Þriðjudagur 24.05.2016 - 23:17 - FB ummæli ()

Nýtt höfuðborgarskipulag í þágu 101 Reykjavík !

aðals

Úr kynningu Dags B. Eggertsonar borgarstjóra Reykjavíkur – Þróunarás aðalskipulags 20. maí 2016

Nú skal ég taka strax  fram að ég er ekki sérfræðingur í borgarskipulagsmálum. En af tilefni nýrrar kynningar á borgarskipulagi Reykjavíkurborgar og þéttingu byggðar, aðallega kringum miðbæinn og sem starfandi læknir á höfuðborgarsvæðinu öllu í þrjá áratugi, kemst ég ekki hjá að leggja nokkur orð í belg. Kannski mest sem á rætur að rekja til umræðunnar á nýjum Landspítala á Hringbrautarlóð þar sem ég nú starfa og endurspeglast m.a. í rökum Samtaka um betri spítala á betri stað. Mér er í raun skylda til þess sem læknis og sem horfir upp á dragbít góðrar spítalaþjónustu næstu áratugina. Samkvæmt lækniseið gengur maður ekki fram hjá bráðveikum eða slösuðum manni og sem höfuðborgarbúi fylgi ég sannfæringu minni um gott skipulag, ekki síst á umferðinni, aðgengi að þjónustu og til verndar umhverfis og gamalla menningarverðmæta sem vill svo til að eru mest staðsettar í miðborginni sjálfri eins og gefur að skilja og mér þykir afskaplega vænt um.

stofnar-640x736

Meðfylgjandi kort er úr Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 en það sýnir fyrirhugaða legu megin stofnvega á höfuðborgarsvæðinu til þess tíma. „Besti staður“ fyrir spítalann er greinilega þar sem þessir aðal stofnvegir mætast.

Höfuðborg hlýtur að bera skyldur gangvart öllum landsmönnum og ekkert síður gagnvart nágrannabyggðum. Það kemur mér því sérstaklega á óvart að ofuráhersla skuli vera á að þétta byggðina kringum gamla miðbæinn á kostnað þéttingu úthverfanna. Að þar eigi mesta áherslan að vera á atvinnuuppbyggingu og atvinnutækifærum. Hvers eiga úthverfaíbúar að gjalda og sem í góðri trú festu sína búsetu í nýjum hverfum sl. áratugi og sem byggjast áttu síðan upp sem ein heild. Hvað réttlætir aðeins eina þéttingu og sem þar að auki er ofhlaðin þjónustu fyrir og takmörkuðu aðgengi og samgöngumöguleikum. Ofuráhersla á hótelbyggingar og þar sem varla má nú sjást grænn reitur. Vatnsmýrin þjónar nú, hvað sem verður í framtíðinni, sem aðal innanlandsflugvöllur landsins og nálægð þannig landsbyggðarinnar við opinbera þjónustu í miðbænum. Hvað réttlætir að á sama tíma og stefnt er að að láta flugvöllinn víkja vegna skorts á lóðum að þá skuli reist nýtt/gamalt 140.000 fermetra þjóðarsjúkrahús á gömlu og þröngri Hringbrautarlóðinni með flóknum bútasaum og óhagræði á allan hátt. Flugvöllurinn var þó forsenda staðarvalsins á sínum tíma um aldarmótin allt til ársins 2012 þegar þeirri forsendu var skyndilega kippt út vegna byggingaáforma í Vatnsmýrinni. Af hverju þá ekki að sama skapi staðsetningu spítalans? Nei mikill vill alltaf meira og ekki mátti hrófla við atvinnutækifærum í miðbænum á stærsta vinnustað landsins. Það verður aldrei bæði sleppt og haldið og ef flugvöllurinn fer að þá ætti borgin að þakka pent fyrir sig og finna spítalanum annan ákjósansamlegan stað eins og hún gerði þegar ákveðið var að reisa Borgarspítalann á sínum tíma. Ef borgin á annað borð leggur metnað sinn í að halda í þjóðarsjúkrahúsið.

Nýjasta borgarskipulagið geri nú ráð fyrir brú frá Skerjafirði yfir í Álftanes með þéttari byggð í Vatnsmýrinni og flugvöllurinn verður farinn eins og sjá má á myndinni hans Dags hér að ofan. Gott og vel og þá bættar samgöngur á landi og nýr samgönguás í austur til Hafnarfjarðar. Enn þéttist þá að sama skapi byggðin kringum Nýjan Landspítalann og enn minna rými verður til stækkunar síðar og eins nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja gott og öruggt sjúkraflug með þyrlum með opnum öryggissvæðum í kring. Spítali sem verður þá líka eins fjarri náttúrunni og hugsast getur og sem mikil áhersla er lögð á í bataferli sjúklinga nú á dögum. Bjart og opið svæði kringum allar legudeildir. Önnur bæjarfélög eiga líka eftir að stækka bæði í norður og austur frá borginni. Hvað með þeirra hagsmuni. Enn meiri umferðartrafík þá fyrirséð inn í gamla miðbæinn.

Hótelgræðgi Reykjavíkurborgar þessa daganna dæmir sig auðvitað sjálf og sem mest er fjármögnuð gegnum allskonar aflandsfélög. Miðbær Reykjavíkur er varla lengur fyrir Reykvíkinga og varla tíundi hver vegfarandi innlendur. Hvað þá í náinni framtíð. Látum hins vegar ekki borgarstjórn Reykjavíkur og stjórnvöld eyðileggja líka fyrir fyrir okkur nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á þjóðarsjúkrahúsi okkar allra í framtíðinni. Hvað segja eiginlega borgarbúar um þá einangrunarstefnu sem nú ríkir gagnvart úthverfunum í þágu 101 Reykjavík? Enn eins og ég sagði, ég er ekki skipulagsfræðingur. Almenn skynsemin mín æpir hins vegar á aðrar lausnir, ekki síst varðandi vanhugsuð byggingaáform á dýrustu og stærstu ríkisframkvæmd sögunnar og sem ég þekki ágætlega til. Á gamla góða Landspítalanum sem segja má líka að ég hafi alist að hluta upp á.

Öll viljum við auðvitað glæsilega miðborg í Reykjavík og tækifæri til að njóta sem best, m.a. sögu byggingarlistar þjóðarinnar. Öll hljótum við að vilja sem bestan þjóðarspítala á sem bestum stað og mikið betri en nú er áformað að byggja og sem átt hefur sér allt of langa og flókna sögu. Spítala sem kostar jafnvel miklu minna þegar upp er staðið, tekur jafnvel skemmri tíma að fullklára og endast mun langt fram í framtíðina, en ekki bara næstu tvo áratugina. Framkvæmd sem allt of margir stjórnmálamenn eru of stoltir til að viðurkenna mistökin á varðandi undirbúning og forsendur, þverpólitískt, með vinagreiða og hollustu við leiðtogana bæði hjá ríki og borg.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn