Mánudagur 07.03.2016 - 12:02 - FB ummæli ()

Ef aðstæður leyfðu við Nýja Landspítalan við Hringbraut

image

Gestainnlegg frá Ásgeiri Snæ Vilhjálmssyni, lækni á Herlev í Kaupmannahöfn og Helsingborg í Svíþjóð).

Alþingi virðist ætla að hengslast á endurskoðun á fyrri ákvörðun á byggingaframkvæmdum Nýja Landspítalans á gömlu og þröngu Hringbrautarlóðinni (heildarnýbyggingamagn upp á um 81.000 fermetra). Sjálfur meðferðakjarninn er áætlaður um 60.000 fermetrar (áætlaður byggingarkostnaður um 35 milljarðar samkvæmt nýlegri KPMG endurskoðunarskýrslu). Í framhaldinu er gert ráð fyrir allskonar bútasaum og mikilli endurnýjun á 60.000 fermetrum á hálfónýtu húsnæði (endurbyggingakostnaður ásamt öðrum nýbyggingakostnaði um 40 milljarðar). Ennþá er tími til að breyta ákvörðuninni.

Nauðsynlegt er að líta til hvað nágrannaþjóðir gera í áþekkri stöðu. Oftast er valið að byggja frekar nýtt frá grunni á nýjum stað, nema góðar aðstæður leyfi á þeim eldri. Við hjá Samtökum um betri spítala á besta stað (SBSBS) höfum sl. ár bent á þessi atriði hvað varðar gömlu Landspítalalóðina. Bent hefur verið á að forða mætti íslensku þjóðinni frá sennilega mestu mistökum á dýrustu ríkisframkvæmd 21. aldarinnar og allt að 100 milljarða króna aukakostnaði þegar upp verður staðið í framtíðinni.

Það er af þessu tilefni fróðlegt fyrir alþjóð að kynna sér t.d.hugsanahátt Dana um þróun spítalaþjónustunnar og stækkun gamla spítalans í Herlev á allt öðrum og skynsamlegri forsendum en nú er gert á Hringbrautarlóðinni.

Eftir að Herlev sjúkrahús var valið til að verða svæðis-ofursjúkrahús (bráðasjúkrahús með fulla þjónustu allan sólarhringinn) var fljótt ljóst að það þyrfti að stækka. Það hefur eflaust skipt sköpum þegar Herlev sjúkrahúsið var valið að bæði er hann fyrir stór spítali, (sjöundi hæsti spítali í heiminum), göngudeildir lengi verið mjög öflugar og feyki nóg pláss er á lóðinni. Nú þurfti hins vegar að auka leguplássarými, en þó fyrst og fremst að bæta aðgengi og afkastagetu bráðaþjónustunnar.

hringurStarfsemin á Herlev sjúkrahúsinu snýr fyrst og fremst að bráðaveikindum ýmiskonar á lyf- og skurðlæknasviðum, m.a. bráðalækningum á kvensjúkdóma- og barnalæknissviði (þ.á.m. fæðingar og nýburadeild). Byggðar verða tvær tengdar bráðaeiningar, almenn bráðamóttaka og við hliðina fæðingar- og barnamóttaka. Í stærri kjarnanum (sjá mynd) verða svo einnig gjörgæslu-, skurð- og röntgendeildir/rannsóknadeildir. Þrjár hæðir af blönduðum skammtímalegudeildum fyrir ofan (sjá mynd), en sjúklingar sem þurfa lengri innlagnartíma fara inn á sérgreinadeildir gamla spítalans. Það er eitthvað annað en að smíða einn meðferðakjarna á miðri Hringbrautarlóðinni og ætla síðan að troða mest allri starfsemi spítalans inn í hann.

Nýi meðferðarkjarninn á Herlev verður um ca 60.000 fermetrar. Að þessu koma 15 vertakar sem saman taka ca 1 milljarð dk eða ca 18 milljarða íslenskar krónur að undanskildum arkitektakostnaði, fermetirinn þá á ca 300.000 ísl. kr. / fermetir tilbúið með starfsfólk á gólfinu. Byggingakostnaður á meðferðakjarna í sjálfri Kaupmannahöfn er tæplega helmingi lægri en nú er áætlaður á jafnstórum meðferðakjarna á Hringbrautarlóðinni. Framkvæmdir byrjuðu í lok árs 2015 og  á að verða lokið eftir tvö ár (2018). Óverulegt ónæði verður af framkvæmdunum, ólíkt því sem nú er á Hringbrautarlóðinni.

Herlev er háskólasjúkrahús með marga nemendur í heilbrigðisvísindum eins og önnur háskólasjúkrahús í Kaupmannahöfn. Kennslan er mikið klínísk og fræðilegir fyrirlestrar fara fram í fyrirlestrarsölum sjúkrahússins. Mikil ánæga hefur verið með þessa starfsemi. Einnig eru síðan klínísk próf tekin á Herlev með inniliggjandi sjúklingum. Mikil rannsóknarvinna fer þar einnig fram og er nemendum boðið að vera með og létta undir með prófessorunum sem þar starfa.

Hvað háskólamenn við HÍ hafa fyrir sér í því að spítalinn þurfa að byggjast nálægt háskólanum á kostnað aðstöðu og aðgengis sjúklinga og starfsfólks er óskiljanlegt. Auðvitað mundi „læknagarður“ (núverandi námsaðstaða heilbrigðissviðs) flytjast með sjúkrahúsinu. Gleymið ekki að til stendur að rífa gamla Læknagarð að mestu og byggja síðan nýja aðstöðu ofan í allt annað sem ekki er með í reiknuðum á byggingarkostnaði nú.

Undirbúningsvinnan öll frá því fyrir aldarmót þegar ákveðið var að sameina spítalana tvo, í Fossvogi og á Hringbrautarlóð, hefur verið mikið gagnrýnd af fagfólki á flestum stigum málsins. Gagnrýnin hefur hins vegar verið jafnóðum þögguð niður eftir að upphafleg ákvörðun var tekin sem nú er um tveggja áratuga gömul.

Enn er tími til stefnu að taka málið upp og endurskoða allt dæmið fyrir minni pening og jafnvel með  styttri byggingartíma en nú er áætlaður við Hringbraut (2023). En til þess þarf að vera pólitískur vilji. Danirnir eru svo sannarlega með þetta á hreinu, af hverju ekki við?

 

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/nyheder-og-presse/nyheder/Sider/Nyt-Hospital-Herlev-indg%C3%A5r-kontrakter-.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/akuthus/Sider/Indretning.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/Sider/default.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/Rensningsanlæg/Sider/default.aspx

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn