Fimmtudagur 15.10.2015 - 15:52 - FB ummæli ()

Tattoomenningin – allt fyrir ímyndina, en ekki heilsuna

Húðberklar með húðflúri í New York.

Gríðarleg aukning hefur orðið í að ungt fólk fái sér húðflúr hér á landi eins og annars staðar í hinum vestræna heimi og sem nálgast að fjórði hver fullorðinn einstaklingur sé með húðfúr ef marka má erlendar kannanir. Ætla má að tíðnin sé allt að 80% meðal ungs fólks auk þess sem húðflúrin ná yfir sífellt stærri hluta líkamans. Líta má húðflúrstískuna sem menningartákn 21. aldarinnar og þar sem jafnvel tugprósent yfirborðs líkamans er flúrað með varanlegum litarefnum, en sem því miður standast ekki neinar heilbrigðiskröfur og sem gerðar eru til lyfja eða lækningavara. Litir og áhöld til húðflúrsgerðar þannig innflutt til landsins án eftirlits með hjálp internetsins. Litir sem við vitum að geta innihaldið óhreint vatn, sýkla, sveppi, þungmálma og önnur eiturefni. Allskonar framandi efni og jafnvel sóttkveikjur sem sitja mun ævilangt í húð og vessum þess sem ber.

Sterk tengsl eru á milli húðflúrsgerðar, félagslegs þrýstings, kynímyndar og tískustrauma. Eins hvernig yngri kynslóðirnar vilja marka sína sérstöðu á ystu nöf, hvað sem um alla almenna skynsemi og hollustu má segja og við sem eldri erum látum óátalið. Hefðir sem jafnvel hafa verið teknar upp frá frumbyggjum í fjarlægum heimsálfum af hentisemi, en sem tengist upphaflega ævafornri menningu og trú. Hefðir annarra sem við virðumst getað afbakað og túlkað að vild og sem hafa harslað sér völd sem nýtt listform. Listahátíðar jafnvel haldnar af því tilefni og sem fjölmiðlar eltast eftir.

eitill

Rauður tattoo-litur í eitli á Íslandi

Læknar hafa hins vegar lengi varað við húðflúrinu af ýmsum heilsufarsástæðum. Erfitt eða ómögulegt getur verið að fjarlægja illa farin listaverkin síðar og þegar angist og eftirsjái nagar orðið inn að beini. Kannanir sýna að um fjórðungur er óánægður með listaverkið strax á eftir og um 15% sér eftir framkvæmdinni alfarið. Oft vaknar hins vegar ákveðin fíkn hjá viðkomandi að halda frekar áfram og bæta við fleiri myndum, jafnvel að lokum yfir meiripart líkamans og sem er þá orðinn oft eins og eitt stórt misheppnað veggteppi. Enginn segir þó fullum fetum að „listaverkin“ séu ekki oft vel unnin í byrjun, myndirnar jafnvel skoplegar og sem fá mann til að brosa út í annað. Myndir og textar sem tengjast tilfinningum þeirra sem bera, en sem geta engu að síður breytst með tímanum. Óhreinindin við húðflúrsaðgerðina sjálfa, með litunum og hugsanlega húðflúrsnálum er þó það sem flestir hafa mestar áhyggjur af. Litir þar sem sumir geta verið skaðlegri en aðrir vegna eituráhrifa og sem innihalda t.d blý (svarti liturinn) eða kopar (rauði liturinn) og ýmiss hugsanleg krabbameinsvaldandi efni (svo sem polycyclic aromatic hydrocarbons (PAHs)).

Í vikunni voru fréttir um að Danir vildu lögbinda starfsleyfi húðflúrara til að tryggja betur hreinlæti og gæði. Húðsjúkdómalæknar sjá hins vegar flest tilfelli þrálátra bólgubreytinga í húð og t.d. ef húðflúrað hefur verið of djúpt í leðrið eða slæmir litir notaðir. Litir sem margir voru upphaflega framleiddir fyrir blekhylki og blekprentara en ekki í húð á fólki og sem veldur snemmbúnum ofnæmisviðbrögðum hjá allt að þriðjungi húðflúrsþega. Málmefnin, blý og kopar geta einnig truflað myndgæði nauðsynlegra segulómskoðana síðar og bruna í húð við leit að hættulegum meinum eins og gengur, ekki síst í höfði. Þá er að lokum ótalin tilvik á höfunarviðbrögðum líkamans sjálfs með örmyndunum og  eins eftir lasermeðferð þegar reynt hefur verið að eyða húðflúrinu með að bræða litarefnin upp.

Í grein sem birtist í læknatímariti NEJM fyrir 3 árum og unnin var af bandaríska landlæknisembættinu (CDC), voru rakin tugir smittilfella húðberkla vegna húðflúrs í New York.  Sýkingarnar urðu í húð með gráu litarefni sem notað var til húðflúrs. Ósótthreinsað vatn sem notað var til að þynna litina er helst kennt um, en sýkingarnar mátti alls rekja til a.m.k. 4 framleiðenda og sem upphaflega höfðu komið frá Suður-Ameríku. Bakterían Mycobacterium chelonae er skyld berklabakteríunni olli ljótum þrálátum sýkingum í húð og sem gekk illa að meðhöndla (sjá mynd að ofan) með sýklalyfjum, auk hættu á útbreiddari sýkingum um allan líkamann. Bandaríska landlæknisembættið og lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA) vildu í framhaldinu auka kröfur um innflutning og framleiðslu litarefna til húðflúrsnotkunar og sem hingað til hafa aðeins fallið undir regluverk snyrtivara.

Ekki má þó gleyma öllum venjulegu húðsýkingingunum strax eftir flúrið, eins og sannaðist eftirminnilega eftir Reykjavíkurmerkið á upphandlegg þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur fyrir nokkrum árum. Sýkingar sem oftast miklu auðveldara að meðhöndla en alvarlegustu veirusýkingarnar sem jafnvel engin lyf eru til gegn og sem smitast geta með litunum, nálunum eða jafnve tattoo-vélunum og sem oft erfitt er að sótthreinsa. Kaflinn, Fingurmein, í alþýðuritinu Eir frá aldarmótunum 1900, var áminning um algenga sjúkdóma í þá daga, slys og sýkingar sem gat verið erfitt að fást við og þar sem fræðslan var mikilvægust, m.a. um almennt hreinlæti. Eitt af litlu vandamálunum í dag hins vegar og þar sem við treystum endalaust á sýklalyf sem lausn allra mála, en sem eru jafnvel hætt að virka vegna ofnotkunar. 

Algengasta vandamálið tengt húðflúri í dag nær hins vegar til helmings húðflúrsbera og þegar og ef skömmin fer að segja til sín síðar og fólk vill láta fjarlægja „listaverkin“. Flóknar aðgerðir þá með laser eða jafnvel skurðaðgerðum og sem reynast bæði dýrar og erfiðar. Framtíðin ein sker nú úr um hvort fylgikvillar húðflúrs til lengri tíma litið á Íslandi uppfylli skilgreiningu á nýjum alvarlegum lýðheilsuvanda. Hvernig væri því að að fara að að ráðum Dana og sem ræða nú hvort ekki eigi að lögbinda starfsleyfi húðflúrara. Svona rétt til að lágmarka aðeins áhættu tugþúsunda Íslendinga í framtíðinni á sjúkdómum tengdu eins mikilvægasta líffærakerfis okkar og öldin er allt önnur en hún var áður varðandi yfirborð húðar.

(Unnið að hluta upp úr fyrri greinum frá 2012 m.a. „Húð, flúr, fár og tár“.)

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/09/hudflurslitur_finnst_i_eitlum/

http://www.vancouversun.com/touch/story.html?id=11122918

http://ruv.is/frett/margir-danir-thjast-vegna-hudflursmistaka

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn