Fimmtudagur 21.05.2015 - 10:27 - FB ummæli ()

Van

Van-kastali

Van kastalinn, byggður 900-700 árum fyrir Krist (myndir vaa, júlí 2014)

Í ferð okkar hjóna sl. sumar til norðausturhluta Tyrklands og sem ég hef greint frá í fyrri pistlum, upplifði ég og íslenska samferðafólkið ekki bara tignarlegt landslag, stundum ótrúlega líkt því sem við þekkjum á Íslandi, heldur vítt bil í mannkynssögunni. Þúsund ár gátu skilið á milli einstakra staða, og þar sem fornminjarnar og byggingar voru allt að 3000 ára gamlar. Þegar stórt var byggt var stórt hugsað. Umhugsunarvert þegar við hugsum um rúmlega þúsund ára sögu Íslandsbyggðar og vanhugsuð opinber byggingaráform nú og sem reiknað er með að endst jafnvel aðeins í tvo áratugi vegna þröngsýni í arkitektur og skipulagsmálum höfuðborgar og ríkis.

 

van fáni

Ramadan og  Van kastali við borgina Van  (júlí 2014)

Á öðrum degi ferðarinnar til Tyrklands og sama dag og flogið hafði verið frá Istanbúl til borgarinnar Van (sem var mikið í heimsfréttum 2011 vegna slæms jarðskjálfta), var ekið rakleiðis á einn slíkan fornan stað, til Vankastala sem var reistur á árunum 900-700 fyrir Krist, á tímabili sem kennt er við Urartu konungsveldið. Nafnið Urartu var tekið upp af assýriska konungnum Shalmaneser I (1263–1234 BC) og landsvæðið allt sem nú nær inn til næstu landa kallað Uruatri. Sögutímabil Urartu konungsdæmisins er vel þess virði að velta aðeins fyrir sér og sem tengist sögum úr gamla testamentinu, m.a. með tilvísunum úr Jeremiah bók um samtal við Guð um landvinninga ólíkra trúarhópa og hvernig hann hafi ráðlagt að bregðast við. „Þeir munu ráðast á ykkur, en þið eigið ekki að yfirbugast“ og eins um hið „gamla guðdómlega land“ sem margir telja hafa verið Gamla konungsveldið Ararat. Um þannig landvinninga trúarhópa fornkristninnar og síðari aðskilnað kristni og íslamstrúar.

van kastali

Van kastali (júlí 2014)

Talið er að Urartu þýði í beinni þýðingu, Konungsveldi Ararats (Kingdom of Ararat) og sem Kúrdar nefna nú líka sama nafni í sjálfstæðisbaráttu sinni á svæðinu í Tyrklandi og aðliggjandi löndunum. Fjallið Ararat er aðeins í um 120 km fjarlægð norður frá vatninu Van og langstærsta fjallið í þessum heimshluta (5.200 m). Með jökli á toppinum sem víða blasir við. Þangað var ferðinni einmitt heitið nokkrum dögum síðar og sem svo sannarlega geislaði af, sumir hefðu sagt „guðdómlegri“ birtu langt að og sem fékk hjartað til að slá hraðar.

Sjálfur kastalinn Van er að stórum hluta grafinn inn í mjúgt bergið og klettanna eins og víða var byggingarstíll Uratumanna í Iran og Armeníu þess tíma og sem síðan var hlaðin upp með steinveggjum sem einskonar virki. Frjáls aðgangur var að öllu svæðinu fyrir okkur Íslendingana á lokadegi Ramadan tímabilsins í lok júlí og fáir aðrir á ferð. Flest annað lokað og víða flaggað í hálfa stöng.

van

Stöðuvatnið Van (júlí 2014)

Um tveimur öldum eftir að kastalinn hafði verið reistur náðu persar frá Íran yfiráðum yfir svæðinu og þar sem keisarinn, Xerxes hinn mikli lét meðal annars rista eftirmæli eftir sig á risastóra steintöflu í bergið á 5. öld fyrir Krist rétt fyrir utan kastalann fyrir alþýðuna á þremur tungumálum, forn persnesku, babylonisku og elamite. Steintaflan er ótrúlega vel varðveitt og læsileg ennþá daginn í dag undir berum himninum sem skilið getur þessi fornu tungumál. Einskonar „mósesbók“ þeirra tíma og sem rekja má frá menningu Achaemenid konungsvldisins í Íran aldirnar áður. Þar stendur m.a.: „Ahuramazda er mesti guðinn, guð guðanna sem skapaði himininn og landið og mennina. Sem gerði mig Xerxes konung að konungi konunganna, tungumálanna og allra landa.“ En saga segir að þetta hafi ekki verið guðinn okkar og sem við fengum staðfest betur með heimsókninni til „mekka“ kristinnar í þessum heimshluta, Borg 1001 kirkju, í Ani og sem byggðist upp tæpl. 2000 árum síðar, eða rétt fyrir árið 1000 eftir Krist.

 

ararat

Áleiðis til Ararat eftir dvöl við Van vatnið (júlí 2014)

Við dvöldumst í virkinu í um það bil 2 klukkustundir, réttar sagt gengum um utandyra og nutum útsýnis yfir borgina Van, stöðuvatnið og fjallanna í kring. Eftir þessa heimsókn var síðan keyrt suðuraustur með stöðuvatninu Van með siglingu síðan til ekki síður merkilegs staðar, eyjarinnar Akdamar og sem þegar hefur verið greint frá í öðrum pistli. Ógleymanlegar heimsóknir í norðausturhluta Tyrklands á aðeins 8 dögum, meðal annars til að skoaða allt að 3000 ára gamlar fornminjar og síðan göngu á enn eldri söguslóðir og þar sem sumir telja að finna megi leifar arkarinnar hans Nóa. Segja má að tíminn hafi þannig verið mjög afstæður í Tyrklandsferðinni okkar sl. sumar, en heimsmyndin mín er a.m.k. allt önnur nú en áður.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn