Síðsumars gekk ég og konan mín á fjallið Ararat í norðaustur hluta Tyrklands ásamt 15 öðrum Íslendingum í gönguhópnum Fjöll og Firnindi. Sannkölluð ævintýraferð á framandi slóðir. Sennilega er fjallið frægast fyrir að vera fjallið sem segir frá í Biblíunni að hafi verið strandstaður arkarinnar hans Nóa og sem sumir telja að finna megi leifarnar af á hásléttunni sunnan við fjallið og sem við heimsóttum í leiðinni. Ararat er hæsta fjallið í þessum fjallótta heimshluta, eldfjallaaskja rétt um 5.200 metra hátt sem talið er að hafi gosið síðast 1840 eftir mikinn jaðskjálfta upp á 7,4 með hamfaraflóðum á nærliggjandi þorp og sem ber nú jökul á toppnum. Ararat blasir við frá landamærum Írans og ekki langt frá landamærum Íraks og Sýrlands, staðsett í landbúnaðarhéraðinu Agri sem eins og nafnið ber með sér sumir telja vöggu landbúnaðarins í heiminum (samanber, agriculture). Hópurinn dvaldist í 8 daga á og við Ararat og ferðaðist um nágranahéruðin, allt til hinnar sögufrægu Borg 1001 kirkju, Ani, á silkiveginum til Asíu við landamæri Armeníu, 150 kílometrum norðar og sem nú eru rústir einar.
Ferð sem þessi skilur eftir sig miklar endurminningar um kynni á framandi menningu, í þessu tilfelli menningu Kúrda og vinsamlegum samskiptum við þá. Kúrdar er bændaþjóð eins og Íslendingar í grunninn, þar sem hesturinn gegnir víða enn mikilvægu hlutverkinu í búskapnum og sem farartæki. M.a. í heyskapnum sem við urðum vitni af og þar sem víða er ennþá slegið með orfi og ljá. Hirðingar voru líka í hópum uppi í fjöllunum og á hásléttunum, með nautpeninginn sinn, kindur og geitur. Útlendingar eru ekki algengir gestir á þessum slóðum, þótt alltaf komi einhverjir, aðallega til að ganga á hið sögufræga og tignarlega fjall, Ararat.
Gangan sjálf á Ararat tók aðeins 5 daga, en áður höfðum við fengið smá hæðaraðlögun með næturgistingu í tjöldum í Nermut gígnum sunnan við Van vatnið um 200 km. sunnar og sem er í 2.100 metra hæð. Síðar með dvöl á hásléttunni umhverfis fjallið í nokkra daga, í um 1500 metra hæð. Gist var á hóteli í Dogubeyacit, sem er um 70.000 manna landamærabær, rétt vestan við Írönsku landamærin. Frumstæður og fátækur bær, þar sem sjá mátti hernaðarmannvirki og vígatól allt í kring og sem minnti mann óþægilega á fréttir líðandi stundar. Keyrt var upp að fjallsrótum og byrjað að ganga í um 2000 metra hæð. Hitinn um morguninn var um 30°C og gengið í 6 tíma upp í neðri búðir í um 3.200 metra hæð. Á leiðinn var okkur boðið í té í tjöldum hjá kúrdískri hirðingjafjölskyldu. Indælt fólk á öllum aldri með hænsni og geitur í heimahaganum milli tjaldanna sinna og þar sem stúlkurnar og gömlu konurnar buðu okkur handavinnuna sína til kaups í lokin.
Í neðri búðum voru grasbalar innan um stórgrýti, rétt neðan við mesta brattan á fjallinu og þar sem gönguleiðin síðar átti eftir að verða erfiðari. Einhvernvegin skynjaði maður sögu og aldur eldfjallsins vel á klöppunum sem margar voru spegilgljáandi. Sjá mátti til austurs hliðar Litla-Ararats sem nær upp í um 3.900 metra hæð og ekki eru nema um öld síðan að gaus síðast. Litlibróðir sem tilheyrði Íran til ársins 1932. Hraunbreiðurnar minntu um margt á íslenskar hrauntungur eins og víða annars staðar í Agrihéraðinu, enda mátti sjá berglög í öllum regnbogans litum, rauðhóla og jafnvel líparít. Hrjóstrugt landslagið sem er nánast skólaust, endurspeglaði þetta allt miklu betur, ekkert síður þegar upp í snjóinn var komið og að sumu leiti óvænt upplifun svo nátengt okkur Íslendingunum.
Úr neðri búðum fórum við síðan daginn eftir í hæðaraðlögunargöngu upp í efri búðir sem voru í um 4.200 metra hæð og þar sem í raun ekkert tjaldstæði finnst, nema þau sértilbúnu milli stórgrýtis og klappa. Í raun ótrúlegur tjaldstaður fyrir okkur að tjalda á, en sem var síðan ekki svo afleiddur þegar á reyndi og allir voru hvíldinni fegnir. Reyndar féll stórgrýti yfir eitt tjaldið sem þarna var og eyðilagði varninginn sem í því var, en sem var þá sem betur fer mannlaust. Við gengum sem sagt til baka niður í neðri búðir sama dag, en aftur upp daginn eftir og gistum þá um nóttina í efri búðum. Dagurinn sá var vindsamur og kaldur þegar á leið og um kvöldið var farið að blása allhressilega og síðan gekk hann á með hagléljum um kvöldið. Planið var að bíða ef sér veðrið í sólarhring í efri búðum ef í harðbakkann slægi og aðstæður leyfðu ekki toppgöngu. Sú varð samt ekki raunin og við gátum lagt af stað um klukkan eitt um nóttina eftir stuttan svefn. Í svarta myrkri, með höfuðljós og kappklædd til vetrargöngu, enda smá snjókoma, vindur og töluvert frost.
Næstu 4 tímana gengum við upp í halarófu upp snarbratta hlíðina í myrkrinu. Allt þar til í morgunsárið og það létti nægilega til þannig að það sást til sólar gegnum skýjahuluna. Síðustu 400-500 metrana í hækkuninni, ca 2 km. vegaleng, gengum við á jökli. Í sólarupprásinni mátti sjá skuggann af Ararat í allri sinni dýrð, teygja sig langt yfir allt Agri héraðið og inn fyrir landamæri Írans. Ógleymanleg sjón að sjá landið vakna eins og í Afríku forðum. Öll komumst við síðan á toppinn um 7 leitið. Áfanganum var náð og sem margir höfðu stefnt svo lengi að. Með ótal æfingargöngum heima á Íslandi sl. vetur og fram á sumar. Nokkrir í hópnum höfðu farið aðra ferð til Atlasfjallana fyrir 3 árum og gengið á tindinn Toubkal sem þar er hæstur, tæplega 4.200 metra hár. Sannarlega heldur ekki með hæstu fjöllum veraldar, en nógu há fyrir okkur og sem tóku inn hæðaraðlögunarlyf til að forðast mætti háfjallaveikina. Aukaverkanir voru hins vegar allskonar doði í útlimum og í andliti, en þar sem þó heilinn var skýr. Toppurinn sjálfur var heldur ekki aðalatriðið í ferðinni, heldur aðeins eitt af lokatakmörkunum. Gangan sjálf og samveran á þessum slóðum toppaði allt. Eins gangan niður í sæluvímu og síðan söng- og dansskemmtunin með Írönsku vinum okkar í neðri búðunum um kvöldið.
Gangan á Ararat og ferðirnar þar í kring á fjallaslóðum, gætu talist varasamar ef tillit er tekið til frétta um hörmungaástandið sem nú ríkir rétt austan tyrknesku landamæranna og þar sem mannrán vestrænna ferðamanna eru tíð. Öll hræðsla var þó víðs fjarri í okkar góða hóp, enda litum við á Kúrda sem vini okkar, vestrænt þenkjandi og sem voru mjög vinsamlegir í alla staði. Sumt fannst okkur auðvitað mjög frumstætt og sannanlega fundum við til með flóttafólkinu sem við hittum og fátæktinni sem ríkti víða. Trúarbrögðin allt önnur, en þar sem manngæskan virðist allsráðandi, eins og reyndar með berbunum í Atlasfjöllunum um árið.
Ég hugsa sérstaklega hlýtt til þjóðabrota Kúrda á þessum slóðum og sem hafa mátt þolað svo lengi stríðsátök og kúgun nágrannanna og sem nú enn og aftur er daglega í fréttum og tilraunar til þjóðarmorðs á þeim í NV hluta Sýrlands, rétt austan tyrknesku landamæranna. Á hvaða sögusviði annars staðar í heiminum ætti reiði guðanna að birtast betur og sagan segir svo vel frá í gamla testamentinu á sama stað. Saga sem var kvikmynduð nýlega á Íslandi af öllum stöðum, en sem átti að hafa gerst á okkar slóðum í gönguhópnum við Ararat. Bestu þakkir fyrir mig til samferðamanna í frábærum gönguhóp, Metins Genglin, tyrkneska farastjórans og allra Kúrdanna, m.a. þá írönsku sem tóku á móti okkur með söng og dansi, og sem allir buðu okkur velkomin til sín síðar.
Fleiri ferðasögur úr ferðinni góðu:
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/12/21/leyndarmalid-a-akdamar-island-og-islensku-paparnir/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/04/18/tynda-borgin-ani-og-islendingurinn-eg/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/04/28/ishak-pasha-hollin-og-heimbodid-goda-i-agri/