Þriðjudagur 05.05.2015 - 15:57 - FB ummæli ()

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu étur börnin sín

saturn-eating-children-large francisco de goya

Græðgin (Francisco Goya 1819-1823)

Umræðan um heilbrigðismál í dag snýr orðið meira um hagræðingu og kostnað, en gæði þjónustunnar sem veita á og þörfinni sem blasir við. Góð heilbrigðisþjónusta er engu að síður sú þjónusta sem flestir vilja að sé í lagi, fyrir lágmarkskostnað. Jafnvel aðgengilegri en ókeypis menntun og betri samgöngur. Opinber heilbrigðisþjónusta hefur hingað til verið litið á sem algera grunnþjónustu í þjóðfélaginu, jafngilda löggæslu og þar sem gott jafnræði á að ríkja meðal allra þegna. Vegna aukins kostnaðar nú í heilbrigðisþjónustunni, m.a. vegna aukinnar þarfar á hátæknilæknisþjónustu fyrir þá veikustu og auknum lyfjakostnaði og dvalarkostnaði á sjúkrastofnunum vegna öldrunar þjóðarinnar og fjölgun lífstílstengdra sjúkdóma, telja sumir að útgjöld til heilbrigðismála sé orðinn allt of stór hluti ríkisútgjaldanna og sem ekki verður lengur við unað. Íslendingar eru samt ríkastir flestra þjóða af auðlindum og óvíða er meiri hagvöxtur. Engu að síður leggjum við minna til heilbrigðismál en nágrannaþjóðirnar og aðeins rétt yfir meðaltalinu sem þekkist meðal OECD ríkjanna, reiknað sem hluta  þjóðartekna.

Ein leið til að auka aðgengi að þjónustunni og mikið er rætt um í dag er aukin einkavæðing og þar sem efnameira fólki gefst a.m.k. kostur á að kaupa þjónustuna. Að sú þjónusta sé þá betri en engin og algjörlega óháð markmiðum fjárfesta sem fyrst og fremst vilja reka heilbrigðisþjónustu af arðsemissjónarmiðum. Hins vegar á kostnað jafnræðis tengt efnahag þjóðfélagsþegnanna. Lengi hefur verið þrýstingur á aukin afköst og bætta hagræðingu í hinu opinbera heilbrigðiskerfi, en sem stefnt hefur gæðum þjónustunnar stundum í voða. Sama aðgengið hefur samt verið að dýrustu þjónustunni og þeirri ódýrustu sem niðurgreidd er af ríkinu, jafnvel á kostnað uppbyggingar grunnheilsugæslunnar. Togsteita sem hefur verið á milli ólíkra póla heilbrigðisþjónustunnar í áratugi og sem komið hefur einnig niður á uppbyggingu öldrunarþjónustu og nauðsynlegri fjölgun hjúkrunarrýma í landinu. Heilbrigðisyfirvöld hafa auk þess verið mishliðholl þrýstihópum í þjóðfélaginu og sem ráðist hefur af pólitískum vindum hverju sinni. Hægri stjórnir eru síðan alltaf hliðhollari markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins og vilja takmarka sem mest ríkisumsvifin og nýta af öllum kröftum sitt kjörtímabil til að ná sínum markmiðum fram. Jafnvel nú í langvarandi fjársveltri grunnheilsugæslu og þar sem hausatalningin ein virðist hafa gilt sem rekstrarviðmið og þótt rekstrarkostnaður af henni sé innan við 5% heildarútgjalda heilbrigðismála. 

Í sumum löndum eins og t.d. Bandaríkjunum er stór hluti heilbrigðiskerfisins einkavæddur, án aðkomu opinberra aðila og einkarekin heilbrigðiskerfi jafnvel margskipt í takt við efnahag einstaklinganna og sjúkratryggingatöku, sem atvinnurekendur hafa í mörgum tilvikum borgað. Miklar takmarkanir eru þannig á aðgengi í dýrari hátæknilækningar og lyfjameðferðir. Eins möguleikum á langtímadvöl á einkareknum sjúkrastofnunum. Tryggingarnar eru auðvitað því dýrari sem þær bjóða upp á meira öryggi og þjónustu. Í vaxandi mæli eru tryggingafélög farin að óska eftir meiri upplýsingum um einstaklinganna sem tryggðir eru, varðandi alla mögulega áhættuþætti fyrir heilsutjón síðar og jafnvel hugsanlegum sjúkdómaerfðum s.s. krabbameinum með lífsýnatökum. Allt þættir sem auka á misrétti til mögulegrar heilbrigðisþjónustu síðar og sem við getum ekki einu sinni forðast með betri lífsstíl og lágmarks áhættu við leik og störf.

Stöðugt hærra hlutfalla opinbers fjár til heilbrigðismála á Íslandi fer í þjónustusamninga og verktakagreiðslur til einkaaðila og sem veitt geta heilbrigðisþjónustu, en sem áður var aðeins á hendi opinberra aðila eða sjúkrastofnana. Stór hluti bæklunarskurðlækninga og lýtaskurðlækninga er þannig í dag í einkarekstri, jafnvel tengd einkareknum sjúkrahótelum og þar sem sambærileg þjónusta býðst ekki lengur á opinberum sjúkrastofnunum. Önnur þjónusta tengt þessum rekstri eins og t.d. í lýtalækningum er einkavædd að fullu, en þar sem hugsanlegar afleiðingar af aðgerðunum síðar þurfa fulla opinbera þjónustu og sýndi sig vel í PIP brjóstapúðamálinu um árið. Rætt er um aukin umsvif á þessum sviðum og byggingaframkvæmdir hafnar á einkavæddum sjúkrastofnunum. Önnur almenn heilbrigðisþjónusta hefur reyndar lengi verið án nokkrar kostnaðarþátttöku hins opinbera, eins og t.d. tannlæknaþjónusta og vissar augnskurðlækningar og sem margir hafa reyndar ekki efni á í dag. Sammerkt öllum blönduðu rekstrarformum, sér í lagi einkavæddum, er að rekstraraðilinn þarf að hámarka hagkvæmni í rekstri til að getað skilað verktakanum og fjárfestum sem mestan arð. Hagur starfsmanna er líka oft hærri en laun sambærilegra starfsmanna í opinberum rekstri, a.m.k. í byrjun og sem því oft er orðið erfitt að manna vegna viðvarandi láglaunastefnu þess opinbera. Gulrótin í þjónustusamningunum er hins vegar alltaf stærst í upphafi, en minnkar síðan með tímanum og með aukinni samkeppni rekstraraðila sín á milli á markaði.

Krafan um aukna hagræðingu og aukinn fjölda sem veita á þjónustu í hinu opinbera kerfi getur líka verið afstæður og sem erfitt er að kostnaðarsetja. Tími sem sjúklingur þarfnast til dæmis í heilsugæslunni er mjög ólíkur eftir aðstæðum og hver á í hlut hverju sinni og sem erfitt er að tímasetja eða verðleggja fyrirfram með almennum þjónustusamningum. Samningar sem ganga út frá svipaðri tímaþörf fyrir alla með stöðluðum meðaltölum. Hætt er við að tímafreki sjúklingurinn með mörg heilsufarsvandamál fái minni og takmarkaðri þjónustu en sá sem hraustari er og þarfnast minni tíma í afkastahvetjandi kerfi. Hætt er líka við að hlutur forvarna og fræðslu sem á að vera aðalsmerki góðrar heilsugæsluþjónustu, auk vísinda og kennslu, sé fyrir borð borinn í almennum þjónustusamningum við hið opinbera. Kostnaður sem þó í dag er ótrúlega lítill í hinu opinbera kerfi eða sem nemur innan við 0.5% ríkisfjárframlaga til heilsugæslunnar í landinu. Kostnaður sem reiknað hefur verið út að geti margborgað sig og sparað heilbrigðiskerfinu tugi milljarða með fjölgun lifiára þjóðfélagsþegna og í  hækkuðum starfasaldri. Þar sem lífstílssjúkdómarnir koma svo oft við sögu og Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS hefur gert vel grein fyrir í sínum skrifum undanfarið.

Annar þáttur og sem mikið hefur verið til umræðu á Íslandi, er þáttur sérgreinalæknisþjónustu hverskonar með gjaldskrásamningi við hið opinbera, án hindrana eða stýringar gegnum grunnheilsugæsluna og víða þekkist í nágranalöndunum. Það er valfrjálst kerfi hvert sjúklingar getað leitað með sín vandamál, óháð tilefni og fjölda endurkoma síðar og sem oft væri hægt að leysa í heilstæðri heilsugæslu. Sú heilsugæsla er því miður ekki til í dag í dag, enda kraninn hjá Sjúkratryggingum Íslands lengi verið galopinn fyrir sérgreinalækninga að opna sínar stofur á sama tíma og heilsugæslulæknum verið meinaður aðgangur að samningum og þótt sérmenntaða heimilislækna hafi víða lengi vantað. Heimilislæknum jafnvel neitað um þjónustusamninga á heilstæðri heilsugæslu fyrir heilu hverfin í Reykjavík og sem enga heilsugæslu höfðu. Í örvæntingunni nú hjá ríkjandi hægristjórn á að hlaupa til og opna á möguleika á öðrum rekstarformum heilsugæslunnar, enda á fáum stöðum á byggðum bólum í hinum vestræna heimi orðnir færri heimilislæknar í samanburði við aðra sérgreinalækna.

Vissulega er kostur að hafa gott aðgengi að sérgreinalæknisþjónustu. Vaxandi útvötnun heilsugæslunnar á síðustu árum og stöðug aukning í starfsemi einkarekinna stofa og bráðavakta hverskonar er samt mesta áhyggjuefnið í dag. Vaxandi hætta er á auknum afleiðingum oflækninga tengt öllum bráðalausnunum endalaust og þar sem alla eftirfylgni og fræðslu vantar. Vaxandi möguleikar hins vegar á einkarekstri og sem býður upp á betri kjör heilbrigðisstarfsfólks en í fastlaunakerfi hins opinbera heilbrigðiskerfi, dregur úr áhuga á vinnu í því síðarnefnda en liðkar til fyrir markaðsvæðingunni í öllum myndum.

Segja má að einkavæðing heilbrigðiskerfisins og sem gerir mestar kröfur á arðsemissjónarmiðin, éti smá saman börnin sín, hinn venjulega sjúkling. Alveg á sama hátt og einkavæðing í nýtingu auðlindanna og sem mest er í umræðunni, takmarkar aðganginn að henni og étur síðan arðgreiðslurnar frá þjóðinni. Stefna þyrfti hins vegar að auka gæði heilbrigðisþjónustunnar á öllum sviðum og jafna aðgengi allra að henni við hæfi. Íslensk heilbrigðisþjónusta stendur á krossgötum og spurningin nú virðist vera hvort arðvæða eigi hana eins og annað og takmarka aðgengi að henni eftir efnahag, eins og reyndar flestum öðrum öðrum lífsgæðum þjóðfélagsins?

http://www.dv.is/frettir/2015/5/1/thogul-eiknavaeding-i-heilbrigdiskerfinu/

http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2014/10/29/varla-upphafid-ad-storri-einkavaedingu-en-vandinn-er-nanast-ovidradanlegur/

http://jama.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=1710486

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/07/18/einkarekstur-einkavaeding-og-einkamalin-i-heilbrigdiskerfinu/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/07/16/mikill-einkarekstur-i-heilbrigdiskerfinu-og-verri-lydheilsa/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/07/14/einkavaeding-heilbrigdiskerfisins-i-bretlandi-ur-oskunni-i-eldinn/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn