Við erum komin fram af bjargbrúninni og erum nú í frjálsu falli. Spurningin er bara hvernig við komum niður. Lýsingin á við ástandið í heilbrigðisþjónustunni í dag. Sama hvert litið er, t.d. í heilsugæsluna, varðandi geðhjálp, sérfræðingsþjónustuna út í bæ eða í spítalatengdri þjónustu. Það gleymist líka í allri umræðunni í dag hvað við erum búin að standa lengi á brúninni, a.m.k. áratug, og að höfuðborgarbúar hafa búið við áttfalt álag á bráðaþjónustu hverskonar og vaktþjónustu, miðað við nágranaþjóðirnar. Gjörólíkt ástand og var fyrir síðustu aldarmót og þegar við státuðum okkur af einu besta heilbrigðiskerfi heims, eftir rúmlega hundrað ára uppbyggingu. Að allir Íslendingar ættu kost á bestu heilbrigðisþjónustunni.
Langir biðlistar eru nú eftir viðtalstímum við lækna og í skurðaðgerðir hverskonar. Flestum erindum reyndar sinnt sem bráðaerindum. Sum lyf eru ófáanleg og takmarkanir geta verið á bestu aðgerðunum vegna tækjaskorts. Ástand sem sumir líkja meira við illa fjárhagslega stödd fyrrum austantjaldslönd og sem höfðu lengi vel verið áratugum á eftir okkur í uppbyggingu vestrænnar heilbrigðisþjónustu. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga í læknishjálpinni og lyfjum auk þess aukist og sem sumir hafa ekki efni á lengur. Ekkert frekar en heyrnartækjum, gleraugum eða tannlæknishjálp.
Tíðindum sætir að stjórnendur Landspítalans komi nú fram í fjölmiðlum og viðurkenni að starfsemi þeirra sé komin út fyrir þol- og öryggismörk, enda áður bundnir þagnareið gagnvart stjórnvöldum. Skyldan nú að benda á hætturnar og að reyna að byrgja brunninn eins og frekast er kostur, er öllum öðrum lögum og reglum æðri. Viðurkenna loks vandann sem við höfum þurft að búa við sl. misseri, um leið og hann hefur margfaldast. Umræðan um sjálfan húsakost LSH er reyndar eldri og ófeimnari, enda öllum ljósari á tímum þar sem mesta áherslan hefur verið á að bora gegnum fjöllin, en tryggja veg okkar allra að lífsnauðsynlegri þjónustu.
Faglegt heilbrigðisöryggi sem lengi hefur verið falið en þverbrotið, er alvarlegast í þessu máli öllu. Óteljandi misalvarleg mistök í meðferð sjúklinga sem flestir heilbrigðisstarfsmenn sjá í sínu daglega starfi, en hafa fundið sig knúna til að þaga yfir. Mistök tengt allt of miklu álagi og hraða, auk hraðaútskrifta á sjúklingum á yfirfullum spítalanum. Bráðavandinn hefur auk þess verið kerfislægur vegna langvarandi yfirflæðis vandamála sem ættu í raun heima í vel skipulagðri heilsugæslu. Klínískir alþjóðlegir verkferlar þannig þverbrotnir á því algengasta. Því miður blasir nú við enn verra ástand. Meðalævilengd á Íslandi á eftir að styttast og lífitími t.d. eftir greiningu krabbameina sömuleiðis. Geðhjálp, einkum meðal barna- og unglinga á eftir að snarversna. Svona mætti lengi telja.
Mikill atgerfisflótti heilbrigðisstarfsfólks, einkum lækna sl. misseri og síðan verkföllin í dag, eru staðreyndir sem tala sínu máli. Óbrúanlegt gat er að verða til í menntun og mannauð sem framtíðinni er svo nauðsynlegt að geta treysta á. Kastljósið í gær var aðeins lítil en nauðsynleg ljósglæta í umræðunni um starfsemi Landspítalans, en sem hefði þurft að hafa átt sér stað fyrir löngu, tengt skipulagi heilbrigðismála almennt. Mikil vöntun er t.d. á eðlilega uppbyggingu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem enn ríkir furðu mikil þögn. Stjórnvöld vilja hins vegar ekki trúa, hvað þá að semja um ásættanleg laun lækna. Vilja hins vegar stefna á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins á brotunum sem eftir liggja, og gefa þeim efnameiri tækifæri til að borga sig fram fyrir þá efnaminni.
Óbætanlegur skaði hefur þegar átt sér stað í heilbrigðisþjónustunni hér á landi, miklu meiri en fjármálahrunið eitt skýrir. Skilning stjórnvalda hefur einfaldlega vantað sl. áratug hvað góð lýðheilsa getur sparað þjóðfélaginu mikla peninga síðar. Aðgerðir hafa miðast meira við niðurskurð en nauðsynlega uppbyggingu. Hamfaraflóð norðan jökla og glæpaöldur virðist nú það eina sem stjórnvöld skilja sem raunverulega þjóðarógn. Þjóðarátak þarf strax í dag til að lágmarka skaðann sem orðið hefur í heilbrigðiskerfinu öllu sl. áratug og þegar björgunaraðgerðirnar verða nú dýrari og óframkvæmanlegri með hverri vikunni sem líður. Gjörgæslupláss fyrir sjúklinginn fer enda að verða vanfundið. Spurningin, hvenær við þurfum að byrja alveg upp á nýtt , fer síðan að verða áleitnari og þegar við erum hætt að geta speglað okkur í því sem vel var gert í fortíðinni.