Allt snýst um peninga er einhvers staðar sagt og vissulega á það aldrei betur við en þegar reynt er að snúa tölum á haus til að fá sitt fram gegn betri vitund og sem nú á sér stað með dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar, Nýjan Landspítala við Hringbraut og ég hef oft skrifað um áður. Þegar beita á smjörklípuaðferðinni og bútasaum málinu til framgangs í stað nauðsynlegra skynsamlegra og raunhæfra fjárlaga. Þegar framkvæmdin verður síðan að lokum miklu dýrari og óhagkvæmari en þurfti að vera og byrja þarf jafnvel allt upp á nýtt. Mesta skömmin að þetta þurf að snúast um framtíðarskipan þjóðarsjúkrahúsins okkar allra nú, en ekki gæluverkefni stjórnmálamannanna eins og oft vill vera og við höfum mörg dæmi um að gangi afar illa í dag.
Þegar byggja þarf 140.000 fm2 spítala, hvar sem hann kann svo að vera staðsettur, er mikilvægast að átta sig á raunverulegu fermetraverði, í nýbyggingakostnaði og raunhæfum endurbyggingakostnaði eldra húsnæðis þegar það á við. Í Evrópu er nýbyggingakostnaður spítala almennt reiknaður frá 500.000 – 1.000.000 krónur á fm2 og endurbyggingakostnaður allt að sá sami eða hærri og sem fer auðvitað eftir hvað þarf að breyta miklu og ástandi húsnæðisins fyrir. Meta þarf bútasaumsmódel sem oftast er gert eingöngu þá til að varðveita menningarverðmæti gamalla húsa.
Varðandi nýjar kostnaðaráætlanir á byggingaframkvæmdunum nú við Nýjan Landspítalann á Hringbraut, óháð öllu óhagræðinu við að byggja í miðbænum á þröngri lóðinni jafnhliða mjög viðkvæmri starfsemi sem þar er rekin, svokölluðum Kosti 2 og sem er endurnýting á um 60.000 fm2 gamals húsnæðis og 80.000 fm2 í nýbyggingum, hafa verið lagðar fram tvær skýrslur. Önnur er frá Hagfræðistofnun HÍ (HHÍ) og hin frá KPMG endurskoðun. Ef rýnt er í forsendur nýbyggingakostnaðar og endurnýjunarkostnaðar per fm2 sem þessir aðilar gáfu sér, er auðvelt að skila muninn á heildarkostnaðinum sem var um 87 milljarðar króna hjá HHÍ og 47.6 milljarðar króna hjá KPMG. Samtökin um betri spítala á betri stað (SBSBS) létu líka vinna fyrir sig skýrslu um kostnaðarmun á að byggja á hugsanlega besta stað samanborið við framkvæmdirnar nú við Hringbraut og sem var yfirfarin os samþykkt líka af KPMG. Niðurstaða þeirrar skýrslu tók fyrst og fremst tilliti til hagkvæmnisáhrifa til lengri tíma og söluverðmæti eldri eigna. Munurinn var að allt að helming hagstæðara væri að byggja á besta stað .
Samsvarandi byggingamagn á nýjum hátæknispítala í Hilleröd á Norður-Sjálandi í Danmörku og sem er ní í byggingu (2015-2020) og þar sem hvergi er til sparað í gæðum, er um 80 milljarðar ísl. króna (um 650.000 krónur per fm2) og sem gott er að hafa til viðmiðs í þessum útreikningum hér heima . Í HHÍ skýrslunni var nýbyggingakostnaður 750.000 krónur per fm2 en aðeins 550.000 krónur í KPMG skýrslunni. Að sama skapi var endurnýjunarkostnaður 250.000 krónur á fm2 í HHÍ skýrslunni, en aðeins 110.000 í KPMG skýrslunni.
Munurinn þarna á milli er nánast helmingur fyrir sömu framkvæmd. HHÍ skýrslan er vönduð skýrsla sem tók fleiri mánuði að vinna og sem var tilbúin þegar í sept. 2014. Henni var hins vegar haldið leyndri vegna niðurstöðu um allt of háan kostnað á Kosti 2 og sem átti alltaf að vera sparileiðin (bútasaumsleiðin) frá árinu 2009. Eftir að umræðan fór í gang hjá SBSBS var HHÍ skýrslan loks birt í sumar. Í mótsvari síðan við háum kostnaði við bútasauminn pantaði Heilbrigðisráðuneytið aðra skýrslu í snarhasti. Hún var unnin á nokkrum dögum og sem gaf allt aðra niðurstöðu en HHÍ skýrslan. Þeir sem skrifuðu KPMG skýrsluna nýju vöruðu við að hún væri ekki áreiðanleg gagnvart heildarkostnaði og miðaði aðeins við þær forsendur sem ráðuneytið gaf fyrirtækinu að vinna úr!!.
Miðað við kostnaðaráætlun byggingaráformanna nú við Hringbraut samkvæmt HHÍ skýrslunni og kostnaðs samsvarandi byggingarmagns í nýjum og fullkomnum spítala sem er nú í byggingu í Danmörku (Hilleröd 2015-2020) má vel ætla að hægt sé byggja nýjan og fullkomin spítala á betri stað á höfuðborgarsvæðinu fyrir um 80 milljarða króna. Sala á gömlum eignum á Hringbrautarlóð og í Fossvogi upp á 10-20 milljarða króna dregst síðan frá upphæðinni. Auk þess tugmilljarðar í hagræðisáhrifum til lengri tíma litið og SBSBS hefur sýnt fram á, a.m.k. að stórum hluta. Meðal annars með möguleikum á miklu meiri byggingarhraða á opnu svæði í stærri einingum (hagkvæmari byggingarmáta), miklu betra aðgengi fyrir alla höfuðborgabúa, styttri akstursleiðir og minni mengun. Meira öryggi í sjúkraflutningum með bílum og þyrlum. Meiri möguleikum varðandi stækkunarmöguleika og sem allt stefnir í að þurfi miðað við hratt vaxandi ferðamannafjölda til landsins. Minni kostnaður í nauðsynlegum umferðarmannvirkjum og minni mengunaráhrif. Síðast og ekki síst manneskjulegra spítalaumhverfi fyrir sjúklinga og starfsfólk og sem skapar hraðari bata sjúklinga og ánægjulegra starfsumhverfi. Þátta sem nú er einnig litið fram hjá næsta áratuginn við framkvæmdir á Hringbraut til ársins 2023 og þegar þeim á loks að vera hugsanlega lokið.