Fimmtudagur 18.02.2016 - 20:23 - FB ummæli ()

Verstu martraðirnar II

toxinÍ tilefni af umræðu dagsins um frjálsan innflutning á hráu kjöti erlendis frá til landsins í kjöflar nýlegs EFTA dómsúrskurðar þar að lútandi að ósk innflytjenda, síðasta pistli sem og nýlegu viðtali við mig í Bændablaðinu um mikla áhættu á m.a. útbreiðslu sýklalyfjaónæmra klasakokka (svokallaða samfélagsmósa) í flóru landsmanna og nýlegu viðtali í sama balði við Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði LSH um mikla sýklalyfjanotkun í landbúnaði erlendis sem leitt hefur m.a. til hratt vaxandi þróunar fjölsýklalyfjaónæmra E.coli auk matareitrunarbaktería (salmónellu og kampýlobakter), endurbirti ég tæplega 5 ára pistil og sem á orðið mikið meira við í dag en þá. Illa fegnið kjöt með óvissum uppruna í Evrópu hefur þar að auki endurtrekið verið í fréttum sl. ár og sem gerir óstöðugleikann í þessum málum enn sýnilegri fyrir almenning og stjórnmálamenn sem taka þarf afstöðu til lýðheilusmarkmiðanna okkar og sérstöðu íslensks landsbúnaðar hingað til.

Stundum er lífið sjálft eins og besta skáldsaga. Tveir amerískir læknar hafa gerst þekktir spennusagnarithöfundar og nýta sér þar vel læknisþekkinguna, ekki síst í  samskiptum við lyfja- og matvælaiðnaðinn. Sumar sögurnar eru lýginni líkust og mjög í anda vísindaskáldsagna þar sem ímyndunaraflinu er gefinn laus taumurinn, á meðan aðrar eru eins og verstu martraðir tengdar veikindum og óheppni í vafasömum heilbrigðiskerfum. Meðal annars oft raunsæ lýsing á því hvað getur gerst. Frægastur er sennilega Michael Crichton heitinn sem skrifaði meðal annars Jurasic Park, en Robin Cook er annar góður læknismenntaður rithöfundur sem hefur gefið út margar bækur og sem ég hef lesið nokkrar eftir m.a. Godplayer, Coma og síðast en ekki síst Toxin (1998) sem ég vil staldra nu við, enda bókin að mörgu leiti eins og kennslubók hvernig faraldur matareitrunar vegna fölsunar og nú geisar í Evrópu getur komið upp. Eins hve erfitt getur verið að finna upptökin þegar allir hagsmunaaðilar verja sinn hlut með kjafti og klóm og hversu alvarleg hún getur orðið þegar lífi manna er fórnað, ekki síst ungra barna. Að minnsta kosti gat ég ekki borðað hamborgara í mörg ár á eftir í Bandaríkjunum eftir að hafa lesið söguna og verð reyndar oft hugsað til hennar þegar ég fæ mér hamborgara hér heima, jafnvel þegar ég grilla þá sjálfur.

Saurgerillinn Escherichia coli (E. coli, af stofni O157:H7) lék aðalhlutverk í skáldsögunni Toxin ásamt lækninum og ungri dóttur sem létst af völdum matareitrunar eftir að hafa neytt hamborgara á skyndibitastað. Sýkilinn er mjög vel þekktur í Bandaríkjunum og víðar og þrífst best í saurmenguðu nautgripakjöti sem og öðru kjöti og jafnvel grænmeti. Uppsprettan er þó fyrst og fremst rakin til sóðaskaps við slátrun, þar sem kjötið er upprunalega unnið, hversu gamalt kjötið er þegar það fer í kælingu og hversu hreint vatn er notað við skolun. Nokkuð sem ber líka að hafa í huga hér á landi þar þegar slátrað er heima á bæ og smit getur alltaf borist frá okkur sjálfum.

Matareitrunarfaraldurinn nú í Evrópu og sem náð hefur til 11 landa, nú síðast til Svíþjóðar, er líka af völdum E. coli. Hann er reyndar af öðrum stofni, E. coli O104:H4 sem átti upptök sín í Þýskalandi fyrir aðeins nokkrum vikum. Vitað er síðan um yfir 2000 tilfelli veikra, þar af 520 tilfelli þar sem veikindin voru alvarleg og ollu nýrnabilun og síðan dauða 30 einstaklinga. Á annað hundrað manns er síðan með varanlegar líffæraskemmdir. Ung börn og gamalt fólk fara verst út úr sýkingunum, jafnvel nýrnabilun eftir aðeins nokkra daga veikindi. Allt þetta er rakið til eiturs sem sýkilinn gefur frá sér (toxin) og sem veldur hemolytic uremic syndrome (HUS)). Sýkingin einkennist annars í byrjun fyrst og fremst af blóðugum niðurgangi og oft krampakenndum magaverkum og uppköstum. Nýlga varaði bandaríska landlæknisembættið ameríska ferðamenn við þessari sýkingu sem þeir kalla „Super-Toxic bug„, sérstaklega ef þeir hyggðust ferðast til og frá Evrópu og sem eru í þokkabót fjölónæmir fyrir sýklalyfjum.

Á sama tíma berast fréttir af slæmri meðferð nautgripa við slátrun í Indónesíu svo sum ríki eins og Ástralía hafa hætt innflutningi á kjöti þaðan meðan forseti Indónesíu hefur fyrirskipað að sláturhús í landinu sæti rannsókn af dýraverndarsjónarmiðum. Alveg eins og í skáldsöginni góðu, Toxin, þar sem saman fór sóðaskapur og slóðaskapur ásamt illri meðferð dýra við sláturn í sjálfri Ameríku. Hvernig er hægt að ætlast til að þeir hinir sömu og sem bera ábyrgð á slæmri meðferð dýra séu ábyrgir fyrir hreinlæti og séu yfir höfuð treystandi til matvælaframleiðslu fyrir okkur mennina. Ekki síst þar sem saurgerlar koma við sögu og hreinlæti er alltaf lykilatriðið.

Í dag er víða í heiminum meira notað af sýklalyfjum til að halda dýrunum á lífi fyrir slátrun en notað er til að bjarga fólki frá sýkingum og sem er ein af megnin ástæðum hratt vaxandi sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda mannanna. Lyfjasóðaskapur ef svo má segja. Nýlega hafa borist fréttir frá Bretlandi þar sem bændur bera svokallaða MÓSA , penicillínónæmir klasakokkar sem valda m.a. algengustu sárasýkingum hjá okkur mönnunum. Bakteríur og stofnar sem þrífast sérstklega vel á nautgripum sem fá mikið af sýklalyfjum. Fyrir nokkrum árum sýndi líka dönsk rannsókn að um 20% danskra svínabænda báru MÓSA frá svínunum í nefi (30-80% í dag). Svín ofalin á sýklalyfjum í fóðri til að hámarka kjötframleiðsluna. Vandamál sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur tengjast eini af mestu heilsuógnum okkar mannanna í náinni framtíð.

Í dag virðist sem tilfellum fari fækkandi í Þýskalandi og vonandi er búið að ná tökum á ástandinu. Búið er samt að eyðileggja mikið fyrir garðyrkjubændum á Spáni enda smitið í upphafi rakið fyrir misskilning til spænskra gúrkna og sem voru fluttar inn til Þýskalands. Síðar bárust böndin í upprunanum reyndar til jarðbaunaræktar í Mið-Evrópu. Ekki má þó gleyma þeim landlæga fjanda sem E.coli gerillinn er, sérstaklega stofn O157 víða í heiminum og sem þrífst hvað best í hráu og gömlu stórgripakjöti. Hreinlæti og upprunavottun á öllum stigum það mikilvægasta. Síðan heima hjá okkur sjálfum og munum að elda kjötið vel og að hitastigið fari að minnsta kosti upp fyrir 72° C í grillsteikinni.

Taka skal fram að lokum, okkur til til smá hughreystingar, aðsýkillinn E. coli O157 hefur ekki ræktast úr íslenskum nautgripum nýlega. Stöku sinnum hafa komið upp sýkingar í fólki hér á landi án þess að skýring hafi fundist. Síðasta dæmið um sýkingar í fólki var sumarið 2010 en þá tilkynnti embætti sóttvarnalæknis um tvö tilfelli af völdum bakteríunnar. Ekki tókst að finna uppruna þeirra sýkinga. Við þurfum engu að síður að vera stöðugt á verði, enda erum við sífellt á ferð og flugi og útlendingarnir streyma til landsins sem aldrei fyrr. Okkur til bjargar er þó kalda veðráttan þrátt fyrir allt og nóg af hreinu vatni. Fátt er svo með öllu illt, að ei boðar gott. Þannig lít ég að minnsta kosti á mínar martraðir, meðan þær eru bara martraðir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn