Þriðjudagur 09.12.2014 - 13:09 - FB ummæli ()

Aftur til ársins 1864

BB

Á Austurvelli við Arnarhvol í gær

Dönsku sjónvarpsþáttaröðinni 1864 lauk sl. mánudagskvöld á RÚV. Ein besta sjónvarpssería sem ég hef fylgst með og ekki spillti fyrir að ég á sjálfur ættir að rekja til sögusviðsins. Sama dag var ég líka staddur á Austurvelli við Arnarhvol með læknanemunum okkar. Og sama dag keyrði ég líka á milli helming heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu í verkfallsvörslu með tveimur kollegum mínum. Allt frá stöðinni í Mosfellsbæ, vestur á Landakot. Ömurleg sjón fyrir mig að sjá allar stöðvarnar tómar af læknum á virkum vinnudegi, varla nokkur sjúklingur og sem allir voru heima eða á bráðmóttökunum. Hversu langt á þetta allt að ganga?

Margar þjóðir hafa yfir her að ráða og herskyldu. Árhundruða valdabrölt þeirra eigin og nágrananna hafa skapað þessa hefð og vissulega er ástandið uggvænlegt víða í heiminum. Á Íslandi er ekki neinn her, í besta falli vel útbúin sérsveit lögreglunnar og nokkur varðskip. Varúðaráðstöfun m.a. gegn hryðjuverkaógninni í dag. Og vissulega erum við í hernaðarbandalagi, svona til vonar og vara, enda líklegt að búið væri fyrir löngu að hirða annars landið af okkur. Íslendingar hafa reyndar verið friðsöm þjóð í seinni tíð, ef undan er skilinn smá órói sl. ár með reglulegum mótmælafundum við Austurvöll, í dag Jæja. Aðgerðir sem tæplega teljast til neinnar ógnar, meira til aðhalds stjórnvöldum sem oft virðast ekki kunna sínum lýðræðiskjörnum fótum forráð. Skilja reyndar ekki hverju er verið að mótmæla. Í landi þar sem sérhagsmunagæslan virðist vera mest ráðandi, þó ennþá enginn her og engin herskylda.

Sjúkdómarnir herja hins vegar á okkur eins og aðrar þjóðir. Skelfilegir faraldrar á öldum áður sem lögðu stundum stóran hluta þjóðarinnar að velli. Okkar mesti óvinur, fyrr og verður síðar. Enginn er öruggur fyrir þeim óvin og sjúkdómarnir margir og flóknir og sem ekki er hægt að kenna bara örverunum um og við höfum haft oft góðar varnir gegn með lyfjum og bólusetningum. Slys, lífstílssjúkdómar, krabbamein og arfgengir sjúkdómar. Listinn er allt of lengur til að telja upp hér. Allt aðstæður og óhöpp sem standa öllum nálægt á lífsleiðinni. Læknavísindin og 250 ára saga frá stofnun Landlæknisembættisins hafa skipt sköpum í vörnum okkar á þessum vígvelli og skapað ásamt velmegun, einn lengsta lífaldur meðal þjóða og lægsta ungbarna- og mæðradauða. Þrátt fyrir að við eyðum hlutfallslega minni fjármunum í heilbrigðiskerfið en stóru þjóðirnar gera. Menntað allar heilbrigðisstéttir og stundað öflugt vísindastarf á mörgum sviðum lífvísinda sem og á öðrum sviðum. Í dreifbýlu og stundum harðgerðu landi sem kostar auðvitað meira erfiði en annars væri. Stuðst við opinbert heilbrigðiskerfi til að tryggja jöfnuð og þar sem okkur hefur tekist að ná meiri árangri en í löndunum þar sem einkavæðing fær að vera ríkjandi. Í raun mikið betra ástand í lýðheilsumálum og öflugri forvörnum fyrir alla þegnanna.

Til baráttunnar höfum við þurfum vel skipulagt heilbrigðiskerfi. Læknar hafa gegnt þar lykilhlutverki. Staðið vörðinn í fremstu víglínunum ef svo má segja. Segja má líka í myndlíkingu stríðsátaka, að unglæknarnir séu landgönguliðarnir sem ganga í raðirnar sjálfviljugir eftir langt og strangt nám. Læknar sem hafa unnið vinnuna sína á föstum launum undir fátæktarmörkum fyrstu árin að teknu tilliti til skuldabyrgðar og námslána eftir 6-8 ára háskólanám (föst laun fyrir skatta 340.000 krónur á mánuði). Læknarnir hafa því orðið að vinna sig upp í tekjum með ómældri yfirvinnu, andstætt góðum fjölskyldumarkmiðum í dag. Hafa ekkert annað val eða aðra rekstrarmöguleika. Í raun ekkert nema að flytja erlendis þar sem launin eru margfalt hærri og allar aðstæður betri. Í hringborðsumræðum gærkvöldsins hjá RÚV eftir þáttinn 1864 mátti hins vegar heyra þátttakendur tjá sig um óraunhæfrar launakröfur lækna sem ógnuðu verðstöðugleika. Eins um þá kúgunarstefnu sem læknar eru sagðir standa að gegn atvinnumöguleikum erlendra lækna til starfa hér á landi. Hver er eiginlega óvinurinn í læknisþjónustunni á Íslandi og hvað getur lýðskrumið teygt anga sína langt í fjölmiðlaumræðuna?

Unglæknarnir eru að berjast fyrir þriðjungs kauphækkun, ekki krónu minna til að geta starfað hér á landi. Í dag eins og staðan er ætla þeir ekki að ráða sig í vinnu hér á landi. Semja verður fyrst um mannsæmandi kjör. Þeir vilja frekar fórna heimahögunum og þjónustunni við landið fyrir fjölskylduna og fjárhagslegt öryggi, enda hvorki þrælar eða með herskyldu. Svo einfalt er það. Læknarnir sem ætlað var að tækju við og starfrækja heilbrigðiskerfið okkar í náinni framtíð. Unglæknar sem hrekjast að heiman vegna skilningsleysi stjórnvalda, eru auðvitað miklu ólíklegri að koma nokkurn tímann heim aftur og skilja þannig eftir eftir sig óbrúanlegt skarð í víglínu okkar allra gegn sjúkdómunum. Eldri læknar eru líka að gefast gefast upp af vinnuálaginu og sem versnar sífellt. Meirihlutinn er þegar farinn að huga að uppsögnum. Vilja einfaldlega líka getað lifað fjölskyldulífi síðustu starfsár sín. Sérfræðiþekking sem þá tapast á öllum sérsviðum læknisfræðinnar  á Íslandi og sem tók 12 ára háskólamenntun fyrir hvern og einn að skapa, verður mikil blóðtaka fyrir þjóðina alla.

Þær orrustur sem nú koma til með að skella nú á þjóðinni, eru dæmdar til að tapast ef „hermennina“ vantar og sem veita eiga mótspyrnu með með hjálp læknavísindanna. Læknisfræðileg menntun á Íslandi mun líka tapast og Íslendingum þá nauðugur sá kostur að sækja læknismenntun og læknishjálp erlendis og sem menn reyndar horfðu vonaraugum til í umræðuþættinum á RÚV í gærkvöldi. Óvinurinn er heldur enginn smá óvinur, hryllilegri en nokkur annar og lævís með eindæmum. Jafnvel brenglað hugsun stjórnmálamannanna eins og annarra. Óvinur sem auðveldlega getur gert okkur ófært að búa á landinu okkar annars góða. Óvarið land fyrir sjúkdómum er auðvitað fásinna og sem engri þjóð hefur hingað til dottið í hug að viðgengist. Áður fyrr, fyrr á öldum hafði þjóðin ekkert val. Nú er öldin önnur og aðeins heimsku eða geðveiki þjóðarinnar um að kenna ef illa fer.

Lokavíglínan mín sjálfs verður fyrst um sinn vonandi á Bráðamóttöku háskólasjúkrahússins LSH, enda sagt föstu starfi mínu lausu í heilsugæslunni. Eftir 25 ára staf samhliða bráðalækningum. Eftir áratuga vísindavinnu í heilsugæslunni og tilrauna til gæðaþróunar, nú sem klínískur dósent. Undirmönnun í víglínum heilsugæslunnar er hins vegar löngu brostin á og þar sem ég geri orðið minna gagn. Þvælist jafnvel fyrir hugmyndum ráðamanna og nýjum skipulagsbreytingum.

Hvergi býr maður sig jafnvel undir vakt dagsins með uppbrettar ermar eins og á Bráðamóttöku LSH, enda aldrei að vita hvað vaktin ber með sér. Þar sem spjótin standa sannarlega á, á öllum sviðum. Mönnunarlega, húsnæðislega og tækjalega. Slys til sjós og lands, alvarlegar sýkingar og jafnvel farsóttir og eitranir. Nú líka allir smákvillarnir, blóðtappar og smáslysin sem fólk getur ekkert leitað með annað.

Hvergi annars staðar sér maður jafn vel hvernig stjórnvöld hundsa staðreyndir og þróunina í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Hvernig vont versnar og þegar að lokum verður ekki aftur snúið. Orrustunni þá lokið. Sagan búin eins og við sáum hana í þáttaröðinni 1864. Stórkostleg mynd og afþreying fyrir íslenskan almenning, en afar sorgleg fyrir dönsku þjóðina sem rifja þurfti upp sín mál. Brot af mannkynssögunni sem byggðist á lýðskrumi stjórnvalda og algjörlega tilgangslausu stríði fyrir þjóðina.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn