Þriðjudagur 06.10.2015 - 13:12 - FB ummæli ()

Aðeins um aðgengi og öryggismál Nýja Landspítalans

áskorun

Allt virðist stefna í framkvæmdir á Nýjum Landspítala við Hringbraut, ákvörðun stjórnvalda sem vægast sagt hefur verið mikið gagnrýnd að undanförnu m.a. af Samtökum um Betri spítala á betri stað (SBSBS). Aðeins er beðið um endurskoðun á staðarvalinu áður en sjálfar framkvæmdirnar hefjast á næstu vikum. Að öll nauðsynleg matsgöng á ákvörðuninni liggi skýr fyrir en sem ekki virðist hafa mátt ræða opinberlega og sem boðað málþing um staðarvalið ber vel með sér 13. okt. nk. og marka má af frummælendalistanum. Ég kemst þó ekki hjá því að minnast nú á nokkur gagnstæð sjónarmið sem ekki hafa verið rædd á þeim vettvangi. Ekki um hvernig undirbúningi hefur verið slælega háttað sl. áratug og sem kostað hefur hátt í 10 milljarða króna með hugsanlegum hagsmunatengslum ríkis og borgar við verktaka og fleiri aðila. Ekki þá gríðarlegu fjármuni sem fara í súginn (80-100 milljarða króna) og staðarvalið nú stenst ekki kröfur í náinni framtíð og byggja þarf allt upp á nýtt á betri stað. Ekki heldur að nýbyggingaframkvæmdirnar sem nú eru fyrirhugaðar (80.000 fm2) með bútasaum og miklum kostnaði við endurbyggingu á gamla húsnæðinu (60.000 fm2) kosti meira en að byggja nýjan spítala frá grunni á betri stað (140.000 fm2).

Ekki um þrengslin og gamaldags hönnun tengibygginga við nýjan meðferðarkjarna og gamla Landspítalann, þ.e. aðliggjandi deildir í yfir 40 húsum. Ekki að sumar deildir eins og t.d. kvennadeild, barnadeild og geðdeild gleymdust og að hin mannlegu gildi í auknu rými innan- sem utanhúss fyrir sjúklinga og aðstanendur séu látin víkja fyrir nútímalegri hönnun og gert er ráð fyrir meðal nágrannaþjóðanna. Ekki allt ónæði á núverandi starfsemi sem skapast með framkvæmdunum næstu árin og á sama tíma og aðrar stórframkvæmdir verða einnig í næsta nágrenni í miðbænum. Bygging stærsta hótel landsins í Vatnsmýrinni, Landsbankahallar og Marriotshótels á Hörpureitnum, auk uppbyggingar á Háskólareitnum og íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni allri, auk annarra hótelbygginga í miðbænum. Nei, það sem ég vil gera hér að sérstöku umræðuefni að gefnu tilefni eru AÐGENGISHINDRANIR á þjóðarsjúkrahúsinu okkar fyrir almenna sjúkraflutninga, sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk á stærsta vinnustað landsins. Um alla ofangreinda þætti hef ég hins vegar skrifað um í fyrri pistlum mínum áður og sem lesa má einnig um á fésbókarsíðu SBSBS.

Allir vita hvernig samgöngum er háttað vestur í miðbæ Reykjavíkur á annatímum í dag. Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á samgöngukerfinu, nema ef vera skyldi hjólreiðarstígum og sem yfirstjórn spítalans treystir á þegar þeir vitna í eldri könnun sem segir að meirihluti starfsmann spítalans búi í göngu eða hjólafæri við spítalann!! Búist er auk þess við mikilli fjölgun ferðamanna næstu árin. Ef búast má við fjölda ferðamanna um 2 milljónir á ársgrundvelli og að hver ferðamaður staldri við í viku að meðaltali, samsvarar það auknum íbúafjölda um 30 -40 þúsund og sem líka þarf heilbrigðisþjónustu. Við starfsmenn LSH höfum þegar svo sannarlega séð aukna þjónustuþörf meðal eldriborgaranna á skemmtiferðaskipunum í sumar. Einnig eftir mikilla aukningu umferðaslysa úti á landi og þar sem útlendingar koma við sögu í meira en helming tilfella alvarlegustu slysanna. Erfitt er að sjá hvernig starfseminni verður háttað á Hringbrautinni í framtíðinni þar sem stækkunarmöguleikar eru þegar mjög takmarkaðir vegna þrengsla. Nú þegar nýbúið að úthluta m.a. áður fráteknu svæði fyrir spítalann undir nýtt hótel neðan Hringbrautar og sem mikið hefur verið í fréttum hvernig staðið var að.

Eitt af því sem ekki hefur heldur fengið umfjöllun sl. ár (við Hringbrautaráætlunina) er öryggi sjúkraflutninganna, sérstaklega með þyrluflugi og sem skiptir sennilega Íslendinga meiru máli en flestar aðrar þjóðir, af landinu öllu og miðunum umhverfis. Ég er reyndar ekki flugmenntaður, en hef starfað í yfir 30 ár á Bráðamóttöku LSH. Í raun nokkrum árum áður en þyrlulendingaraðstaðan var hönnuð við gamla góða Borgarspítalann. Öll þessi ár og í misslæmum veðrum hafa þyrlulæknarnir talað um öryggið að hafa plan B til lendingar á túnunum þar í kring. Við venjuleg skilyrði lendir reyndar þyrlan eins og býfluga beint ofan á þyrlupallinn, en við verstu skilyrði og sérstaklega ef vélarbilun verður (annar mótor fer í 2 mótara þyrlu), þarf þyrlan að hafa aðgang að opnu svæði í aðflugs/fráflugsstefnu.Því hærri sem þyrlupallur er fyrirhugaður á byggingum erlendis, því lengra frá getur hinsvegar neyðarsvæðið verið (opið svæði). Þyrluflug er a.ö.l. mjög öruggur flutningsmáti slasaðra af slysstað, en oftast er aðeins er um eina heimkomuáætlun er að ræða, nú í framtíðinni á þyrlupall á þaki 5 hæðar Nýja spítalans í Þingholtunum eða nærliggjandi flugvelli á höfuðborgarsvæðinu? Ófullkomin aðstaða til lendingar á sjúkrahúsi skapar líka mikið óöryggi áhafnar, sjúklinga og nærliggjandi spítaladeilda. 

Ef Reykjavíkurflugvöllur fer (neyðarbrautin svokallaða sem er næst spítalalóðinni svo gott sem farin nú þegar) er væntanlega ekkert plan B til, nema ef vera skyldi á Hringbrautinni sjálf. „Neyðarbrautin“ er þannig ekki bara hugarburður minn eins og sumir halda, heldur svæði sem flugmaðurinn vill vita af sem neyðarúrræði til lendingar í stöðugu þyrluflugi til spítalans og sem á eftir að fjölga mikið. Ég hef engar úttektir  fengið á þessum öryggisatriðum þrátt fyrir 5 ára umræðu og sem margir kollegar mínir furða sig á, eins og reyndar svo mörgu tengt þessu máli öllu saman. Hef reyndar ekki heldur heyrt mikið frá íbúasamtökum í grenndinni og þaðan af síður frá borgaryfirvöldum sem heldur spítalanum nú sem næst í gíslingu og sem vill auk þess allar flugbrautir burt sem fyrst, til að byggja meira í miðbænum. 

Allt sem Samtökin Betri spítali á betri stað fer fram á nú er að Alþingi taki áskorun um óháða endurskoðun á staðarvali Nýja Landspítalans við Hringbraut áður en það verður of seint og þá hugsanlega í framhaldinu ákvörðun um langtímafjármögnun betri og nútímalegri spítala á opnu og rúmgóðu svæði. Framkvæmd sem tekur mikið skemmri tíma og kostar auk þess minna en fyrirhugaðar áætlanir á Hringbraut nú. Þar sem aðgengi yrði tryggt fyrir alla hlutaðeigandi sem og ásættanlegur aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks í framtíðinni.

image

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn