Föstudagur 04.03.2016 - 09:14 - FB ummæli ()

Heilagri en sjálfur páfinn í forvörnum gegn reyktóbaki

sigarettur_stor_120216Samkvæmt nýjustu tölum reykja enn 10% fullorðinna á Íslandi og sem sennilega má teljast harðasti kjarninn. Töluverð umræða hefur verið um rafretturnar og sitt sýnist hverjum um þær þótt rannsóknir sýni að ekkert auðveldi tóbaksreykingamanneskjunni jafn auðveldlega að hætta reykingum og þær. Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir hefur skrifað töluvert um þær á Vísi að undanförnu og þar sem til stendur að setja í lög heft aðgengi að rafrettum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins (EU). Tóbaksreykurinn leggur hins vegar um 60% reykingamanna að velli fyrir aldur fram og því til mikils að vinna. Lífhættulegt athæfi og reykur og sem leggur mikinn kostnað á heilbrigðiskerfið að lokum.

Skaðsemi rafretta hefur ekki enn tekist að sanna og þótt enn ótímabært að fullyrða að þær séu með öllu skaðlausar til lengri tíma. Annarsvegar er verið að tala um neyslu á nikótíni með bruna á tóbaksblöðum og pappír og hinsvegar nær eingöngu með vatnsgufu með bragsefnum. Skaðsemi sjálfs nikótíns er með öllu óvíst, þótt vissulega valdi það ákveðinni fíkn. Svipað mætti reyndar segja um koffein og að ekki sé talað um áfengið sem leitt getur til stjórnlausar hegðunar með drykkju, auk mikils heilsuskaða og slysahættu. Ekkert sem á við nikótínið og sem í sumum tilvikum getur komið í veg fyrir félagslega einangrun og þunglyndi. Jafnvel sem lyf sem nota má til að skerpa athyglisgáfu hjá einstaklingum með ofvirkni og athyglisbrest og til meðhöndlunar gegn elliglöpum hjá gömlu fólki.

Rannsóknir sýna reyndar að aðeins lítill hluti þeirra sem totta rafrettur ánetjast vananum og níkótíninu líkt og með reyktóbakið og sem er í raun gjörólík neysla. Í tóbaksreyk eru mörg hættuleg efni fyrir utan köfnunarefnissamböndin og kolmónoxid sem veldur meðal annars þeirri slævingu og höfga sem einkennir svokallaða vellíðan reykingamannsins sem hann sækist eftir. Vani sem verður að stórum hluta fíkn og sem nikótínskorturinn sannarlega getur líkað kallað fram. Hvortveggja, að fá sér tóbakssmók og að totta rafrettu er þó eða hefur verið ákveðin samfélagsleg athöfn sem fólk hefur getað hingað til látið eftir sér til að brjóta upp um stundarsakir hversdagsleikann. Aðrir fá sér kaffi, gosdrykk, misholl matvæli eða sælgæti. Allt sem í raun getur verið miklu skaðsamlegra en gufa með smá nikótíni (og bragðefnum).

Sjálfum finnst mér og öðrum umræðan litast af mikilli forræðishyggju og jafnvel þannig að þeir lærðustu seti sig í dómarasæti sjálfs páfans. Sænska snusið sem ekki hefur einu sinni verið hægt að tengja við krabbamein og sem vissulega tóbaksreykurinn gerir, hefur til að mynda haldið heilu kynslóðunum frá tóbaksreyk t.d. í Svíþjóð en bannað að selja hér á landi. Venja í Svíþjóð sem er svo fastbundin kúltúr og samfélagshefðum þar í landi að sjálft regluverk Evrópusambandsins (EU) hefur orðið að láta í minni pokann. Bannar þó snusið í öllum örðum löndum um leið og það leyfir t.d. nær óheftan aðgang að lausu tóbaki til notkunar í munn eða undir vör, svo ekki sé talað um reyktóbakið. Íslenski ruddinn (neftóbak sem er mest selt sem munntóbak) og sem leiðir frekar til óheftrar notkunar, enda engin stöðluð viðmið og framleiðsluaðferðir líka óstaðlaðar að mestu.  Tvískinnungshátturinn ríður þannig oft ekki við einteyming. Gamla neftóbakið þannig enn selt til yngri kynslóðarinnar til notkunar undir vör, jafnvel til notkunar með sprautum til að hægt sé að troða sem mestu undir vörina og upp undir kinn. Þannig stórvarasöm neysla m.t.t. ætingar á slímhúðum og tönnum og margfaldrar níkótínsneyslu miðað sænska snusið, þótt vissulega séum við laus við tóbaksreykinn hættulega niður í sjálf lungun.

Nútímamaðurinn verður aldrei laus við alla saklausa ljóta siði og vær nær að einbeita sér að þeim hættulegustu. Áfengi er til að mynda stórhættulegt efni sé þess neytt í óhófi og þar sem um 10% þjóðarinnar þarf að leita sér að lokum hjálapar vegna fíknivanda og sjálfseyðileggingar sinnar og fjölskyldunnar. Eitt mesta mein í nútíma samfélagi. Eiturlyfjaneysla hverskonar er auðvitað svo sýnu verri. Munntóbak í stöðluðu og vel kontroleruðu formi miðað við góðar framleiðsluaðferðir eins og sænska snusið, drepur sennilega engan og margir neytendur una nokkuð glaðir með sitt og láta jafnvel aðra ósiði lönd og leið, þar á meðal tóbaksreykinn.

Tott á rafrettum er sennilega það alsaklausasta af þessu öllu saman og sem engin vísindaleg eða heilsufarsleg rök mæla með að ætti að banna eða takmarka frekar en óhóflegt sælgætisát. Nær væri því að banna eða takmarka hvítan sykur í matvælum og sem sennilega á eftir að leggja fleiri að velli en sjálfur tóbaksreykurinn gerir í dag og nú horfir við með vaxandi ofþyngd þjóðarinnar. Verum a.m.k. ekki heilagri en páfinn og veitum umræðunni um tobaksvarnir í skynsamlegri farveg, sérstaklega gangvart unga fólkinu. Bætum allar forvarnir svo sem flestir geti verið án fíkniefna á eigin forsendum, hvaða nefni sem þau nefnast. Tryggjum gæðakröfurnar á sölumennskunni og á varningnum svo allir viti hvers þeir neyta (svipað og Svíar gera með snusið sitt). Forðumst að forvarnarstarf snúist gegn markmiðum sínum með öfugsnúinni forræðishyggju og nú má líka greina af umræðunni gegn rafrettum og sem hjálpar tóbaksreykingarmanninum hvað best að hætta lífshættulegri neyslu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn