„Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum, sem í flestum tilvikum (>70%) tengist HPV veirusýkingu upphaflega, er um 9 konur af hverjum 100.000. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar miklu oftar og hátt í 300 konur fara í keiluskurð á hverju ári hér á landi í dag vegna þeirra, auk þess sem margfalt fleirum konum er fylgt náið eftir. Um 20 einstaklingar greinast síðan á ári með HPV orsakað/tengt krabbamein í munnholi og koki, fleiri karlar en konur.“
Steingrímur Matthíasson heitinn, héraðslæknir á Akureyri skrifaði litla bók fyrir um öld síðan, nánar tiltekið árið 1918, um kynsjúkdóma þess tíma og sem þá voru kallaðir samræðissjúkdómar. Hann nefndi kverið sitt Freyjukettir og Freyjufár og vísaði þar til sagna í Snorra-Eddu. Í henni var minnst á ástargyðjuna Freyju og kettina hennar sem hafa verið skáldum lengi yrkisefni. Í kverinu gerði Steingrímur vel grein fyrir alvarlegum samfélagsvandamálum þess tíma og sem tengdust lekanda og sárasótt. Köttunum hennar Freyju í þá daga. Í dag eru þeir aðrir, lúmskari og sem læðast lengi með veggjum.
Í tilefni af mottumarsinum 2013, benti ég á mikilvægi HPV (Human Pappiloma Virus) bólusetningar kvenna fyrir bæði kynin. Ekki þannig aðeins til að verjast leghálskrabbameini hjá þeim, heldur einnig sem óbein smitvörn fyrir karla gegn sífellt algengara krabbameini í munni, koki, og endaþarmi. Krabbamein sem tengist mest langvinnum HPV-veirusýkingum í slímhúðum unga fólksins og breyttri kynhegðun í nútíma samfélagi. Í Danmörku hefur maður ekki komist hjá því sl. ár að sjá endurteknar auglýsingarnar í fjölmiðlunum um gildi HPV bólusetninga og sem Danir bjóða nú ungum konum ókeypis til 26 ára aldurs. Markmið er enda að ná til sem flestra kvenna á sem skemmstum tíma.
Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum, sem í flestum tilvikum (>90%) tengist HPV veirusýkingu upphaflega, er um 9 konur af hverjum 100.000. Tíðnin hefur farið lækkandi með góðri krabbameinsleit og sem mun væntanlega lækka mikið þegar árangur af bólusetningum gegn HPV veirunni fer að skila sér. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar miklu oftar og hátt í 300 konur fara í keiluskurð á hverju ári hér á landi í dag vegna þeirra, auk þess sem margfalt fleirum konum er fylgt náið eftir. Um 20 einstaklingar greinast síðan á ári með HPV orsakað/tengt krabbamein í munnholi og koki, fleiri karlar en konur. Áætlað hefur verið að eftir nokkur ár (2020) greinist síðan fleiri karlar með HPV orsakað krabbamein (í munni, koki og í endaþarmi) í Bandaríkjunum, en konur með leghálskrabbamein.
Samspil HPV veirunnar við ýmsa aðra áhættuþætti krabbameina svo sem reykinga, áfengis og jafnvel getnaðarvarnarpillunnar er talið geta skýrt um 7% allra krabbameina í dag. Áætlað er að yfir 40% yngri kvenna séu smitaðar af HPV veirunni í leghálsi á hverjum tíma og án þess að nokkur einkenni séu til staðar, svo sem kynfæravörtur sem eru einnig HPV orsakaðar, en af öðrum stofnum en þeim sem valda krabbameinum. Um 7% fullorðinna eru taldir líka með smit í munnholi. Þar sem karlinn getur ýmist verið smitberi eða fórnarlamb sýkingarinnar. Ráðgjöf um kynheilbrigði hvað þetta varðar er því mikilvæg um leið og notkun getnaðarvarna er rædd við unga fólkið í dag í skólunum og í heilsugæslunni.
Sl. 2 ár höfuð við aðeins boðið 11 ára gömlum grunnskólastúlkum bólusetninguna ókeypis (Cervarix). Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum og Kanada mæla með HPV bólusetningu (Gardasil) líka fyrir drengi og sem ver þá um leið gegn kynfæravörtum og er slík bólusetning ókeypis í dag í Ástralíu. Ákvörðun til að bæði kynin njóti góðs af sem fyrst. Bjóða þyrfti a.m.k. öllum stúlkum til 26 ára aldurs ókeypis bólusetningu gegn HPV á Íslandi eins og Danir gera. Og spurningin er síðan, hvað ætlum að gera í málefnum ungra drengja, en sem verða karlmenn á morgun?
Towards the eradication of HPV infection through universal specific vaccination. Crosignani et al. BMC Public Health 2013 „Today’s available epidemiological data show that HPV do not affect men and women differently and that men carry a considerable burden of the disease, enough to justify being included in national recommendations for immunization programs against HPV-associated lesions. Both the EMA and the FDA have approved HPV4 vaccine indication in males 9-26 years of age.“
Greinin var birt í helgarblaði DV, 13.9.2013 undir heitinu „Við getum gert betur“
Sjá frétt á Visir.is 25.02.2014 http://visir.is/bolusetningin-gagnast-fleirum-en-12-ara-stulkum-/article/2014140229286