Þar sem t.d. miklu meiri áhersla er að ná að bólusetja allar ungar konur gegn HPV veirunni til að fækka krabbameinum í framtíðinni. Stöðugar fréttir og mikilvæg umræða í fjölmiðlum um lyfin okkar og nauðsynlegar bólusetningar auk þess sem aflaga fer í heilbrigðisþjónustunni hjá þeim. Uppbyggingu sjúkrastofnana og aðbúnað gamla fólksins og annarra sem minna mega sín. Þar sem lögð er áhersla á að heildarstefnan sé skýr fyrir alla, en litist ekki af endalausu hagsmunapoti sérfræðihópa og pólitíkusa þar sem jafnvel ríkisfjölmiðlar eru látnir spila kröftuglega með.

Mestu framfarirnar í heilbrigðiskerfinu verða til með aukinni vitneskju, tryggum mannauð og góðu húsnæði. Ekki með ofuráherslu á steinsteypuna og stálið, heldur þjónustuna, góðum sjúkrahúsplássum og vinnuaðstöðu starfsfólks, nauðsynlegum tækjabúnaði og lyfjum. Mikilvægast er að veita góða heilsteypta þjónustu á öllum stigum, en treysta ekki endalaust á bráðalausnirnar. Góð heilbrigðisstefna í dag er þannig ein besta fjárfesting nútíðar til framtíðar. Birtingamynd þess öfuga og afleiðingar áratuga niðurskurðar er nú hins vegar öllum ljós, ekki síst þeim sem sækja þurfa nauðsynlega læknishjálp t.d. til heilsugæslunnar eða á bráðþjónustu spítalanna og sem mikið hefur verið í fréttum sl. mánuði vegna óeðlilegs álags á starfsfólk, lélegra kjara, manneklu og bresta í þjónustunni. Fyrir unga sem aldna.

Skýrasta dæmið í mínum huga og ég þekki hvað best eftir þriggja áratuga starf sem heimilislæknir og læknir á bráðamóttöku á höfuðborgarsvæðinu, er ofnotkun sýklalyfja sem skyndilausn við smásýkingum og afleiðingarnar sem hafa skapað okkur í algjöra sérstöðu á Norðurlöndum. Dapurlegum sögulegum kafla í Íslandsögunni sem jafnvel ríkissjónvarpið var of feimið að greina frá nýlega, í annars nokkuð ítarlegri umfjöllun um ógnina erlendis frá sem stafar af þróun sýklalyfjaónæmis á heimsvísu, í sínu Kastljósi. Tveir faraldrar af fjölónæmum bakteríum sl. tvo áratugi á Íslandi sem herjað hefur á flest börnin okkar voru ekki tilviljanir einar. Afleiðingar m.a. skipulags- og aðgerðarleysis heilbrigðisyfirvalda síðustu áratuga. Í landinu okkar þar sem góð heilsugæsla fyrir öll aldurskeið lífsins ætti að vera hornsteinn velferðarkerfisins, eins og í flestum öðrum vestrænum löndum. Ekki skýjaborgir óraunhæfra spítalabygginga sem heltekið hefur hug og hugsun allt of margra, allt of lengi.

Í frábærri dvöl í Smálöndunum þar sem öll fjölskyldan sameinaðist um páskana, skynjaði ég á annan hátt hvað stjórnsýslan hefur lengi verið ófullkomin hér heima og nauðsynleg þjóðfélagsumræða oft þögul. Afleiðingarnar og ógnir við heilbrigðiskerfið blasa nú hins vegar við. Stórt mál hvað gera skal nú til úrbóta og sem vantað hefur í alla umræðu stjórnmálanna á Íslandi, en sem vonandi verða nú í brennidepli næstu vikurnar. Vorið á Íslandi er óvenju snemma á ferðinni, og sem vonandi er fyrirheit um skýrari svör en verið hefur meðal stjórnmálamannanna sem geysast nú fram á völlinn. Hagur heimilinna er mál málanna í dag, látum heilsu meðlimanna vera það líka. Góða heilsugæslu svo og gott sjúkrahúskerfi sem mikið brýtur á þessa fallegu vordaga.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn